Björg Eva Erlendsdóttir
Björg Eva Erlendsdóttir
Hugur allra landsmanna er hjá Grindvíkingum vegna hugsanlegra náttúruhamfara, en á fjórða þúsund manns hefur flæmst frá heimilum sínum og 12. stærsta byggðarlag landsins stendur autt.

Hugur allra landsmanna er hjá Grindvíkingum vegna hugsanlegra náttúruhamfara, en á fjórða þúsund manns hefur flæmst frá heimilum sínum og 12. stærsta byggðarlag landsins stendur autt.

Grindvíkingum og landsmönnum öllum létti stórum í gær við að lesa opið bréf frá Björgu Evu Erlendsdóttur, framkvæmdastjóra Landverndar, til sveitarstjóra Grindavíkur, þar sem hún eyddi óvissunni: „Landvernd styður Grindavík“. Þá hlýtur allt að fara vel.

Tilefnið var spurning Morgunblaðsins fyrir helgi um hvort Landvernd myndi áfram streitast á móti varnargörðum, sem hún treysti sér ekki til þess að svara fyrr en eftir helgi, því Landvernd hefur alltaf nógan tíma. En hvað um Suðurnesjalínu 2, sem Landvernd hefur barist gegn árum saman og nú vantar tilfinnanlega?

Landvernd býður af veglyndi fram aðstoð sína, nú og í framtíð. Það hentar þessum áhugasamtökum að láta eins og bæði óyggjandi kennivald og stjórnvald, en þeim hefur orðið ótrúlega ágengt við að koma sér á opinbert framfæri og hafa einstæðan aðgang að grunnskólum til trúboðs.

Eftir sem áður er Landvernd lítið meira en flokksfélag í Vinstri grænum, eins og vel sást á því þegar Guðmundur Ingi Guðbrandsson labbaði úr Landvernd inn í ríkisstjórn án þess að spyrja kjósendur, nú eða þegar Björg Eva kom beint úr framkvæmdastjórastóli Vg yfir í Landvernd um daginn og enginn sá muninn.