Íbúar í Grindavík fengu að snúa aftur í gærmorgun til þess að forða verðmætum og öðrum nauðsynjum af heimilum sínum. Gátu íbúar séð í návígi þær skemmdir sem jarðhræringar síðustu daga hafa valdið á bænum, en ljóst er að mörg hús hafa stórskemmst.
Stór sprunga liggur í gegnum vesturhluta Grindavíkur á mörkum sigdals sem veðurfræðingar uppgötvuðu í fyrradag, en talið er að sigdalurinn hafi fyrst myndast í Sundhnúkagosinu sem varð fyrir rúmlega 2.000 árum.
Allir íbúar voru farnir aftur frá Grindavík kl. 16 í gær, en ekki var ljóst hvort þeir íbúar sem ekki komust í gær myndu fá að snúa aftur þangað í dag til að bjarga því sem þeim er kærast.
Kröftugur jarðskjálfti varð við austanvert Kleifarvatn kl. 21.09 í gærkvöldi. Varð skjálftans vart víða á suðvesturhorni landsins, en mælingar Veðurstofu bentu til að hann hefði verið 3,8 að stærð.
Alþingi tók til afgreiðslu frumvarp um vernd mikilvægra innviða á Reykjanesskaga í gær. Var frumvarpið samþykkt laust fyrir miðnætti með 57 atkvæðum.