Salur Skáksalurinn í Budva í Svartfjallalandi þar sem EM er haldið.
Salur Skáksalurinn í Budva í Svartfjallalandi þar sem EM er haldið.
Íslenska liðið í opna flokknum á Evrópumótinu í skák lagði það norska að velli, 2,5-1,5, í þriðju umferð mótsins í gær…

Íslenska liðið í opna flokknum á Evrópumótinu í skák lagði það norska að velli, 2,5-1,5, í þriðju umferð mótsins í gær þrátt fyrir að Magnus Carlsen, fyrrverandi heimsmeistari og stigahæsti skákmaður heims sem tefldi á fyrsta borði fyrir Noreg, ynni Hjörvar Stein Grétarsson nokkuð léttilega enda munar rúmum 300 skákstigum á þeim.

Hannes Hlífar Stefánsson vann sína skák á öðru borði og það gerði Hilmir Freyr Heimisson einnig á fjórða borði en Vignir Vatnar Stefánsson gerði jafntefli á þriðja borði.

Ísland er í 17. sæti af 38 liðum í opnum flokki eftir þrjár umferðir. LIðið tapaði illa fyrir Serbum í fyrstu umferð, 0-4, en vann síðan Kósovó 3-1 í annarri umferð. Pólverjar eru efstir, þá Þjóðverjar og Ísraelsmenn eru í þriðja sæti. Liðið mætir Ungverjum í fjórðu umferð í dag.

Mæta Norðmönnum í dag

Í kvennaflokki tapaði íslenska sveitin fyrir Tékkum, 1,5-2,5. Olga Prudnykova gerði jafntefli á fyrsta borði, Lenka Ptácníková tapaði á öðru borði, Jóhanna Björg Jóhannsdóttir vann á þriðja og Lisseth Acevedo Mendez gerði jafntefli á því fjórða.

Ísland er í 30. sæti af 32 í kvennaflokki eftir þrjár umferðir. Frakkar eru efstir, í öðru sæti er Aserbaídsjan og Þýskaland í þriðja sæti. Íslenska liðið mætir því norska í fjórðu umferð í dag.