Íslenskar knattspyrnukonur hafa á undanförnum árum verið afar sigursælar með félagsliðum sínum í Evrópu. Frá árinu 2015 hafa einhver af meistaraliðum í sterkustu deildum álfunnar ávallt verið með Íslending í sínum röðum

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Íslenskar knattspyrnukonur hafa á undanförnum árum verið afar sigursælar með félagsliðum sínum í Evrópu.

Frá árinu 2015 hafa einhver af meistaraliðum í sterkustu deildum álfunnar ávallt verið með Íslending í sínum röðum.

Nú um helgina varð Ingibjörg Sigurðardóttir norskur meistari, sem fyrirliði Vålerenga, eins og fjallað er um hér á síðunni. Hún vann sama titil líka fyrir þremur árum.

Fyrr á árinu fagnaði Glódís Perla Viggósdóttir þýska meistaratitlinum með Bayern München og hafði áður unnið þann sænska með Rosengård.

Guðrún Arnardóttir varð sænskur meistari með Rosengård bæði 2021 og 2022 og Svava Guðmundsdóttir varð norskur meistari með Brann árið 2022. Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, sem tók þátt í sigri Bayern München á þessu ári, varð líka þýskur meistari með stórliðinu árið 2021.

Sara Björk Gunnarsdóttir varð þar á undan þýskur meistari með Wolfsburg í fjögur skipti og hefur tvisvar orðið Evrópumeistari.

Dagný Brynjarsdóttir hefur orðið meistari í tveimur af bestu deildum heims, með Bayern í Þýskalandi árið 2015 og með Portland í Bandaríkjunum árið 2017.

Allar þessar konur hafa verið meira og minna í stórum hlutverkum í sínum meistaraliðum.

Íslenska kvennalandsliðið hefur notið þess að eiga fjölmarga leiðtoga sem spila í fremstu röð með sínum félagsliðum. Þær sem nú eru að stíga sín fyrstu landsliðsskref hljóta að njóta þess að eiga slíkar fyrirmyndir sem samherja og munu vonandi feta í fótspor þeirra.