Jóhann Rúnar Björgvinsson
Enn og aftur höfum við komið okkur í erfiða stöðu vegna hagstjórnarmistaka og er það ekki í fyrsta sinn í lýðveldissögunni.[i] Spurningin er hvort hin klassíska hagfræði[ii] hafi eitthvað til málanna að leggja í þessari stöðu sem hún hefur líklega komið okkur í. Í þessari grein verður gerð tilraun til að greina stöðuna og hugsa út fyrir boxið til að sjá hvort einhver sæmileg leið sé til út úr ógöngunum.
Orsakir verðbólgunnar
Við greiningu á orsökum verðbólgunnar má skipta tímabili síðustu missera í fyrir og eftir covid.
Í covid hrundi ein meginatvinnugrein landsmanna, ferðaþjónustan, sem hafði í för með sér mikinn samdrátt í útflutningstekjum og þar með veikingu krónunnar. Seðlabankinn hafði lítið bolmagn til að verja krónuna og halda genginu stöðugu sem hélst allveikt um alllanga hríð. Á þessu skeiði myndaðist mikill verðbólguþrýstingur eða það sem Keynes kallar „commodity/income inflation“. Afleiðingar urðu meðal annars hækkandi innflutningsverð sem ekki var eftirspurnardrifið með tilheyrandi kaupmáttarvörn.
Þá stóð hið opinbera að mikilli skuldsettri innspýtingu inn í hagkerfið til að halda uppi eftirspurn og atvinnustigi ásamt því að slaka á ýmsum fjárhagsskilyrðum í hagkerfinu. Í sama skyni lækkaði Seðlabankinn vexti verulega til að ýta undir lántökur og framkvæmdir. Mikil hækkun varð á húsnæðisverði í kjölfarið sem skapaði verðbólguþrýsting ásamt því sem sparnaðarmynstur hagkerfisins raskaðist verulega. Spurning er hvort peningamálaaðgerðir Seðlabankans hefðu átt að vera markvissari og beinast í meiri mæli að því að styrkja atvinnustigið (s.s. nýframkvæmdir) en ekki eftirspurn almennt. Slíkt hefði verið mögulegt á framboðshlið fjármagnsmarkaðarins í gegnum t.d. bindiskyldu og ýmis skilyrði útlána.
Eftir covid sótti ferðaþjónustan hratt fram til að ná fyrri styrkleika. Eftirspurn eftir vinnuafli, húsnæði og gistingu jókst verulega ásamt því sem aðrir markaðir eins og matvörumarkaður fóru ekki varhluta af þessari þensluþróun. Þessi þróun skapaði verulegan verðbólguþrýsting ásamt því sem sparnaðarhneigð efnaðri heimila leiðréttist vegna minni framtíðaróvissu. Augljóst er að rætur þessa þrýstings eru fyrst og fremst af erlendum toga, þ.e.a.s. í verulegri fjölgun ferðamanna og mikilli eftirspurn þeirra eftir vöru og þjónustu. Spurning er hvort verulegar vaxtahækkanir Seðlabankans slái á þessa viðbótareftirspurn eða hvort hún í raun auki verðbólguþrýstinginn þar sem vextir (í hagkerfi með breytilega vexti og litla samkeppni) verða í raun hluti af framleiðsluþáttum með tilheyrandi „mark-up“-áhrifum. Ljóst er þó að vaxtahækkanir hafa veruleg áhrif á eftirspurnargetu skuldsetta hluta hagkerfisins.
Núverandi staða
Ekki þarf að fjölyrða mikið um núverandi stöðu hagkerfisins, sem býr við hátt vaxtastig, yfirvofandi snjóhengju, ójafnvægi á húsnæðismarkaði, allnokkra lækkun kaupmáttar og mikla óvissu um verðbólguþróun.
Úrræði
Af ofangreindu má ráða að vaxtahækkanir eru ekki mjög markvissar eða hnitmiðaðar aðgerðir til að ná jafnvægi á hinum fjölmörgu mörkuðum hagkerfisins hér á landi, en þær eru það sem hin klassíska hagfræði leggur til og flestir fylgja. Hún dugar líka vel í flestum hagkerfum þar sem neytendur eru tiltölulega stabíll hópur, gjaldmiðillinn sterkur og samkeppni virk. Öðru máli gegnir þegar neytendahópurinn sveiflast verulega eða vex mikið ár frá ári, gjaldmiðillinn er veikur og samkeppni ábótavant. Hér þarf að skoða og meta gaumgæfilega þá hvata sem eru að verki í hagkerfinu ef góður árangur á að nást í hagstjórn.
Til að leiðrétta núverandi kúrs þarf mjög líklega að hugsa út fyrir boxið. Fljótt á litið kemur eftirfarandi upp í hugann:
1. Hröð vaxtalækkun/leiðrétting myndi auðvelda verulega kjarasamninga og draga úr yfirvofandi snjóhengju (með allri þeirra skaðsemi). Í staðinn þyrfti Seðlabankinn að vera hnitmiðaður með beitingu stýritækja á framboðshlið fjármagnsmarkaðarins, þ.e.a.s. með bindiskyldu og ströngum útlánaskilyrðum. Skynsamleg útfærsla á þeirri stefnubreytingu gæti einnig létt verulega á miklu ójafnvægi á húsnæðismarkaði (skorti á nýframkvæmdum) sem ekki sér fyrir endann á.
2. Þá þarf að skoða gaumgæfilega hvort mögulegt sé að bæta tekjustofna sveitarfélaga svo hægt sé m.a. að afleggja svokallaðan byggingarréttarskatt sem í gegnum árin hefur verið mikill skaðvaldur við hagstjórn þar sem hann hefur komið beint inn í verðbólgumælingar (sjá fyrrnefnda grein 88). Sömuleiðis þarf að skapa heildstæða og heilbrigða umgjörð um nýframkvæmdir, s.s. er varðar lóðaúthlutanir, byggingaverktöku og hag húseigenda, þannig að ekki skapist stirður fákeppnismarkaður með tilheyrandi skaða.
3. Einnig er spurning hvort stærsta atvinnugrein landsmanna, ferðaþjónustan, sem á sinn þátt í þessu ójafnvægi, geti ekki lagt meira til samneyslunnar, viðhalds vega o.s.frv.
[i] Sjá grein 88 í greinasafni mínu frá 2009.
[ii] Sjá Paul Davidson, The Keynes Solution (2009) og Who's afraid of JM Keynes (2017).
Höfundur er fv. starfsmaður ÞHS, FJR og AGS.