Ingibjörg Árnadóttir var fædd 22. október 1924 á Bragagötu 27 í Reykjavík. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Sóltúni, 1. nóvember 2023.
Móðir Ingibjargar var Ólafía Guðrún Helgadóttir, f. á Patreksfirði 10.9. 1900, d. 6.4. 1954, og faðir hennar var Árni Árnason, f. 23.4. 1893, d. 23.8. 1977, frá Hurðarbaki í Flóa.
Eftirlifandi systkini Ingibjargar eru Sigurður, f. 1934, og Halldóra, f. 1941. Látin eru Helgi, f. 1926, d. 1990, Guðrún, f. 1928, d. 2002, Ingólfur, f. 1931, d. 2012, Þuríður, f. 1933, d. 2016, og Arnheiður, f. 1937, d. 2020.
Eiginmaður Ingibjargar var Hörður Hafliðason, f. 4. mars 1923, d. 17. september 1982. Þau gengu í hjónaband 13. maí 1950. Börn þeirra eru 1) Auður, f. 2.7. 1952, maki Þorvaldur Árnason, f. 22.1. 1952. Börn Auðar og Þorvaldar eru Hörður Már, f. 1974, Halldóra, f. 1982, og Árni, f. 1984. Dóttir Þorvaldar er Hafdís Helga, f. 1972. 2) Guðrún, f. 29.1. 1957, maki Axel Sölvi Axelsson, f. 5.10. 1952. Börn Guðrúnar og Axels Sölva eru Hörður Hafliði, f. 1983, Berglind, f. 1986, og Axel, f. 1996. 3) Kristjana, f. 8.1. 1959, maki Vilhjálmur Freyr Jónsson, f. 18.10. 1965, d. 20.8. 2012. Dóttir Kristjönu er Inga Sóley, f. 1979. Börn Kristjönu og Vilhjálms Freys eru Jón Snævar, f. 1997, og Steinunn Snædís, f. 1998. 4) Hafliði Bárður, f. 17.4. 1963, maki Ragna Kristjánsdóttir f. 1960. Barn Hafliða Bárðar er Alexandra Ingrid, f. 1993, barn Rögnu og stjúpsonur Hafliða Bárðar er Kristján, f. 1991. 5) Björk, f. 17.4. 1963, börn hennar eru Bárður Jökull, f. 1994, og Hekla, f. 2006.
Inga, eins og hún var alltaf kölluð, ólst upp í Sogamýrinni (Rauðagerði) í stórum systkinahóp, gekk í Laugarnesskóla, lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Reykjavíkur og síðar húsmæðraskólaprófi. Sem ung stúlka starfaði hún við skrifstofustörf hjá Kron og Mjólkursamsölunni. Inga starfaði sem skólaritari í Hlíðaskóla frá árinu 1972 allt þar til hún hætti störfum. Inga vann til fjölda verðlauna á skíðum, var margfaldur Reykjavíkurmeistari, Íslandsmeistari þrjú ár í röð, keppti í rúmlega áratug og bar nafnbótina skíðadrottning Íslands í mörg ár. Inga starfaði mikið fyrir skíðadeild Ármanns, bæði við kennslu og skíðamót. Hún sat í aðalstjórn Ármanns og í stjórn skíðadeildar félagsins í mörg ár og fór margoft sem fararstjóri með keppendur frá Reykjavík út á land.
Ingibjörg hlaut gullmerki Glímufélagsins Ármanns og var heiðursfélagi í Jöklarannsóknafélagi Íslands.
Útför Ingibjargar fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 16. nóvember 2023, klukkan 13.
Þar sem jökulinn ber við loft, hættir landið að vera jarðneskt, en jörðin fær hlutdeild í himninum, þar búa ekki framar neinar sorgir, og þessvegna er gleðin ekki nauðsynleg, þar ríkir fegurðin ein, ofar hverri kröfu.
(Halldór Laxness)
Mamma elskaði fjöllin, jöklana, snjóinn, sólina, storminn og náttúruna í allri sinni mynd.
Hún var langt á undan sinni samtíð hvað varðar útivist og hreyfingu, var óhrædd við að fara sínar leiðir og ögra sjálfri sér. Æskuár mömmu og systkina hennar einkenndust af íþróttum og útiveru með hvatningu frá foreldrunum. Útivist var hennar líf og yndi og var hún dugleg að deila því með systkinum sínum, börnum og barnabörnum.
Af eljusemi hóf hún að stunda fimleika og síðar skíðaæfingar í Jósepsdalnum með Ármenningum, þar kynntist hún pabba og eignaðist marga af sínum bestu vinum. Þau pabbi voru félagar í Alpaklúbbnum, vinahópi, sem kom saman á hálfsmánaðarfresti yfir vetrartímann. Hópurinn kom að stofnun Jöklarannsóknafélagsins og Flugbjörgunarsveitarinnar enda kom reynsla af útivist og skíðaiðkun sér vel í ferðum vísindamanna á jöklum og hálendi Íslands. Þau voru á meðal frumkvöðla í jöklaferðum og hafa ófáir fetað í spor þeirra og notið þeirrar þekkingar sem þau hjónin og félagar öfluðu sér.
Mamma varð margfaldur Íslandsmeistari á skíðum, fór meðal annars til Svíþjóðar veturinn 1947 og æfði með sænska landsliðinu í Åre. Hún minntist þessa tíma með mikilli gleði.
Mamma var í aðalstjórn Ármanns og í stjórn skíðadeildar, fór alloft sem fararstjóri með keppendur úr Reykjavík, hlaut gullmerki Ármanns og er heiðursfélagi í Jöklarannsóknafélagi Íslands.
Upp úr sextugu hóf hún að stunda golf hjá GR, þar eignaðist hún góðar vinkonur sem hittust fram að covid. Þá tók hún þátt í félagsstarfi Korpuúlfa. Foreldrar okkar byggðu sér af miklum dugnaði heimili í Grundargerði, þar var ávallt líf og fjör og við systkinin eigum öll óteljandi góðar minningar. Nánast öllum frítíma á æskuárum okkar var varið á fjöllum við skíðaiðkun, fjallgöngur og ferðalög, oft lá leiðin í Jökulheima þar sem pabbi var að dytta að húsakosti og snjóbílum Jöklarannsóknafélagsins.
Við misstum föður okkar alltof snemma og var það mömmu mikill missir að sínum besta vini og félaga, þau voru einstaklega samrýmd og áttu sameiginleg áhugamál, fjöllin blá og fjölskylduna. Þá kenndi mamma okkur að lífið heldur áfram og nauðsynlegt er að njóta hvers dags. Hún var dugleg að ferðast eftir andlát pabba, dvaldi hjá hjá Lillu systur sinni í Ameríku, fór í heimsreisur, skíðaferðir og til sólarlanda.
Mamma tók mikinn þátt í lífi okkar, fylgdist af áhuga með námi og íþróttaiðkun, samgladdist þegar vel gekk og hvatti okkur áfram þegar eitthvað bjátaði á. Hún elskaði Bláfjöllin og að horfa á ömmu- og langömmubörnin keppa. Þá var hún mikill aðdáandi íslensku landsliðanna í fótbolta og handbolta bæði kvenna og karla og missti helst ekki af leik í beinni útsendingu.
Við ferðalok kveðjum við mömmu með söknuði og þakklæti en getum svo sannarlega yljað okkur við góðar minningar.
Auður, Guðrún, Kristjana, Hafliði Bárður og Björk.
Takk besta amma mín fyrir allt.
Þú ert okkar allra besti stuðningsmaður, með óbilandi trú og áhuga á þínu fólki. Mikil ævintýrakona, skíðadrottning, frumkvöðull og fyrirmynd! Við höldum áfram með allar góðu minningarnar með ömmu Ingu.
Þú varst frábær.
Hörður Már og fjölskylda.
Amma Inga mun alltaf eiga stað í hjarta okkar systkinanna. Hún var hlý, ákveðin, skilningsrík og alltaf til í að taka á móti barnabörnunum í heimsókn.
Eftir standa ótal fallegar minningar. Það var alltaf gott að vera í pössun hjá ömmu í Grafarvoginum þegar ég var yngri. Við röltum niður á golfvöll og púttuðum saman eða sátum heima og spiluðum veiðimann og ólsen-ólsen. Síðan seinna þegar Hekla var lítil í sólstofunni á Sléttuvegi og amma sótti fram dótakassann.
Það er erfitt að hugsa til þess að geta ekki kíkt aftur í kaffi til ömmu Ingu eftir vinnu og rabbað um daginn og veginn. Að geta ekki boðið henni á næstu kórtónleika hjá mér eða næsta fimleikamót hjá Heklu. Að geta ekki sýnt henni myndirnar úr næstu gönguferð og farið yfir ferðasöguna þegar ég kem heim því hún var alltaf til staðar fyrir okkur, hvað sem það var.
Hún sýndi alltaf áhuga hverju því sem við tókum okkur fyrir hendur og studdi okkur óendanlega mikið, hvort sem það var skólinn, dansinn, fótboltinn, fimleikarnir eða pílagrímsgöngur.
Það er sárt að sakna en gott að ylja sér við minningarnar og hugsa til hennar á lokaferðalaginu handan hulunnar á endurfundi við alla sem stungu af þangað á undan henni.
Þar sem englarnir syngja sefur þú
sefur í djúpinu væra.
Við hin sem lifum, lifum í trú
að ljósið bjarta, skæra
veki þig með sól að morgni.
Farðu í friði, vinur minn kær,
faðirinn mun þig geyma.
Um aldur og ævi þú verður mér nær,
aldrei ég skal þér gleyma.
Svo vöknum við með sól að morgni. (Bubbi Morthens)
Bárður Jökull og Hekla.
Elsku amma.
Ég hugsa til baka. Fyrstu minningarnar hjá ömmu í Grundó, í sumri og sól úti í fallega garðinum, ævintýraferðirnar út í skrúðgarð og allir göngutúrarnir. Amma hafði sérstakt dálæti á okkur barnabörnunum og stoltið og gleðin skein alltaf af ömmu Ingu. Og alltaf var hún með útbreiddan faðminn tilbúin til að knúsa okkur og hughreysta.
Amma var mikil íþróttakona, frumkvöðull kvenna á skíðum á Íslandi, margfaldur Íslandsmeistari, æfði fimleika og var svo í Jöklarannsóknarfélaginu. Hún elskaði útiveru og landið sitt. Og svo lagði hún mikinn metnað í að kenna okkur barnabörnunum hvað öll fjöll og firðir landsins hétu og hversu mikilvægt það væri að hugsa vel um landið okkar.
Skíðaíþróttin er ættarsportið okkar, það er óskrifuð regla að allir sem einn læri á skíði og í Bláfjöllum höfum við átt frábærar fjölskyldustundir þar sem amma Inga hefur fylgst með sínum stóra hópi æfa, keppa og skemmta sér á skíðum með miklu stolti. Amma hafði áhuga á öllum íþróttum, hún mætti helst á öll mót og hvatti sitt fólk til dáða og alltaf var hún jafn ánægð með mann, sama hvernig gekk. Fannst sínir afkomendur alltaf langflottastir, sama hvað.
Eftir að ég varð fullorðin fann ég hvað mér fannst gott að tala við ömmu. Við gátum talað um allt milli himins og jarðar. Sátum frá dagsbirtu og langt fram á kvöld við kertaljós og spjölluðum og skildum svo ekki í því hvað tíminn leið hratt. Við vorum trúnaðarvinkonur og ég var fljót að finna að ömmu gat ég sagt allt.
Ég mun sakna þess að spjalla við þig elsku amma mín, hlæja með þér og njóta. Þú kunnir svo sannarlega að njóta lífsins og þann eiginleika mun ég alltaf reyna að tileinka mér líka. Ég finn svo sterkt fyrir þér í hjartanu og veit að þú verður alltaf stór hluti af mér.
Takk fyrir að vera hlýjasta amma og mín traustasta vinkona, þú gafst mér svo margt elsku amma mín og ég er lánsöm og þakklát fyrir að hafa átt þig.
Þín
Halldóra.
Ingibjörg Árnadóttir (Inga Árna) var elsta barn Árna Árnasonar og Guðrúnar Helgadóttur, sem var systir ömmu okkar bræðra, Halldóru Helgadóttur. Amma Halldóra bjó í sama húsi og við, á Hringbraut 48 og síðan í Grænuhlíð 6 þar til hún lést. Inga Árna og Hörður Hafliðason og börn þeirra bjuggu í Safamýri.
Inga sótti mikið til frænku sinnar, ömmu Halldóru, á Hringbrautina, eftir fráfall móður hennar 1954. Hún og Þórunn (Tóta) mamma urðu miklar vinkonur og hélst sú vinátta ævilangt. Einnig náðu Hörður og Gísli, faðir okkar, vel saman, járnsmiður og vélstjóri. Mikill samgangur var þarna á milli, sérstaklega meðan börnin voru ung og amma Halldóra lifði. Við bræður vorum þrír og börn Ingu og Harðar fimm. Heimsóknir voru tíðar og oft komið saman af sérstöku tilefni, vegna afmæla, ferminga og hátíða eða bara til að hittast. Vinkonutengsl Ingu og mömmu Tótu voru sérstaklega sterk, þær hittust reglulega og á efri árum spiluðu þær bridds saman, ásamt Rannveigu (Rannsý), dóttur Guðbjargar Helgadóttur (Guggu), móðursystur Ingu, og Guðrúnu (Gógó), systur Ingu. Var þá oft glatt á hjalla. Í minningunni kemur fram ilmur af nýbökuðum kökum, sérríi og ómur af samræðum glæsilegra kvenna við græna borðið. Svipað og spilakvöldin hjá ömmu Halldóru og vinkonum hennar, sem eru okkur í barnsminni.
Eftir að Inga og mamma voru báðar orðnar rígfullorðnar, Inga varð 99 ára og mamma er að verða 97, reyndu þær samt að hittast reglulega, ekki síst á dvalarheimilinu í Sóltúni þar sem Inga dvaldi síðustu árin, á deild með Kristni Hafliðasyni (Ninna), frænda sínum og föðurbróður okkar, sem náði 100 ára aldri. Þá var margt gamalt og gott rifjað upp. Við strákarnir af Hringbrautinni minnumst Ingu Árna með þakklæti og virðingu. Hún var einstaklega góð kona og frá henni stafaði mikil hlýja. Þegar við hittumst brosti hún svo fallega, spurði fregna af áhuga og maður skynjaði djúpa væntumþykju. Líf Ingu Árna var ekki alltaf dans á rósum, það blés harkalega á móti fyrir fjölskylduna þegar makinn féll frá á besta aldri. Hörður, eiginmaður Ingu, lést aðeins 59 ára að aldri, sem var gríðarlegt áfall. Á slíkum stundum er gott að vera samheldinn hópur og að hafa umvefjandi hendur til að lina sorgina. Það þarf samheldni og kærleika þegar erfiðleikar steðja að.
Nú er komið að leiðarlokum á langri og viðburðaríkri ævi. Við minnumst Ingu Árna með sérstakri hlýju og þökkum fyrir gleðina sem hún veitti okkur. Börnum hennar, Auði, Guðrúnu, Kristjönu, Björk og Bárði, og fjölskyldum þeirra sendum við innilegar samúðarkveðjur.
Þórunn Guðmundsdóttir, Hafliði Pétur, Guðmundur og Ingólfur Gíslasynir.
Margt ég vildi þakka þér
og þess er gott að minnast.
Að þú ert ein af þeim sem mér
þótti gott að kynnast.
(GS)
Hugurinn leitar aftur til góðs tíma í Hlíðaskóla. Inga var skólaritari í Hlíðaskóla um 20 ára skeið. Starf skólaritara er eitt af mikilvægustu störfum í skóla. Sérstaklega áður fyrr á tímum símaskiptiborðs, sprittfjölritara og fleiri frumstæðra tækja. Inga var hvers manns hugljúfi, hækkaði nánast aldrei róminn; kunni að hlusta.
Inga átti stóran systkinahóp, fimm börn og einstakan eiginmann, Hörð, sem féll skyndilega frá á besta aldri. Afkomendur hennar voru margir og hún hugsaði vel um sitt fólk eins og aðra. Hún var eiginlega framkvæmdastjóri stórrar fjölskyldu.
Inga var mjög félagslynd. Hún var Ármenningur og skíðadrottning Íslands um árabil.
Við tókum upp á því í Hlíðaskóla að fara með elstu nemendurna í tveggja sólarhringa skíðaferðir í Skálafell. Fyrst í KR-skálann og síðan í skíðaskála Hrannar. Þetta var fyrst og fremst skíðakennsla, þar sem skálunum var lokað á meðan Inga kenndi unglingunum á skíði úti í brekku. Ég var líka í brekkunni með verkfæri til að gera við skíðabindingar því skíðaútbúnaður var mjög bágborinn á þessum árum. Inga hafði þau áhrif á unglingana að þau langaði til að fara meira á skíði, sem þau og gerðu. Skíðaferðirnar í Skálafell og síðan söngleikirnir sem voru fluttir í Hlíðaskóla eru án efa það sem unglingarnir í elsta bekk muna hvað best eftir.
Minningin um góða og lífsglaða konu lifir. Blessuð sé minning hennar. Ástvinum Ingu votta ég mína dýpstu samúð.
Fljúgðu hátt, fagra sál.
Árni Magnússon,
fv. skólastjóri.
Inga Árna var frumkvöðull í jöklaferðum og fór sína fyrstu vorferð með Jöklarannsóknafélaginu á Vatnajökul árið 1956. Þá var einnig með í för Hulda Filippusdóttir, jafnaldra hennar sem kvaddi fyrir tveimur árum. Báðar voru gerðar að heiðursfélögum JÖRFÍ fyrir framlag sitt til félagsins. Inga var mikil útivistarmanneskja og tók þátt í skíðakeppnum á yngri árum. Hana vantaði eitt ár í verða 100 ára og afrekaði margt á langri ævi.
Upphafsár Jöklarannsóknafélagsins á 6. áratug síðustu aldar hafa lengi verið sveipuð nokkrum ljóma. Frásagnir af ævintýralegum snjóbílaferðum á víslum og Gusa Guðmundar Jónassonar vitna um liðinn tíma þegar fyrstu skrefin til skipulegra rannsókna á Vatnajökli voru stigin. Sá sem þetta ritar byrjaði að fara í vorferðir 1987. Tungnaá var brúuð 1968 og sá tími því löngu liðinn að fara þyrfti Hófsvað á vörubílum með snjóbíla á palli á leið í Jökulheima. Loran-tæki voru komin í snjóbílana og því hægt að ferðast með öryggi um jökulinn þó ekkert væri skyggnið. Aðstæður voru því gjörólíkar því sem var á 6. og 7. áratugnum. Í vorferðinni 1992 tók þátt kona nokkur, nærri sextugu, sem sá sem þessar línur ritar hafði ekki hitt áður. Þetta var Inga Árna. Hún var augljóslega margreynd og kippti sér ekki upp við smámuni. Auðvelt var að kynnast Ingu, hún hafði góða nærveru og kunni frá mörgu að segja frá upphafsárum vorferða. Skyndilega varð til tenging við þessa ævintýralegu tíma sem lýst er í ferðasögum í Jökli. Jafnframt tókst vinátta sem haldist hefur alla tíð. Inga hélt áfram að taka þátt í vorferðum allt fram á fyrstu ár þessarar aldar. Minnisstæð er stutt ferð í kjölfar vorferðar 2007 með nokkrum heiðursfélögum, en flest höfðu þau komið að fyrstu skálabyggingunni á Grímsfjalli 50 árum áður. Vatnajökull skartaði sínu fegursta – það var eins og allt legðist á eitt við að gera þessa afmælisferð sem besta. Þarna var Inga, komin á níræðisaldur, í essinu sínu eins og jafnan á jökli. Hún var reynslubolti en síung í anda. Inga var glaðsinna, kunni að njóta stundarinnar og segja sögur á réttum augnablikum. Ég minnist hennar með þakklæti og hlýju og votta aðstandendum samúð.
Magnús Tumi
Guðmundsson.