Ellert Eiríksson, fyrrverandi bæjarstjóri Reykjanesbæjar, lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 12. nóvember síðastliðinn, 85 ára að aldri. Ellert fæddist 1. maí 1938 á Járngerðarstöðum í Grindavík, sonur Eiríks Tómassonar og Hansínu Kristjánsdóttur

Ellert Eiríksson, fyrrverandi bæjarstjóri Reykjanesbæjar, lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 12. nóvember síðastliðinn, 85 ára að aldri.

Ellert fæddist 1. maí 1938 á Járngerðarstöðum í Grindavík, sonur Eiríks Tómassonar og Hansínu Kristjánsdóttur. Flutti þriggja ára gamall til Keflavíkur. Þar gekk hann í skóla og var í fyrsta útskriftarhópnum frá Gagnfræðaskólanum í Keflavík.

Aðeins fjórán ára hóf Ellert störf hjá Keflavíkurbæ sem flokksstjóri í unglingavinnu sem þá var starfrækt í fyrsta sinn. Næstu árin stundaði hann svo fjölbreytt störf sem messagutti, kokkur, barþjónn og var lærlingur í slitlagagerð hjá bandarísku verktakafyrirtæki á Keflavíkurflugvelli.

Ellert kom til starfa aftur hjá Keflavíkurbæ á sjöunda áratugnum og varð yfirverkstjóri hjá áhaldahúsi bæjarins. Áhugi á stjórnmálum var Ellert eðlislægur og aðeins tólf ára að aldri gekk hann til liðs við Sjálfstæðisflokkinn. Á árunum 1987 til 1990 tók hann svo alloft sæti á Alþingi sem varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjaneskjördæmi.

Sveitarstjóri í Gerðahreppi var Ellert 1982 til 1990 og bæjarstjóri í Keflavík 1990 til 1994. Varð þá fyrsti bæjarstjóri sameinaðs sveitarfélags Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna sem fékk nafnið Reykjanesbær. Því starfi gegndi hann til ársins 2002.

Auk sveitarstjórnarmála sinnti Ellert ýmsum öðrum félagsmálum. Var félagi í JC Suðurnes og Lionsklúbbi Keflavíkur. Þá hafði hann mikinn áhuga íþróttum.

Eftirlifandi eiginkona Ellerts er Guðbjörg Sigurðardóttir. Dóttir þeirra er Guðbjörg Ósk. Börn Ellerts frá fyrra hjónabandi eru Eiríkur (látinn), Jóhannes og Elva. Börn Guðbjargar eru Sigurður Ingi, Páll og Una Björk.

Útför Ellerts fer fram frá Keflavíkurkirkju fimmtudaginn 23. nóvember kl. 13.