Kjartan Magnússon
Hugur allra Íslendinga er nú með Grindvíkingum, sem þurftu að yfirgefa heimkynni sín í skyndi vegna jarðhræringa. Mikilvægt er að við veitum Grindvíkingum lið svo aðstæður þeirra raskist sem minnst þrátt fyrir þessar miklu breytingar á högum þeirra. Reykjavíkurborg mun ekki láta sitt eftir liggja í þeim efnum. Við Íslendingar höfum áður sýnt að við stöndum saman sem einn maður frammi fyrir römmum náttúruöflum.
Nýtt gostímabil hafið
Atburðir síðustu daga hafa komið mörgum á óvart. Brýnt er að draga lærdóm af þeim og meta hugsanlega þróun jarðvirkni á Reykjanesskaga á næstu áratugum og þær hættur sem henni geta fylgt. Í þessu gildir að vona hið besta en vera jafnframt viðbúin hinu versta.
Jarðhræringar undanfarinna ára sýna, svo ekki verður um villst, að nýtt gostímabil er hafið á Reykjanesskaga, sem gæti staðið áratugum eða öldum saman. Jarðvísindamenn segja að Íslendingar verði að læra að lifa með þeim veruleika að Reykjanesskagi sé aftur kominn í gang. Ef sú er raunin er ólíklegt að eldvirknin einskorðist við eitt eldstöðvakerfi. „Reynslan segir okkur að þegar þetta fer í gang fer allt í gang,“ sagði Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur í Bítinu á Bylgjunni sl. mánudag.
Undanfarin ár hefur athyglin eðlilega beinst að jarðhræringum við Fagradalsfjall, Svartsengi og Reykjanes. Rétt er að meta einnig hugsanlegar afleiðingar eldvirkni í eldstöðvakerfum nær höfuðborgarsvæðinu, þ.e. Krýsuvík, Brennisteinsfjöllum (Bláfjöllum) og Henglinum.
Síðasta eldsumbrotaskeið á Reykjanesskaga stóð frá 950 til 1240. Þá gaus í fjórum kerfum: Brennisteinsfjöllum, Krýsuvík, Svartsengi og Reykjaneskerfinu.
Íbúabyggð og innviðir
Líta verður til jarðvirkni á Reykjanesskaga við allt skipulag og innviðauppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu til framtíðar. Á það ekki síst við um skipulag nýrrar íbúabyggðar, vegi og flugvelli. Áhættumeta þarf nýbyggingarsvæði og leggja áherslu á að byggja þar sem minnst hætta er á tjóni af völdum eldgosa.
Öryggi í samgöngum
Flestum er orðið ljóst að hugmyndir um flugvöll í Hvassahrauni eru óraunhæfar vegna jarðhræringa og eldgosahættu eins og jarðvísindamenn hafa margoft bent á. Fásinna væri að leggja flugvöll svo nálægt virku eldsumbrotasvæði og því verður að skoða aðra og öruggari kosti.
Óverjandi er því að halda áfram að sóa hundruðum milljóna til frekari rannsókna vegna flugvallar í Hvassahrauni. Stöðva á fjáraustur í slíkt gæluverkefni, sem virðist hafa þann tilgang helstan að friða flugvallarandstæðinga í Reykjavík.
Mikilvægi Reykjavíkurflugvallar
Jarðvísindamenn útiloka ekki að kröftugt eldgos geti orðið á Reykjanesskaga, sem gæti haft alvarleg áhrif á flug og jafnvel lokað Keflavíkurflugvelli með litlum sem engum fyrirvara. Varað hefur verið við þeim möguleika að hraun renni bæði yfir Reykjanesbraut og Suðurstrandarveg en einnig gæti öskugos gert flugvöllinn óstarfhæfan um tíma.
Ef slíkar aðstæður kæmu upp væri afar slæmt ef annar flugvöllur væri ekki í nágrenni höfuðborgarsvæðisins þar sem Reykjavíkurflugvallar nyti ekki lengur við. Því ber að tryggja starfsemi flugvallarins og sjá til þess að hann geti áfram gegnt hlutverki sínu sem varaflugvöllur fyrir Keflavíkurflugvöll.
Brýnt er að meirihluti borgarstjórnar hætti að þrengja að Reykjavíkurflugvelli en viðurkenni mikilvægt og margþætt hlutverk hans fyrir innanlandsflug, sjúkraflug, björgunarflug og sem varaflugvöllur Keflavíkurflugvallar.
Höfundur er borgarfulltrúi og varaþingmaður.