Guðmundur Karl Halldórsson, rútubílstjóri og fyrrverandi varðstjóri hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, hefur í tvígang komist í návígi við eldgosahættu en síðastliðinn föstudag hljóp hann í skarðið og ferjaði Grindvíkinga frá bænum á rútunni sinni eftir að Almannavarnir tóku ákvörðun um að rýma bæinn.
Guðmundur starfaði einnig við Kröfluvirkjun frá 1977-1978 á upphafsárum Kröfluelda.
Gat ekki bara hlaupið burt
„Ég var að vinna fyrir Kröflunefnd og við vorum þarna tveir sem vorum eftir að vakta svæðið, en maður fór einn á vakt upp við Víti þannig að maður var með augu á Leirhnjúki og gat sagt til ef þar myndi byrja að gjósa,“ segir Guðmundur og heldur áfram:
„Maður var þarna margar nætur og það var oft og tíðum grenjandi stórhríð þar sem maður sá ekki neitt en var samt látinn vera þarna uppi og þurfti bara að fylgjast með hvort eitthvað myndi gerast,“ segir hann og hlær.
Guðmundur viðurkennir að það sé orðið svo langt síðan að hann muni ekki nákvæmlega hvenær hann var við störf á svæðinu en á endanum hafi verið ákveðið að hann skyldi yfirgefa það.
„Þetta var um hávetur, þannig að maður gat ekki bara hlaupið í burtu,“ segir hann aðspurður hvort auðvelt hefði verið að forða sér ef eitthvað hefði komið upp.
Fimmtíu árum seinna
Tæpum fimmtíu árum seinna fékk Guðmundur það verkefni að flytja Grindvíkinga úr bænum vegna eldgosahættu.
Hann segir að það hafi verið óhugnanlegt að sjá myndir sem birtust af bænum sólarhring eftir að hann ók um göturnar og stórar sprungur höfðu myndast í bænum:
„Þetta hefði getað gerst hvenær sem var og það sló svolítið hjartað í manni þegar maður áttaði sig á þessu.“
Hann segir að hringt hafi verið í sig um hálftólfleytið á föstudagskvöldið og hann hafi verið lagður af stað með síðustu farþegana um klukkan tvö aðfaranótt laugardags.
Hann lýsir því þegar skjálftinn reið yfir svæðið og hvernig hann upplifði skjálftann beint undir fótum sér: „Maður færðist bara til á gólfinu,“ segir hann og „þá fyrst áttaði maður sig á því hvað íbúarnir eru búnir að ganga í gegnum“.
Jarðskjálftarnir í Grindavík voru ekki sambærilegir þeim sem hann upplifði á Kröflu. Hann rifjar upp að miklar hljóðbylgjur hafi vanalega komið á undan skjálftunum þar en þeir hafi ekki verið með sama hætti beint undir fótunum. geir@mbl.is