Sláturhús Arctic Fish í Bolungarvík tók nýverið í notkun nýja frárennslislausn Dystia, fyrst laxeldisfyrirtækja. Um er að ræða heildarlausn á frárennslisvanda í laxeldi.
„Með því að taka í notkun þetta nýja vatnshreinsikerfi erum við að innleiða kröfur framtíðarinnar. Allt frárennsli úr nýju vinnslunni okkar í Bolungarvík fer í gegnum kerfið og því fullhreinsað frá okkur. Í stuttu máli hefur lausnin frá Dystia staðist allar væntingar og við hlökkum til að taka forystu á þessu sviði,“ segir Kristján Rúnar Kristjánsson, framkvæmdastjóri laxavinnslu Arctic Fish.
Guðjón Ingi Guðjónsson framkvæmdastjóri Dystia er sannfærður um ágæti kerfisins og segir að líklega sé ekkert fyrirtæki á landinu, óháð starfsemi, með betri hreinsun á frárennsli en Arctic Fish. „Við bjóðum eina fullkomnustu hreinsilausn í laxvinnslu sem völ er á í heiminum með fullri þjónustu, uppsetningu og ábyrgð, auk þess að vera mjög samkeppnishæf í verði. Í tilviki Arctic Fish tókum við þátt í útboði á uppsetningu heildstæðrar hreinsilausnar og unnum þar strax okkar fyrsta útboð, sem segir sína sögu. Að sama skapi er ánægjulegt að finna hve mikinn metnað forvígismenn Arctic Fish leggja í þetta verkefni.“
Hráefni úr nærumhverfinu
Frárennslismál eru vaxandi áskorun í flestum atvinnugreinum og hafa yfirvöld víða gert strangari kröfur til fyrirtækja. Einnig hefur iðnaðurinn sjálfur i sinni markaðssetningu lagt áherslu á hreinleika, en neytendur gera jafnframt sífellt stífari kröfur til afurðanna sem þeir neyta.
Vegna þessa telur Guðjón Ingi mikilvægt að koma í veg fyrir að mengun og sjúkdómar berist frá sýktum löxum við slátrun út í sjó með frárennslisvatninu. Það sé því mikilvægt að sótthreinsa frárennslisvatn áður en því er hleypt frá vinnslunni í sjó, en vatnshreinsilausn Dystia nýtir klór við sótthreinsunina og er það best þekkta og ein áhrifaríkasta aðferðin við sótthreinsun á vatni, að sögn Guðjóns Inga.
„Áhersla okkar hjá Dystia á umhverfismál og grænar lausnir eru alltaf í forgrunni. Það speglast m.a. í því að auk þess að leggja til þrautprófaðan og öruggan vélbúnað erum við með Dystia-klórkerfi í lausninni fyrir Arctic Fish. Kerfið framleiðir klór í lágum styrk úr sjó með rafmagni til þess að hreinsa úrganginn. Með því að framleiða klórinn á staðnum með hráefni úr nærumhverfinu, í stað þess að nota innfluttan klór, er komið í veg fyrir óþarfa kolefnisspor og hættu á umhverfisslysi í flutningi eða á staðnum. Dystia-klórkerfið er lokað þannig að starfsfólk þarf ekki að meðhöndla efnið sjálft á neinu stigi. Efnið er því 100% vistvænt og leysist upp í náttúrunni eftir að hafa gert sitt gagn.“
Hann segir áhuga íslenskra sem erlendra fyrirtækja á þessari þriggja þrepa hreinsilausn fyrir laxaslátrun ekki leyna sér.