Nagli Tréverk skipsins forna umhverfis hnoðin var aldursgreint.
Nagli Tréverk skipsins forna umhverfis hnoðin var aldursgreint. — Geir Grønnesby/Vísindasafn NTNU
Skipsgröf sem norskir fornleifafræðingar fundu í Leka í Þrændalögum er frá því fyrir víkingaöld og gæti því, að sögn Geirs Grønnesby stjórnanda uppgraftarins, þurft að endurskoða vissa þætti í sagnfræði Norðurlanda þar sem hér er komin elsta skipsgröf sem fundist hefur í Skandinavíu

Atli Steinn Guðmundsson

atlisteinn@mbl.is

Skipsgröf sem norskir fornleifafræðingar fundu í Leka í Þrændalögum er frá því fyrir víkingaöld og gæti því, að sögn Geirs Grønnesby stjórnanda uppgraftarins, þurft að endurskoða vissa þætti í sagnfræði Norðurlanda þar sem hér er komin elsta skipsgröf sem fundist hefur í Skandinavíu.

Reiknast fornleifafræðingunum til að gröfin sé frá árinu 700 um það bil, tímabili sem kennt er við Mervíkinga, franska konungaætt sem taldi sig beina afkomendur Jesú Krists.

„Maður hafði kannski vonast til að hún væri svo gömul sem raun ber vitni en engu að síður kemur það á óvart,“ segir Grønnesby við norska ríkisútvarpið NRK en Gemini, tmarit Tækniháskólans í Þrándheimi og SINTEF-tækni- og nýsköpunarstofnunarinnar, fjallar einnig um þennan sérstæða fund, skipsgröf frá því löngu fyrir víkingaöld þegar almennt var talið að tekið hefði verið að greftra höfðingja í skipum sínum.

Aldursgreining tréverks skipsins í gröfinni gefur aldurinn til kynna svo óyggjandi telst og segir Grønnesby að smíði stærri skipa hafi því hafist mun fyrr en talið var og sambandið við umheiminn því verið meira. „Þegar einhver smíðar stórt skip ætlar hann sér að sigla um langan veg á því,“ segir fornleifafræðingurinn enn fremur.

Höf.: Atli Steinn Guðmundsson