Áslaug Nú er hún alsæl með báðar hendur óbrotnar og gifslausar og leikur við hvurn sinn fingur.
Áslaug Nú er hún alsæl með báðar hendur óbrotnar og gifslausar og leikur við hvurn sinn fingur.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Að handleggsbrotna er leiðindamál, en maður reynir að gera gott úr því. Ég velti fyrir mér af hverju engar fréttir eru sagðar af okkur venjulega fólkinu sem dettur úr…

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Að handleggsbrotna er leiðindamál, en maður reynir að gera gott úr því. Ég velti fyrir mér af hverju engar fréttir eru sagðar af okkur venjulega fólkinu sem dettur úr vinnu vegna beinbrota, því við fáum oft fréttir af íþróttafólki sem tognar í nára og getur ekki keppt um tíma,“ segir Áslaug Jónsdóttir teiknari og rithöfundur sem gerði einmitt gott úr sínu broti, bjó til kynjaverur á gifsaðan handlegg á hverjum degi frá beinbroti í 34 daga, tók myndir af þeim og samdi síðan limrur við hverja þeirra. Afraksturinn hefur hún gefið út á bók, hvers heiti er Allt annar handleggur.

„Ég hefði alveg viljað segja að ég hafi brotnað vegna þess að ég var í ísklifri eða að hlaupa maraþon, en ég datt á jafnsléttu á ganginum heima hjá mér og fallið var líkt og í skrípamynd. Eins og sannur sveitamaður var ég að skondrast um á sleipum ullarsokkum og hoppaði yfir ryksugu sem var á ganginum, lenti á plastþynnum sem ég ekki sá og skautaði á þeim eins og í Disneymynd, flaug upp í loft og skall svo niður og braut minn handlegg. Þessi vonda ákvörðun, að stökkva yfir ryksuguna, skrifast á lætin í mér, flýtinn. Sem betur fer brotnaði vinstri höndin, í ljósi þess að ég er rétthent, en þetta reyndist samt ótrúlega mikil fötlun fyrir manneskju sem vinnur með höndunum við að teikna og skrifa.“

Gömul símtengi og tappar

Áslaug segist hafa fengið að velja lit á gifsið á bráðamóttökunni og hún valdi hárauðan.

„Ég var mjög pirruð yfir þessu beinbroti og vorkenndi mér mikið með þessa ónothæfu hönd, en mér fannst hún samt skrautleg svona rauð og það kveikti hugmyndina að fyrstu fígúrunni sem ég bjó til strax eftir að ég kom heim af bráðadeildinni. Ég fann fjaðrir og pappír og úr varð fiðraða óheillakrákan sem ég tók mynd af og sendi vinum og vandamönnum með upplýsingum um ástand mitt. Í framhaldinu ákvað ég að gera nýja fígúru á hverjum degi og senda mynd til þeirra sem voru alltaf að spyrja hvernig ég væri í hendinni,“ segir Áslaug og bætir við að líkt og aðrir listamenn sé hún mikill dótasafnari.

„Fyrir vikið á ég alls konar drasl, krukkur, garnflækjur, tappa, gömul símtengi og ótal margt fleira, enda sé ég efnivið í nánast öllu,“ segir Áslaug sem einnig leitaði fanga í fata- og matarskápum sem og eldhússkúffum, en á einni myndinni er t.d. eggjaskeri í hlutverki lýru sem Gunnólfur lýruleikari spilar á.

Áslaug vildi ekki gera sér verkið of auðvelt, heldur mátulega ögrandi.

„Ég mátti ekki nota neitt annað en það sem var hendi næst og þegar til á heimilinu, ekkert mátti kaupa nýtt til fígúrugerðar og allt varð að skapa á örskömmum tíma. Ég tók myndina alltaf strax og gerði það á i-pad, haldandi á honum með hökunni af því að vinstri höndin var upptekin við að leika hlutverk, en hin þurfti að gera allt hitt. Þetta var smá bras en varð svo skemmtilegt, ég var alltaf að kíkja eftir drasli í kringum mig sem mögulegum efnivið í næstu persónu handarinnar. Ég var aldrei búin að ákveða fyrir fram hvernig persónu ég ætlaði að búa til næst, heldur lét ég einhvern hlut kveikja hugmynd. Ég varð eins og barn sem fær að fara í draslskúffu og búa eitthvað til. Ég naut þess að leika mér eins og barn, enda er það mjög skemmtilegt og þetta hjálpaði sannarlega geðheilsunni. Við fullorðna fólkið leikum okkur ekki nógu mikið, ég vona sannarlega að bókin mín geti verið innblástur fyrir aðra til að leika sér.“

Rímorð limru réðu hlutverkum

Áslaug lét ekki duga að búa til fígúrur heldur setti hún líka saman limrur sem túlka hverja persónu.

„Ég hef í ritstörfum mínum samið alls konar vers og vísur í bundnu máli og ég hef samið söngtexta í leikritunum mínum. Ég dró til dæmis fram kveðskap Jónasar Árnasonar og kynnti mér hvernig limrur væru samansettar, því ég vildi hafa þetta bragfræðilega rétt. Ritstjóri minn og útgefandi, Aðalsteinn Ásberg, fór vel yfir limrurnar svo allt væri rétt og ég þurfti litlu að breyta,“ segir Áslaug og bætir við að nöfn og hlutverk handarpersóna hafi komið eftir á þegar hún setti saman limrurnar.

„Stundum var eitthvert rímorð sem réð því hvað persónan var að gera, til dæmis var ég lengi að glíma við Dómhildi sem er að lesa agnarsmáa bók með leikriti eftir Shakespeare. Þetta var skemmtileg þrautaleikfimi,“ segir Áslaug sem í bókarlok telur upp efniviðinn í hverri persónu.

„Þar má til dæmis sjá að nærbuxur eru efniviður í síðustu persónu á degi 34, ég vöðlaði nærbuxum á höndina, teiknaði auga á fingurnögl og þá var hann hugfangni Hallmundur fullskapaður,“ segir Áslaug og tekur fram að á síðustu myndum bókarinnar sé búið að taka af henni gifsið og hún komin með svarta spelku.

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdóttir