Fyrirliði Ólafur Ólafsson er fæddur og uppalinn í Grindavík en hann ræddi meðal annars um jarðhræringarnar í bænum í Dagmálum Morgunblaðsins.
Fyrirliði Ólafur Ólafsson er fæddur og uppalinn í Grindavík en hann ræddi meðal annars um jarðhræringarnar í bænum í Dagmálum Morgunblaðsins. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
„Við æfðum í Seljaskóla á þriðjudaginn og þá var ég í raun að hitta alla liðsfélagana aftur eftir að ákveðið var að rýma Grindavíkurbæ,“ sagði Ólafur Ólafsson, fyrirliði Grindavíkur í körfuknattleik, í Dagmálum Morgunblaðsins

„Við æfðum í Seljaskóla á þriðjudaginn og þá var ég í raun að hitta alla liðsfélagana aftur eftir að ákveðið var að rýma Grindavíkurbæ,“ sagði Ólafur Ólafsson, fyrirliði Grindavíkur í körfuknattleik, í Dagmálum Morgunblaðsins.

„Við spiluðum gegn Þór frá Þorlákshöfn í Grindavík á fimmtudaginn síðasta en okkur leið samt eins og við hefðum ekki hist í einhverja þrjá mánuði. Það er ótrúlega skrítið að vera ekki heima í Grindavík að æfa og þetta er allt saman frekar óraunverulegt. Ég er að reyna að vera harður og sterkur fyrir framan fjölskylduna en það er erfitt. Það var því gott að koma á æfingu, hitta strákana, brosa og gleyma sér aðeins,“ sagði Ólafur.

Framhaldið hjá Grindvíkingum er algjörlega óljóst en næsti leikur liðsins er gegn Hamri. Til stóð að leikurinn færi fram í Grindavík en hann mun nú fara fram í Smáranum í Kópavogi vegna jarðhræringanna og hættu á eldgosi í Grindavík.

„Ég geri ráð fyrir því að það verði margt fólk í Smáranum á laugardaginn og ætli það verði ekki bara 4.000 manns á leiknum því það er enginn þeirra í bænum í það minnsta. Íþróttir eru það sem sameinar fólk í Grindavík og körfuboltinn hefur verið mjög stórt hluti af samfélaginu. Ég vona að fólk mæti á völlinn, gleymi sér aðeins, hugsi um eitthvað annað en hvað ef og fái smá vind í seglin,“ sagði Ólafur meðal annars. bjarnih@mbl.is