Höfundur Reiði og vanmáttartilfinning er eðlileg eftir atburð sem þennan og slíkt þarf að ræða svo sárin grói. Allar spurningar eru eðlilegar. Mestu skiptir að minnast þeirra sem voru sviptir lífi sínu,“ segir Sigríður Dúa.
Höfundur Reiði og vanmáttartilfinning er eðlileg eftir atburð sem þennan og slíkt þarf að ræða svo sárin grói. Allar spurningar eru eðlilegar. Mestu skiptir að minnast þeirra sem voru sviptir lífi sínu,“ segir Sigríður Dúa. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Örlagasagan hefur fylgt mér og mínum alla tíð,“ segir Sigríður Dúa Goldsworthy. „Þau voru alltaf með fjölskyldunni, partur af okkur. Mér hafði alltaf verið sagt frá þeim, myndirnar af þeim voru með myndunum af okkur og sögur um…

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Örlagasagan hefur fylgt mér og mínum alla tíð,“ segir Sigríður Dúa Goldsworthy. „Þau voru alltaf með fjölskyldunni, partur af okkur. Mér hafði alltaf verið sagt frá þeim, myndirnar af þeim voru með myndunum af okkur og sögur um þau voru sagðar eins og sögur um aðra í fjölskyldunni, alla mína ævi. Ég var um tvítugt þegar amma mín fór að biðja mig að skrá sögu þeirra, segja mér ýmislegt meira úr sinni ævi og einnig að skrá sögu Huldu Karenar og barna hennar. Fleira lagðist til og þegar fram liðu stundir gerði ég mér ljóst að mér væri bókstaflega ætlað að segja frá.“

Kom að fólkinu látnu í húsi í Kvosinni

Á dögunum kom út bók Sigríðar Dúu Morðin í Dillonshúsi. Öðrum þræði er bók þessi saga Sigríðar Ögmundsdóttir, móðurömmu höfundarins, en fleira er fléttað með svo úr verður fjölskyldusaga. Forleggjari bókarinnar, sem er rúmlega 300 blaðsíður, er Ugla – útgáfa.

Bókin heitir eftir þeim sorglega atburði sem frásögnin endar á. Sá er að 26. febrúar árið 1953 valdi Sigurður Magnússon, lyfjafræðingur í Reykjavíkurapóteki, að binda enda á líf sitt og fjölskyldu sinnar. Þetta voru Hulda Karen Larsen kona hans og þrjú börn þeirra, Magnús, Sigríður Dúa og Ingibjörg Stefanía, sem voru 3-6 ára. Sigurður gaf fólki sínu banvæna blásýru sem hann tók sjálfur líka. Stundu eftir inntökuna kom Sigríður, móðir Huldu Karenar, að fólkinu látnu. Þetta gerðist í svonefndu Dillonshúsi, sem þá stóð á horni Suðurgötu og Túngötu í Kvosinni í Reykjavík. Um 1960 var húsið flutt í Árbæjarsafn og er þar í öndvegi.

Sólskinsbarn og hlaupadrengur á plani

Sigríður Ögmundsdóttir kom ung vestan af Snæfellsnesi til Reykjavíkur, það er eftir að hús foreldra hennar – æskuheimilið – brann. Við þann atburð tvístraðist heimilið og æskunni lauk hjá elstu börnunum. Sigríður fór eftir þetta fyrst til vistar á bænum Ljárskógum sem er í Hvammsveit í Dölum. Hélt síðan til Reykjavíkur í leit að framtíð og betra lífi, rétt eins og svo óteljandi Íslendingar hafa á öllum tímum gert. Komin til Reykjavíkur – án nokkurs baklands þar – réð Sigríður sig í vist hjá fjölskyldu í hinni betur megandi borgarastétt. Sú vist reyndist ekki það sem samið hafði verið og eftir ítrekaðar tilraunir tókst Sigríði að fá sig lausa. Fór þá að vinna við saumaskap og kynntist þá dönskum manni, Kai Larsen, sem hér starfaði við landmælingar. Sá varð barnsfaðir hennar.

Leiðir Sigríðar og Kai skildi fljótt en í bókinni er Sigríði fylgt gegnum árin í Reykjavík, þar sem margt drífur á dagana. Dóttirin Hulda Karen fylgir móður sinni og í frásögn birtist hún sem sólskinsbarn. Eftir mörg og oft erfið ár í Reykjavík gerist það svo að Sigríður kynnist Karli Dúasyni. Þau ákváðu að spinna þráðinn saman og héldu á heimslóð Karls norður á Siglufjörð. Þar byggðu þau sér hús og eignuðust barnahóp.

Hulda Karen, dóttir Sigríðar, átti góð æskuár á Siglufirði og þar kynntist hún Sigurði Magnússyni sem komið hafði norður í sumarvinnu, til þess að vinna sem hlaupadrengur á plani í síldarbænum. Þau urðu ástfangin og héldu til Reykjavíkur, hvar Sigurður nam lyfjafræði og fór að starfa við Reykjavíkurapótek.

Geðsjúkdómar og ósnertanlegt fólk

„Fjölskyldusögunni var haldið að mér, meðal annars frásögnum ömmu minnar og hundruðum bréfa,“ segir Sigríður. „Svo kom að því að Ásdís, systir Áslaugar móður minnar, sem var til heimilis í Dillonshúsi þegar harmleikurinn dundi yfir, fór að segja mér frá lífinu þar. Sagði frá Huldu Karen, börnunum og Sigurði sem gekk ekki heill til skógar. Hann hafði fengið heilahimnubólgu sem sagt var að orsökuðu geðræn veikindi hans. Að hluta til getur slíkt verið skýring en einnig komu til ofskynjanir, manía og þunglyndi.“

Sigríður Dúa getur þess að lengi hafi verið miklir fordómar gagnvart geðsjúkdómum og svo sé raunar enn. Sagt hafi verið fyrrum að slík veikindi snertu aðeins þá sem minna mættu sín. Ósnertanlegt að þessu leyti væri fólk af fínum ættum sem Sigurður vissulega var: sonur Magnúsar Sigurðssonar, bankastjóra Landsbanka Íslands, og í móðurætt barnabarn Magnúsar Stephensen landshöfðingja.

„Sigurður var hjá læknum sem útskrifuðu hann of fljótt; í raun fársjúkan. Þar læt ég mér detta í hug að staða hans og ætt gæti hafa haft áhrif. Veikindin tóku á alla sem næst honum stóðu en fátt var gert. Annað sem hér kemur til er að á þessum tíma var litið stundum svo á að heimilisfaðir og kvæntur maður ætti fjölskyldu sína. Réði örlögum hennar. Tel ég það hafa haft mikil áhrif á það að Sigurður framdi þennan hræðilega verknað.“

Mikil heimildavinna liggur að baki bókarskrifunum. Fyrir margt löngu kynntu Sigríður Dúa og Ásdís móðursystir hennar sér á Þjóðskjalasafni gögn um morðin í Dillonshúsi sem tiltæk voru: svo sem skýrslur lögreglu og lækna. Hún las einnig allt sem skrifað hafði verið um þennan harmleik í dagblöðum. Og alveg fram á síðasta ár bárust fyrir tilviljun ýmsar heimildir sem nýttust í bókina.

Fjögur tímabil

„Ég var búin að gera grind eða leggja línur að þessari bók ásamt því að skrifa uppkast að köflum áður en ég einsetti mér að ljúka verkinu. Í endanlegri útgáfu skiptist bókin niður í fjögur tímabil,“ segir Sigríður Dúa.

Fyrsta tímabilið spannar árin 1917-1927 og segir frá árum Sigríðar í Reykjavík. Næst kemur tímabilið 1927-1944 þegar fjölskyldan bjó í Hvanneyrarhlíð á Siglufirði. Næs koma svo árin 1944-1950: þá kynnist Hulda Sigurði og flytur til Reykjavíkur. Loks kemur tímabilið 1950-1953 þegar veikindi Sigurðar fara að gera vart við sig og Siglufjarðarfjölskyldan fer suður.“

Atburður sem leitar á

Sigríður Dúa ólst upp í Njarðvík með móður sinni og systur í fjölskylduhúsi við Klapparstíg þar í bæ. Þar bjuggu einnig móðursystkini Sigríðar Dúu og amma hennar og afi, þau Sigíður og Karl, sem sköpuðu sér nýtt líf suður með sjó. Bókarhöfundur segir eftirtektarvert að amma sín, Sigríður Ögmundsdóttir, hafi aldrei brotnað né verið bitur.

„Ég velti því stundum fyrir mér úr hvaða gæðastáli hún amma mín var. Hún lést 1992, þá rúmlega níræð. Styrkur hennar var mikill og aðdáunarverður. Missir dóttur og barnabarna var stærsta en ekki eina áfallið sem hún þurfti að takast á við. Trúin held ég að hafi hjálpað henni mikið,“ segir Sigríður Dúa og að síðustu:

„Ýmsir hafa á síðustu vikum sent mér skilaboð vegna bókarinnar; meðal annars sonur manns sem starfaði með Sigurði í Reykjavíkurapóteki. Atburðurinn hafði leitað á þann mann alla tíð, spurningar um hvers vegna ekki hefði verið gripið í taumana svo veikur hefði Sigurður verið þessi síðustu ár sín. Reiði og vanmáttartilfinning er eðlileg eftir atburð sem þennan og slíkt þarf að ræða svo sárin grói. Allar vangaveltur og spurningar um málið eru eðlilegar.

Mestu skiptir að skrá söguna og minnast þeirra sem voru sviptir lífi sínu, svo og þeirra sem eftir lifðu.“