Hermann Nökkvi Gunnarsson
hno@mbl.is
Grindvíkingurinn Katrín Sigurðardóttir segir í samtali við Morgunblaðið að óvissan sé það sem er erfiðast fyrir Grindvíkinga um þessar mundir. Ómögulegt sé að skipuleggja líf sitt fram í tímann og spurð út í líðan þeirra Grindvíkinga sem hún hefur talað við segir hún:
„Biðin er verst því að við vitum ekki neitt. Það væri betra ef við vissum að húsið væri undir hrauni því að þá gætum við bara byrjað á núllpunkti. Þessi óvissa er svo hrikalega erfið.“
Katrín fór í húsið sitt á mánudag til að ná í eigur sínar og segir hún að erfitt hafi verið að ákveða hvað ætti að ná í. Hún fékk tíu mínútur í húsinu og náði meðal annars í föt á sjálfa sig en einnig skyrtur af eiginmanni sínum sem lést fyrir þremur mánuðum. Systir hennar náði í uppþvottalög. „Maður tekur bara eitthvað.“
Þeir Grindvíkingar sem hún hefur talað við eru ekki komnir með nein langtímaúrræði og eru búnir að koma sér fyrir hjá vinum og ættingjum eða í sumarbústöðum. Erfitt sé að skipuleggja fram í tímann. „Við vitum ekki hvort það verður gos og við vitum ekki hvort húsið okkar fer. Á meðan öll þessi óvissa er getum við í raun ekkert gert nema tekið þetta einn dag í einu,“ segir Katrín.
Rafmagn fór af austurhluta Grindavíkur síðdegis og var ekkert hægt að aðhafast í gær án þess að fara á vettvang, segir í svörum HS Veitna. Staðan er stöðugt endurmetin og í dag verður ástandið metið í birtunni.
Ljóst er að veitukerfi HS Veitna í Grindavík er víða laskað vegna jarðskjálfta og jarðgliðnunar sem orðið hefur. Í hluta bæjarins er hvorki heitt vatn né rafmagn sem stendur og óvissa ríkir um hvort og hvenær starfsfólk HS Veitna getur gert við kerfið.
Skiptar skoðanir um gos
Skiptar skoðanir eru meðal jarðfræðinga um hverjar líkurnar séu á eldgosi nú. Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði, segir í samtali við Morgunblaðið að líkurnar á eldgosi séu nú 30%. Áður hafði hann sagt líkurnar vera 40% og þar á undan 60%. „Eftir því sem lengra líður frá finnst mér draga úr líkum á gosi, alla vega á reininni sem er næst Grindavík, en það getur alveg gosið enn þá, við erum ekkert sloppin með það.“
Ármann Höskuldsson, prófessor í eldfjallafræði við Jarðvísindastofnun HÍ, segir hins vegar ekki spurningu um hvort heldur hvenær byrji að gjósa. Hann segir að kerfið á Reykjanesskaganum sé nú að jafna sig eftir átökin um helgina, en á sama tíma ætti það að vera orðið reiðubúið að gjósa eftir 10-20 daga.