Gerður Huld Arinbjarnardóttir, eigandi kynlífstækjaverslunarinnar Blush, segist vera mjög róleg týpa sem getur verið ein svo dögum skipti. Hún var gestur Evu Ruzu og Hjálmars Arnar í Bráðavaktinni.
„Mér leiðist aldrei og get verið ein með sjálfri mér svo dögum skipti. Ég hef ekki mikla þörf fyrir að vera í miklum samskiptum við annað fólk. Ég nýt fólks í litlu magni,“ segir Gerður og segir mikinn misskilning að hún sé mjög félagslynd og þurfi alltaf að vera út um allt. Hún segist eiga um sautján mismunandi tegundir af náttfötum og sér líði best heima hjá sér.
En á dögunum hélt hún eitt allsherjarpartí fyrir sterkustu vörumerki Blush þar sem hún breytti versluninni í skemmtistað í nokkra klukkutíma.
„Það er biluð vinna sem fer í svona undirbúning. Þetta var ofboðslega vel heppnað og skemmtilegt og gaman hvað margir gátu mætt.“ Hún skrifaði undir samning um nýtt verslunarhúsnæði fyrir nokkrum dögum en segist ekki tilbúin að segja frá hvar ný verslun verður til húsa.
Gerður segist hafa hugsað að hún geti ekki verið „Gerður í Blush“ að eilífu.
„Oft festast nöfn við einstaklinga og þó þau hætti með fyrirtækið þá fer nafnið ekki. En þetta hefur gengið það vel að ég er alveg til í að vera Gerður í Blush það sem eftir er og verð líklega þekktust fyrir það.“