Halldór Benjamín Þorbergsson
Halldór Benjamín Þorbergsson
Almannarómur hefur borið ábyrgð á að hrinda í framkvæmd máltækniáætlun stjórnvalda.

Halldór Benjamín Þorbergsson

Þegar Vigdís Finnbogadóttir tók við embætti forseta Íslands sumarið 1980 var henni íslenskan hugleikin og sagði þá meðal annars:

„Við erum oft á það minnt að það er íslensk tunga sem öðru fremur gerir okkur að Íslendingum. Tungan geymir sjóð minninganna, hún ljær okkur orðin um vonir okkar og drauma. Hún er hið raunverulega sameiningartákn okkar og sameiningarafl. En íslensk tunga gerir okkur ekki bara að Íslendingum; hún gerir okkur að mönnum. Hún gerir okkur að heimsþegnum sem ber skylda til að leggja sem mestan skerf til stöðugra framfara mannsandans.“

Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og tæknibreytingar rutt sér til rúms sem ekki voru fyrirséðar. Sem betur fer eru flestir sammála um að láta íslenskuna ekki lúta í lægra haldi fyrir nýrri tækni og tæknibreytingum. Við viljum geta talað við tækin á okkar eigin tungumáli og viljum að sífellt flóknari tölvur og alls kyns tæki geti skilið bæði ritað og mælt íslenskt mál. Til þess að svo geti orðið þurfa að verða til umfangsmiklir gagnabankar meðal annars um orð, texta og hljóð tungumálsins. Verkefnin eru fjölmörg og kallast almennt máltækni.

Á næsta ári á sjálfseignarstofnunin Almannarómur 10 ára afmæli. Stofnaðilar voru nokkur íslensk fyrirtæki, félagasamtök og stofnanir. Meginmarkmið Almannaróms eru þrjú:

„Að tryggja að íslenska standi jafnfætis öðrum tungumálum í tækniheiminum.

Að vernda íslenska tungu.

Að stuðla að aðgengi almennings og atvinnulífs að nauðsynlegri tækni.“

Almannarómur hefur borið ábyrgð á að hrinda í framkvæmd máltækniáætlun stjórnvalda. Alþingi hefur veitt myndarlegt fé til máltækninnar undanfarin ár og ráðherrar mennta og menningar verið eindregnir stuðningsmenn máltækni og lagt fram tillögur fyrst um undirbúning máltækniáætlunar og svo til framkvæmdarinnar. Formlega hófst fyrsta áætlunin 2018 og hafa þegar verið birtar viðamiklar skýrslur og greinargerðir um það sem áunnist hefur. Máltækni er frábært dæmi um pólitíska og víðtæka samfélagslega samstöðu um mál þar sem hagsmunir þjóðarinnar eru settir í öndvegi. Markmiðið er einfalt. Að tryggja að á íslensku megi alltaf finna svar.

Höfundur er stjórnarformaður Almannaróms.

Höf.: Halldór Benjamín Þorbergsson