Sigurður Þorkell Árnason fæddist í Reykjavík 15. mars 1928. Hann lést á líknardeild Landakotsspítala 29. október 2023.

Foreldrar: Steinunn Magnúsdóttir, f. 28.8. 1897, d. 7.12. 1971, og Árni Þorkelsson, f. 24.6. 1888, d. 17.7. 1932. Systkini Sigurðar voru: Magnús Árnason, f. 11.3. 1922, d. 19.11. 1971; Anna Árnadóttir, f. 6.7. 1923, d. 20.2. 1996; Eyjólfur Árnason, f. 11.12. 1924, d. 9.8. 2008; Ásdís Árnadóttir, f. 6.11. 1926, d. 15.1. 1986, og Sigurbergur Árnason, f. 25.11. 1930, d. 11.11. 2008.

Sigurður giftist Halldóru Eddu Jónsdóttir, f. 30.11. 1957. Saman eignuðust þau þrjú börn: Jón Viðar, f. 21.6. 1958, Steinunni Viðar, f. 18.3. 1960, og Magnús Viðar, f. 6.1. 1966. Fyrir átti Sigurður soninn Þorvald, f. 30.9. 1951.

Þorvaldur er kvæntur Herdísi Ástráðsdóttur, f. 10.7. 1953. Börn þeirra eru Ástríður Elsa, f. 20.11. 1978, Theódóra, f. 20.1. 1982, og Davíð Ingi, f. 19.8. 1985. Barn Ástríðar er Þorvaldur Ingi Elvarsson, f. 9.9. 1999. Eiginmaður Theódóru er Jóhann Kristinn Ragnarsson, f. 27.2. 1984, börn þeirra eru Herdís Björg, f. 6.6. 2006, Ragnar Dagur, f. 6.12. 2012, og Sigursteinn Ingi, f. 8.7. 2014.

Jón Viðar er giftur Katrínu Dóru Valdimarsdóttur, f. 23.5. 1957. Þau eru búsett í Ósló og eiga Sigurð Viðar, f. 20.8. 1978, og Kristbjörgu Eddu, f. 3. 12. 1990. Sigurður er búsettur í Ástralíu, hans dóttir er Íris Katrín, f. 12.1. 2015, sambýlismaður Kristbjargar er Sunny Islam, f. 15.5. 1990.

Steinunn Viðar er gift Páli Hjalta Hjaltasyni, f. 7.8. 1959. Þau eiga soninn Alexander Viðar, f. 3.5. 1995.

Magnús Viðar er kvæntur Ilmi Kristjánsdóttur, f. 19.3. 1978. Þau eiga soninn Hring Viðar, f. 1.1. 2014. Önnur börn Magnúsar eru Kristján, f. 30.3. 1985, Birna Sif, f. 24.7. 1987 og Birgir Viðar, f. 19.5. 1991. Kristján, búsettur í Svíþjóð, er í sambúð með Cecelia Nancke. Hann á þrjá syni, Óskar, f. 4.12. 2010, Leonard, f. 22.2. 2021 og Noah Frans Nancke, f. 17.1. 2023. Birna Sif er gift Þorsteini Atla Georgssyni, f. 12.1. 1986, þau eiga Unnstein Arnar, f. 10.5. 2013, og Júlíönu Ólöfu, f. 13.6. 2019. Stjúpdóttir Magnúsar er Auður Aradóttir, f. 23.5. 2006.

Sigurður ólst upp í foreldrahúsum við Framnesveginn í Vesturbænum. Hann var 14 ára er hann fór fyrst til sjós.

Sigurður var í Miðbæjarbarnaskólanum, lauk prófi á mótornámskeiði Fiskifélags Íslands 1947, fiskimannaprófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík 1951, farmannaprófi frá sama skóla 1953 og skipstjóraprófi frá varðskipadeild sama skóla 1955.

Sigurður varð skipherra á Sæbjörg árið 1958 og varð síðan skipherra á öllum helstu varðskipum Landhelgisgæslunnar og starfaði við allar deildir Gæslunnar. Sigurður gekk í land 1989.

Frá 1966 til 2021 bjuggu Sigurður og Edda í Laugarnesinu í Reykjavík, Edda fluttist þá á Hrafnistu, Sigurður flutti þá á Kleppsveg 62 og bjó þar seinustu æviárin.

Útförin fer fram frá Laugarneskirkju í dag, 16. nóvember 2023, klukkan 13.

Elsku tengdafaðir minn er látinn, 95 ára gamall.

Hann Siggi var nagli. Bjó einn fram á síðustu daga. Hann hampaði sér aldrei, kvartaði aldrei. Í brúnni stýrði hann, hélt utan um áhöfnina sína og saman unnu þeir þrekvirki í öllum aðstæðum á hinum ýmsu varðskipum. Það vita allir.

En ekki vita margir að Siggi var yndislegur afi og barnagæla. Það þekkti ég svo vel. Svo yndislegt þegar hann tók afabarnið á hnéð og oft tók hann úrið af sér til að leika með barninu. Þetta þekkja barnabörnin hans, ekki síst hann Alexander. Svo fallegt að horfa á þá saman og mikil gleði. Öll hin börnin nutu þess einnig.

Oft var farið í ísbúðina. Þegar mánaða dóttir mín kom í heimsókn á Otrateiginn vildi afi gefa henni ís. Þá var tekist á og elsku Edda studdi móðurina. Stundum bíó og svo allar góðu minningarnar.

Eitt kvöldið koma Siggi og Edda með flotta saumavél á Sogaveginn. Dóttirin og tvær tengdadætur eignuðust einnig svona gripi. Þetta var mikill fengur.

Gott var að eiga Sigga og Eddu að. Alltaf til staðar, hjálpaði við allar aðstæður, ekki síst við byggingarframkvæmdir.

Eftir nírætt keyrði Siggi bílinn sinn og fór um allt sem hann vildi fara. Kom oft til Þorvaldar í vinnuna í kaffi. Starfsfólkið hélt að hann myndi detta í tröppunum. Þar kom að við áttuðum okkur á að hann gat alltaf „stigið ölduna“.

Elsku Siggi. Takk fyrir allt. Hittumst á himnum.

Herdís Ástráðsdóttir og B5.

Ég var svo lánsamur að tengjast Sigurði Árnasyni fjölskylduböndum fyrir næstum fjórum áratugum. Hann tók mér strax opnum örmum og var ég um langan tíma fastagestur á heimili hans og Eddu á Otrateig. Styrkur þeirra hjóna var mér ómetanlegur á erfiðum tímum.

Ég minnist þess að í eitt af fyrstu skiptunum sem ég hitti hann fórum við dóttir hans niður á höfn að taka á móti honum þegar hann kom í land, hann var þá skipherra á varðskipinu Tý. Það var ógleymanlegt að sjá þetta stóra skip sigla á fullri ferð inn í Reykjavíkurhöfn, snúast í hálfhring rétt innan við Ingólfsgarð og leggjast svo dúnmjúkt upp að bryggjunni. Þarna var á ferðinni skipstjórnandi sem kunni til verka.

Það er ekki klisja að segja að Siggi, eins og hann var alltaf kallaður, hafi verið ein af hetjum hafsins. Hann var næstyngstur sex systkina sem ólust upp hjá einstæðri móður en faðir hans fórst í sjóslysi þegar hann var 4 ára. Hann byrjaði barnungur á grásleppuveiðum á árabát frá Selsvör, steinsnar frá æskuheimilinu við Framnesveg. Hann var 11 ára kominn á sumarvertíð suður með sjó og 13 ára reri hann sína fyrstu vetrarvertíð af mörgum á opnum bát. Hann hóf störf hjá Landhelgisgæslunni upp úr tvítugu og 31 árs varð hann skipherra. Hann helgaði síðan Gæslunni sitt ævistarf.

Þetta voru aðrir, harðari og hættulegri tímar. Þetta voru líka sögulegir tímar, Siggi var skipherra á helstu varðskipum þjóðarinnar og tók þátt í að verja útfærslu landhelginnar í öllum fjórum þorskastríðunum. Sagan segir að enginn hafi skorið jafnmörg veiðarfæri úr enskum togurum. Mestu mannraunirnar voru þó björgunarafrekin, þegar mannslífum var bjargað í ofsaveðrum við skelfilegar aðstæður.

Siggi var farsæll i starfi og í bókaherberginu var veggur með fjölmörgum heiðursorðum og viðurkenningum, bæði íslenskum og erlendum, en aldrei var talað um það eða hreykt sér af afrekum sínum. Þegar ég spurði hvað hefði verið erfiðast á ferlinum fékk ég ólíkar frásagnir af þungum ákvörðunum sem hann varð að taka við hættustörf. Það sat greinilega mest í honum að hafa þurft að taka ákvarðanir sem gátu stefnt öðrum í voða.

Með Sigga er að hverfa kynslóð sem setti undirstöðurnar undir okkar samfélag. Kynslóð sem ólst upp í fátæku landi sem bauð upp á fá tækifæri en með ósérhlífni og vinnuhörku bjó til þau lífsgæði sem við teljum sjálfsögð núna.

Leiðir okkar lágu saman þegar hann var hættur að berjast við óveðrin en hann var þó alltaf nátengdur hafinu, það var eins að það ólgaði í blóðinu. Undir rólegu yfirborðinu skynjaði maður þunga undiröldu og augljóst í öllu hans fasi að hann hafði reynt margt um ævina. Það kom honum ekki margt úr jafnvægi, sterkur persónuleiki, fastur fyrir og traustur.

Siggi var barnagæla og sat ósjaldan með barnabörnin í fanginu, gaukaði að þeim góðmeti og bauð upp á rjómaís. Heimili tengdaforeldra minna var gestkvæmt enda vinamörg og vinsæl, það var alltaf heitt á könnunni og heimabakað meðlæti. Ég vil trúa því hann sé hvíldinni feginn og kominn til Eddu sinnar og þau umvafin vinum og ættingjum.

Páll Hjaltason.

Það er margs að minnast á kveðjustund.

Við, í fjölskyldum Eddu frænku og Sigga, bárum alltaf virðingu fyrir lífsstarfi hans hjá Landhelgisgæslunni. Hann var ávallt orðvar um mörg erfið viðfangsefnin sem hann og áhöfn hans stóðu frammi fyrir s.s. þátttöku í landhelgisstríðum, björgunarstörf, vaktirnar á Gæsluþyrlunni og margt annað sem á daga hans dreif í þá áratugi sem hann helgaði Gæslunni krafta sína. Hann fékk virtar viðurkenningar fyrir björgunarafrek, meðal annars frá íslenska ríkinu og Elísabetu Bretadrottningu. Áföll, þegar ekki var hægt að bjarga mannslífum, voru sjaldan rædd og við Edda frænka ræddum stundum um hversu margir sjómenn hefðu þurft að bera stóran harm í hljóði, án áfallahjálpar á árum áður, þegar sú mikilvæga hjálp var ekki í boði. Erfið reynsla var þá sett í lokaða „geymslu“, án hjálpar til úrvinnslu.

Fyrst og fremst minnist ég Sigga fyrir að vera sterkur hlekkur í fjölskyldunni. Þau Edda frænka voru einstök hjón. Í mínum huga voru þau alltaf til staðar ef aðstoðar var þörf í fjölskyldunni, bæði á mínum yngri árum og alla tíð; mættu í alla búslóðaflutninga (sem voru allmargir), hann með verkfærin meðferðis, setti upp ljós og tengdi hitt og þetta meðan léttfætt Edda bar kassa og hjálpaði síðan til við að koma öllu fyrir. Ef veikindi eða erfiðleikar steðjuðu að voru þau mætt eða hringdu og fylgdust með. Fyrir mér varð þessi mannlega hlýja og stuðningur svo mikilvægur og þakkarverður.

Ég á þeim báðum mikið að þakka fyrir veturinn þegar ég var á fyrsta árinu mínu í Verzló. Fékk herbergi í kjallaranum á Otrateignum og leið afskaplega vel hjá þeim og frændsystkinum mínum þremur og varð vitni að því hvað þar var alltaf mikill gestagangur. Alltaf tekið fagnandi á móti öllum sem litu inn og eftirtektarvert hversu auðvelt þau áttu með að hafa glatt á hjalla enda einstaklega hlýjar manneskjur sem létu sig aðra varða. Þennan vetur dóu mæður þeirra beggja, Margrét amma og Steinunn, með fárra daga millibili og þá sá ég sameiginlegan styrk þeirra. Alla tíð lá leið mín oft á Otrateiginn, þar var mér ávallt tekið fagnandi og ég mætti mikilli hlýju og væntumþykju af beggja hálfu. Ferðirnar og dvöl með þeim á Jaðri á Bíldudal gáfu mér dýrmætar minningar og þær eiga ávallt sinn stað í hjarta mínu.

Eitt af því sem stendur upp úr af mörgum minningum er hversu Siggi og Edda sýndu Alexander, syni Steinunnar og Páls, einstaka umhyggju. Það var fallegt að sjá þau tvö hjálpast að með hjólastólinn og Adda og þau þrjú saman áttu svo sannarlega glaðlegar samverustundir meðan kraftar þeirra eldri entust. Dásamlegir bakhjarlar, bæði tvö.

Allt fram á síðustu ár spurði hann alltaf um fólkið mitt þegar leiðir okkar lágu saman eða spjall í síma fór fram. Ég á eftir að sakna viðtekins svars þegar ég hringdi og heilsaði – þá spurði hann alltaf sposkur: „Ert þú ennþá lifandi???“ Kem til með að sakna þessa og góðmennsku hans í minn garð alla tíð.

Blessuð sé minning elsku Sigga.

Margrét Theodórsdóttir (Maggý).