Jón B. Stefánsson sendi mér góðan póst með þeim ummælum að kannski sé eitthvað af þessu nothæft í Vísnahornið í Mogganum. Því er fljótsvarað og hér er pósturinn: Ég er kominn á þann aldur að komið er að viðhaldi á mér

Jón B. Stefánsson sendi mér góðan póst með þeim ummælum að kannski sé eitthvað af þessu nothæft í Vísnahornið í Mogganum. Því er fljótsvarað og hér er pósturinn:

Ég er kominn á þann aldur að komið er að viðhaldi á mér. Ég læt fylgja með nokkrar vísur af ýmsum toga, nýjar og gamlar. Eftir að hafa komið við á Klínikinni og Sjónlagi síðustu daga:

Kominn nú með nothæft hné

og nýja augasteina

í öðru ljósi lífið sé

og létt fer götu beina.

Í hartnær 40 ár höfum við hjónin verið í gönguklúbbi sem kallar sig Geirfugla. í bréfi til klúbbsins fyrir um 35 árum var farið yfir það sem við félagarnir yrðum að hafa með okkur í ferð á Strandir og fylgdi þessi vísa frá mér:

Svo fyrirhugað ferðalag

fari ekki úr böndum

ég bendi á að enn í dag

er ekkert Ríki á Ströndum.

Einn ferðafélaganna var Gunnlaugur Ingvarsson tannlæknir. Hann lést á síðasta ári. Hann var góður samferðamaður, rólyndur, kurteis og með skemmtilegan frásagnaranda. Þegar hann varð sextugur í einni ferð okkar fékk hann þessa vísu:

Af hæversku og háttsemi

og hugarflugi ríkur

ertu Gulli gersemi

og Geirfugl' engum líkur.

Mér hefur fundist að borgarstjórinn í Reykjavík hafi farið offari í því að eyðileggja flesta möguleika borgarinnar til greiðari samgangna. Legg ég honum þetta í munn:

Svo markmiði mínu við náum

til mótvægis fluginu sjáum

um allan völl

ósköpin völl

af dönskum og dýrlegum stráum.

Spurður um það hvort ég væri hagmæltur kom þetta svar:

Mjög er þetta orðum aukið.

Eg því vildi fremur lýsa

að álpist stundum eftir baukið

inn í heiminn lítil vísa.

Vísur í þessum anda eru ótal margar. Sumt er sjálfsagt ómeðvitað tekið upp frá öðrum en þessi vísa Sigurðar J. Gíslasonar er ómenguð:

Þótt ég geri stöku stöku stöku sinni

lítt ég því að sinni sinni

sinni bara vinnu minni.

¶ Margt ég bralla í heimi hér,¶ í hausnum mallar baga.¶ Glatt á hjalla hjá mér er¶ helst til alla daga.¶ x¶ Glaður svíf um heiminn hér,¶ úr huga ríf ég trega.¶ Gott er lífið eins og er¶ alveg gífurlega.¶ Ingólfur Ómar laumaði að mér einni vísu svona að gamni sínu á þriðjudag:¶ Einkar vel ég uni því¶ að yrkja í fjórum línum.¶ Fjölbreytni má finna í¶ ferskeytlunum mínum.¶ Limran Hrörnun eftir Hlymrek handan:¶ Í hafinu er þörungur harmlaus,¶ hurðdruslan undin og karmlaus,¶ gimbillinn jarmlaus,¶ barstúlkan barmlaus¶ og hún Baldína gamla orðin sjarmlaus.¶ Öfugmælavísan:¶ Séð hef ég valinn synda á ál,¶ selin smala hjörð á fjalli,¶ hrafninn tala manna mál,¶ moðið hvalinn eta af stalli.