Karl Magnús Zóphóníasson fæddist á Þórshöfn á Langanesi 6. febrúar 1935. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut 20. október 2023.
Foreldrar hans voru Sigríður Bjarney Karlsdóttir, f. 1. mars 1913, d. 16. september 1998 og Zóphónías Ólafur Pétursson, f. 3. nóvember 1901, d. 11. júní 1974.
Árið 1939 flytjast þau frá Þórshöfn í Fagradal á Stokkseyri, þau eignuðust tíu börn og var Karl næstelstur af þeim stóra hópi. Elstur var Jón Friðrik, f. 1933, d. 2018, Jósep Geir, f. 1936, d. 1970, stúlka, f. 1938, d. 1938, Grétar Kristinn, f. 1940, Viðar, f. 1942, Karlý Fríða, f. 1943, Ari, f. 1945, d. 1977, Gylfi, f. 1948, d. 1982, Elísabet, f. 1948.
Árið 1959 kvæntist Karl Drífu Jónsdóttur frá Klukkufelli í Reykhólasveit, f. 14.12. 1941, d. 24.11. 2014. Börn þeirra eru: 1) Valgerður, f. 1959, maki Atli Ólafsson, f. 1957. Þau eiga tvö börn og fjögur barnabörn. 2) Sigríður Bjarney, f. 1960, maki Páll Geir Traustsson, f. 1956. Þau eiga tvö börn og þrjú barnabörn. 3) Ethel, f. 1964. Hún eignaðist þrjá syni, en einn er látinn, og tvö barnabörn. 4) Karl Magnús, f. 1966, maki Eygló Ingólfsdóttir, f. 1966. Þau eiga tvö börn og eitt barnabarn. 5) Andri, f. 1980, maki Guðný Eyþórsdóttir. Þau eiga þrjár dætur. 6) Freyr, f. 1980, maki Solveig María Kristinsdóttir. Þau eiga þrjú börn.
Árið 1970 fluttist fjölskyldan frá Stokkseyri, fyrst í Garðabæ og síðar til Reykjavíkur.
Karl og Drífa skildu árið 1986. Árið 1989 kvæntist hann Esther Jakobsdóttur, f. 21.3. 1944. Hún á þrjú börn: Önnu Þóru, f. 1963, Sigurlaugu Diddu, f. 1964 og Aron Njál, f. 1973.
Karl og Esther keyptu íbúð í Neðstaleiti 3 Reykjavík og bjuggu þar í níu ár, en fluttu í Kópavog árið 1998, í Lækjasmára 4, þar sem þau hafa búið síðan.
Þau áttu sumarbústað og bát við Þingvallavatn þar sem þau undu löngum stundum. Þau voru einnig dugleg að ferðast um heiminn í fríum. Eftir starfslok hjá Esther leigðu þau sér íbúð á Gran Canary og síðustu 11 ár hafa þau búið þar yfir veturinn og notið lífsins á sólarströndinni Playa Del Ingles.
Karl fór ungur að vinna og afla fjár, 14 ára fór hann á sjóinn, en fór fljótlega í land vegna sjóveiki, þá fór hann vinnumaður að Bræðratungu og þaðan í brúarvinnu, við Þjórsá og Iðu. Hann keypti sér vörubíl 18 ára og vann með hann við línulögn frá Írafossi til Reykjavíkur.
Árið 1958 útskrifaðist hann sem bifvélavirki frá Iðnskólanum á Selfossi og starfaði á verkstæðum KÁ á Selfossi og Stokkseyri. Einnig tók hann stýrimannapróf og var skipstjóri í nokkur ár á fiskibátunum Álaborg og Kristjáni Guðmundssyni frá Eyrarbakka og Hásteini, Bjarna Ólafssyni og Fróða frá Stokkseyri.
Eftir að hann flutti frá Stokkseyri starfaði hann mest við bíla og lyftaraviðgerðir, m.a. hjá Agli Vilhjálmssyni, Stálvík, Ísal, Stálsmiðjunni, Byko, og síðast hjá Vélum og þjónustu.
Útför Karls fer fram frá Digraneskirkju í dag, 16. nóvember 2023, klukkan 13.
Hann kom eins og stormsveipur inn í líf okkar fyrir meira en þrjátíu og fimm árum. Hávaxinn, dökkur yfirlitum með breitt bros sem náði alveg til píreygðra augnanna, svolítið eins og Rock Hudson eða indíánahöfðingi. Það gustaði af honum þegar hann mætti á svæðið og hann lá ekki á skoðunum sínum né talaði undir rós þegar málefni líðandi stundar voru rædd. Þetta var Karl Magnús Zóphóníasson. Í mínum huga alltaf; Kalli hennar mömmu, sem fór með hana út um allar koppagrundir í sínum fjallabíl og undi sér hvergi betur en uppi í sumarbústaðnum þeirra við Þingvallavatn eða á ferðalögum víðs vegar um heim. Kalli hennar mömmu, sem var snyrtimennskan uppmáluð í litríkum fötum, oftast með derhúfu og með alla hluti á sínum stað. Kalli hennar mömmu, með sterku söngröddina sem tónaði fagurlega „Simbiiii sjóóómaaður“ þegar þannig lá á honum. Kalli hennar mömmu sem var oft gráglettinn og kallaði fjölskyldumeðlimi alls kyns nöfnum eins og Raspútín, Arafat, Skáldkonuna og Prinsinn. Kalli hennar mömmu sem dekraði við dóttur mína uppi í sumarbústað og gerði hvern dag þar að glitrandi ævintýri. Kalli hennar mömmu sem var með hjarta úr gulli og húmor fyrir bulli.
Við vorum kannski ekki oft sammála, við Kalli, en við áttum það þó sameiginlegt að elska sömu konuna og það var nóg fyrir okkur bæði. Kalli hennar mömmu var nefnilega hennar frá því að þau kynntust og hún var hans.
Með sorg í hjarta, virðingu og væntumþykju kveð ég Kalla minn og þakka honum fyrir samferðina. Ég mun sakna hans. Ég trúi því að hann muni vaka yfir okkur og vernda. Elsku mömmu minni, börnum hans, barnabörnum, barnabarnabörnum og öðrum ástvinum sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.
Anna Þóra.
Afi Kalli, elsku skipstjórinn minn. Þegar ég hugsa um þig fyllist hjartað af hlýju og þakklæti. Mikið af mínum allra bestu æskuminningum tengi ég við ykkur ömmu og Karlsberg, besta sumarbústað í heimi. Í Karlsbergi leið mér svo vel og sóttist eftir að fá að koma með ykkur ömmu þangað sem allra oftast. Þar gerðum við óteljandi skemmtilega hluti og þú kenndir og sýndir mér svo margt. Hvort sem það var að veiða fisk, taka upp kartöflur, listina að borða grænmeti, finna ánamaðka, gróðursetja eða stússa alls konar í sveitinni, þú kunnir þetta allt manna best. Alltaf þegar ég fór að veiða minntirðu mig á að tala fallega við ánamaðkana áður en þeir færu á öngulinn, annars myndi ég ekkert veiða, og þetta gerði ég alltaf, og geri enn. Síðan átti ég bara að kalla ef þú áttir að koma með hjólbörurnar til að bera allan aflann heim. Það var fátt skemmtilegra en að fara saman út á bátinn þinn hann Gústa og þeytast um Þingvallavatn á fallegum sumardögum. Þá var mikið hlegið, veitt og notið.
Alveg frá því ég var þriggja ára var mitt uppáhaldstuskudýr ljónið hann Simbi. Hann fékk alltaf að koma með upp í bústað og þú spurðir alltaf um hann Simba langt fram á mín fullorðinsár. Þegar ég gisti uppi á háalofti lét ég Simba gægjast niður til þín á morgnana og beið eftir að þú litir upp til að sjá hann því í hvert sinn gólaðirðu glaður lagið: Simbi sjóóómaður, sem fékk okkur ömmu til að skellihlæja í hvert einasta skipti. Þú varst svo einstaklega fyndinn, meistari í að koma með hnyttin svör, hafðir húmor fyrir sjálfum þér og lífinu og gast látið flesta hlæja hvenær sem var. Allt svo frábærir eiginleikar. Teikningin þín og lýsing á hestinum honum Gamla Doc er eitthvað sem ég minnist og tala reglulega um enn þann dag í dag, svo fyndin var hún.
Þegar ég varð ólétt árið 2021 varstu ekki lengi að finna bumbuheiti á litla strákinn minn, auðvitað var það Simbi. Við elskuðum þetta bumbunafn strax og var hann kallaður því nafni alla meðgönguna. Maðurinn minn fékk sér meira að segja Simba-flúr sem okkur þykir extra vænt um núna þar sem þú átt óbeint heiðurinn af því. Ég er svo glöð og þakklát fyrir að litli strákurinn minn hafi fengið að kynnast þér þessi síðustu tvö ár. Hann spyr stundum um þig. Ég vildi óska þess að litla ófædda stelpan mín í bumbunni hefði líka fengið að hitta þig og kynnast. Ég veit að þú hefðir verið í alveg jafn miklu uppáhaldi hjá henni og þú ert hjá mér og okkur öllum. Ég hlakka til að segja þeim sögur af þér í framtíðinni. Takk fyrir allt, elsku afi minn, það sem ég mun sakna þín mikið.
Þín
Viktoría.