Svanhildur Jóhannesdóttir fæddist 8. mars 1950. Hún lést 29. október 2023.

Útför Svanhildar fór 7. nóvember 2023.

Nú hefur hún Svaný hefur fengið hvíldina löngu. Ég sit hér og reyni að koma þeim minningum sem flæða fram í hugann í orð. Hvernig lýsir maður hlátrinum hennar? Brosinu sem náði svo fallega til augnanna? Hversu skemmtileg hún var?

Ég man mjög vel eftir því þegar ég hitti hana fyrst. Ég var sannfærð um að hún væri fegursta kona Íslands og trúði því varla að hún hefði valið hann Tryggva frænda sem kærasta. Mikið rosalega fannst mér hann heppinn – og hann var heppinn. Þau tvö náðu að vaxa svo fallega saman í gegnum lífið, Svaný og Tryggvi.

Svaný var hins vegar ekki aðeins falleg, innan sem utan, heldur var hún líka klár. Ég veit það allavega að ég hefði ekki fengið háa einkunn fyrir ansi margar af mínum háskólaritgerðum, ef Svaný hefði ekki lesið þær yfir fyrst. Svo var hún svo listræn. Hún var náttúrulega leikkona og leikstjóri, en líka frábær myndlistamaður og hafði einstaklega fallegan smekk. Ég gleymi aldrei flotta brúðarkjólnum hennar.

Tryggvi, Ellý, Kobbi og Jósi og ekki síst barnabörnin sem nú hafa misst hana ömmu Svaný, ykkur sendi ég mína allra hlýjustu og fallegustu strauma á þessum erfiðu stundum.

Margrét Kristín Pétursdóttir.

Ég kynntist Svaný þegar við hófum nám í Kvennaskólanum í Reykjavík 13 ára gamlar. Ég tók strax eftir þessari fallegu glaðlegu stelpu með sitt síða ljósa hár og við urðum strax vinkonur. Eftir tvo vetur í Kvennó ákvað stór hluti bekkjarins okkar að söðla um og nokkrar okkar fóru í Verzlunarskóla Íslands.

Á fyrstu önn í Versló féll móðir mín frá, það var gríðarlegt áfall, en þá reyndust Svaný og systkini hennar, þau Silla og Jenni, mér óendanlega vel.

Þegar Svaný kynntist Tryggva eignuðumst við Bjössi góðan vin í honum og hefur vinátta okkar fjögurra leitt okkur í mörg skemmtileg ferðalög og góðar samverustundir.

Það hefur verið yndislegt að fylgjast með börnunum hennar Svanýjar og barnaskaranum þeirra, stolt hennar og gleði var óendanleg, missir þeirra er mikill!

Innilegar samúðarkveðjur til elsku Tryggva og barnanna allra.

Við kveðjum kæra vinkonu með miklum trega og sorg.

Sigurlín og Björn.