Ferðaþjónusta Hjónin Ragnhildur Ágústsdóttir og Júlíus Ingi Jónsson eru stofendur Lava Show-sýningarinnar.
Ferðaþjónusta Hjónin Ragnhildur Ágústsdóttir og Júlíus Ingi Jónsson eru stofendur Lava Show-sýningarinnar. — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það stefnir í að ferðaþjónustufyrirtækið Lava Show rjúfi 100 þúsund gesta múrinn fyrir áramót, en um nýliðna helgi var liðið eitt ár…

Gísli Freyr Valdórsson

gislifreyr@mbl.is

Það stefnir í að ferðaþjónustufyrirtækið Lava Show rjúfi 100 þúsund gesta múrinn fyrir áramót, en um nýliðna helgi var liðið eitt ár frá því að fyrirtækið hóf sýningar í Reykjavík.

„Árið hefur gengið vel og það hefur verið mikil stígandi í komu gesta,“ segir Ragnhildur Ágústsdóttir, annar stofnandi og eigandi Lava Show. Hún og eiginmaður hennar, Júlíus Ingi Jónsson, hófu sýningar í Vík í Mýrdal í byrjun september 2018. Frá því að sýningin var opnuð í Reykjavík hefur gestafjöldinn nú rúmlega þrefaldast á milli ára. Í dag starfa um 20 manns hjá fyrirtækinu.

Ragnhildur segir að síðastliðinn október hafi verið stærsti mánuður fyrirtækisins í tekjum talið.

„Aðsóknin hefur verið framar vonum. Við opnuðum síðan gestastofu á efri hæð sýningarinnar í sumar sem hefur fengið góðar móttökur. Það eru til að mynda fyrirtækjahópar og aðrir gestir sem nýta sér hana,“ segir Ragnhildur.

Fengu hugmyndina árið 2010

Fyrir þá sem ekki þekkja til þá felst sýning Lava Show í stuttu máli í því að rauðglóandi hraun er látið renna fyrir framan sýningargesti ásamt því sem þeir eru fræddir um eldfjöll og virkni þeirra hér á landi. Um er að ræða alvöru hraun sem er brætt í sérstökum bræðsluofni og látið renna á ný.

Þó svo að gestafjöldi sýningarinnar sé nú að þrefaldast á milli ára hefur uppbygging félagsins ekki gengið snurðulaust fyrir sig.

„Í kjölfar gossins á Fimmvörðuhálsi vorið 2010 fengum við þá hugmynd að það væri gaman að gera öllum kleift að upplifa rauðglóandi hraun með beinum hætti, án þess að þurfa að gera sér sérstaka ferð upp á fjöll eða í mismunandi aðstæður,“ segir Ragnhildur, spurð um upphafið.

Eftir nokkurra ára umhugsun létu þau af þessu verða og hófu undirbúning.

„Það var mjög erfitt að sannfæra fjárfesta um þetta, enda fannst mörgum þetta galin hugmynd,“ segir Ragnhildur í léttum tón. Þá gekk einnig erfiðlega að finna húsnæði.

Þó varð ákveðinn vendipunktur þegar athafnahjónin Ragnar Þórir Guðgeirsson og Hildur Árnadóttir festu kaup á húsnæði í Vík í Mýrdal og buðu Ragnhildi og Júlíusi Inga að setja upp sýningu sína þar.

„Þau höfðu trú á okkur og sannfærðu okkur um að það væri rétt að setja sýninguna upp í Vík,“ segir Ragnhildur. Eftir að hafa safnað saman um 100 milljónum króna með eigin fé, styrkjum, lánum og fjármagni frá fjárfestum var hægt að hefja starfsemi.

Faraldurinn var skellur

Það var þó ekki mikið fjármagn eftir til að verja í markaðssetningu, en að sögn Ragnhildar spurðist ágæti sýningarinnar fljótt út og gestir byrjuðu að streyma að. Við áramótin 2019/20 var bókunarstaðan fyrir 2020 orðin sterk, en þremur mánuðum síðar skall á heimsfaraldur.

„Við brugðum á það ráð að senda öllum þeim sem áttu bókað tölvupóst þar sem við í einlægni greindum frá því að við værum lítið fjölskyldufyrirtæki og hefðum ekki tök á að endurgreiða öllum. Við buðum fólki inneign en báðum um sex mánaða frest ef viðkomandi vildi fá endurgreitt. Það voru aðeins örfáir og flestir hafa nýtt sér inneignina síðan þá,“ segir Ragnhildur þegar hún rifjar þetta upp.

Þá hjálpaði það einnig til hversu duglegir Íslendingar voru að sækja sýninguna í Vík sumarið 2020, sumarið sem Íslendingar ferðuðust innanlands.

Fjárfestar höfðu samband

Eftir að hafa sótt sýninguna sjálfir höfðu fjárfestarnir Birgir Örn Birgisson og Ellert Aðalsteinsson samband við Júlíus og Ragnhildi og hvöttu þau til að hefja einnig starfsemi í Reykjavík. Í kjölfarið var ráðist í hlutafjáraukningu, meðal annars með þátttöku Birgis Arnar og Ellerts, og undirbúningur hafinn að opnun í Reykjavík.

„Þar gekk á ýmsu, til dæmis gekk illa að fá aðföng í bræðsluofninn og aðra íhluti fyrir sýninguna vegna stríðsins í Úkraínu,“ segir Ragnhildur. Þá varð fyrirtækið fyrir því óláni að bruni í húsnæðinu tafði opnun sýningarinnar um sex vikur.

„Þetta hafðist þó að lokum og það má segja að við séum orðin ýmsu vön,“ segir Ragnhildur.

Hún segir að þegar sé farið að huga að útvíkkun starfseminnar þar sem ítrekað sé uppselt á sýningar, bæði í Vík og Reykjavík.

„Það er hægt að fjölga sýningartímum og jafnvel sýningarsölum hérna heima og svo eru auðvitað eldfjöll víðar í heiminum. Við erum rétt að byrja,“ segir hún að lokum.