Kristinn Guðmundsson húsa- og húsgagnameistari fæddist á Bjargi, Eskifirði, 21. september 1933. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Hulduhlíð 29. október 2023.

Foreldrar hans voru hjónin Guðmundur Karl Stefánsson vélstjóri frá Borgum, Reyðarfirði, f. 2.4. 1894, d. 15.6. 1976, og Jóhanna Kristín Magnúsdóttir húsmóðir frá Bæjarstöðum Stöðvarfirði, f. 15.3. 1904, d. 8.2. 1996.

Kristinn var fjórði í röð fimm systkina. Elstur var Stefán Viðar, f. 9. júní 1927, d. 30. apríl 1979, þá Anna María, f. 22. mars 1929, d. 10. október 2010, Sæbjörn Reynir, f. 27. október 1930, d. 9. júní 2020, og yngst var Bára, f. 3. september 1936, d. 24. júlí 2019.

Hinn 11. maí 1957 giftist Kristinn Nönnu Kolbrúnu Bjarnadóttur húsmóður. Foreldrar hennar voru Bjarni Kristjánsson sjómaður á Eskifirði, f. 13.2. 1911, d. 23.1. 1998, og eiginkona hans Laufey Sigurðardóttir húsmóðir, f. 23.9. 1914, d. 3.8. 2001.

Börn Kristins og Nönnu Kolbrúnar eru Stefán, kvæntur Helgu Katrínu Leifsdóttur. Dætur þeirra eru tvær. Guðmundur Bjarni, kvæntur Hrafnhildi Gróu Atladóttur, börn þeirra eru fjögur. Jóhann Magnús, kvæntur Margréti Karlsdóttur, þau eiga einn son. Ingibjörg Laufey, börn hennar eru tvö og sambýlismaður er Sigurður Tómas Sigfússon.

Jarðsungið verður frá Eskifjarðarkirkju í dag, 17. nóvember 2023, klukkan 13.

Streymt verður frá útförinni á facebook-síðu Eskifjarðarkirkju. Einnig verður hægt að nálgast hlekk á streymi á mbl.is/andlat.

Það er komið að kveðjustund og fram í hugann streyma minningar og myndir. Tengdafaðir minn til rúmlega fjögurra áratuga, Kristinn Guðmundsson eða Kiddi eins og hann var alltaf kallaður, er látinn. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Hulduhlíð á Eskifirði rétt liðlega mánuði eftir 90 ára afmælisdaginn sinn.

Kiddi var mikill hagleiksmaður og flest lék í höndum hans. Sem ungur maður aflaði hann sér meistararéttinda í húsa- og húsgagnasmíði frá Iðnskólanum á Norðfirði. Hann vann við iðn sína alla starfsævina, rak verkstæði, teiknaði og byggði hús en helgaði sig einnig kennslu. Hann starfaði sem smíðakennari við grunnskólann á Eskifirði í áratugi, ásamt því að vera þar húsvörður.

Þegar starfsævinni lauk kom Kiddi sér upp aðstöðu til minni verkefna í kjallaranum á heimili þeirra hjóna. Þar dvaldi hann löngum stundum við útskurð í tré. Eftir hann liggja útskornar klukkur og skóhorn ásamt ýmsum öðrum munum, margt í eigu fjölskyldunnar.

Þegar ég kom fyrst inn á heimili tengdaforeldra minna var það í síðdegiskaffi á sunnudegi. Þau tóku einkar vel á móti mér og ég fann strax að mér leið vel í návist þeirra beggja. Við Kiddi höfðum þó sést áður, því við unnum bæði í skólanum. Ég man eftir kennarafundi, þegar tveir kennarar ætluðu að stríða mér og komu því þannig fyrir að ég sæti beint á móti Kidda. Eflaust hef ég orðið eitthvað vandræðaleg enda nýbúin að kynnast Jóhanni syni hans. Kiddi áttaði sig strax á stöðu mála, spjallaði rólega við mig og kom því þannig fyrir að mér leið vel á fundinum. Þannig minnist ég Kidda; hlýr maður, hæglátur og dagfarsprúður. Við ræddum oft skólamál og ég minnist þess að hann sagði mér að hann hefði aldrei haft ódæla nemendur. Maður skyldi bara tala við krakkana og reyna að mæta hverjum og einum.

Tengdaforeldrar mínir voru ekki mikið á faraldsfæti, vildu helst vera í örygginu í firðinum heima. Þó komu þau á hverju sumri, meðan þau treystu sér til, keyrandi suður til barna sinna og barnabarna sem þar búa. Einnig komu þau tvisvar í heimsókn til okkar Jóhanns til Danmerkur, þar sem við bjuggum um nokkurra ára skeið. Í bæði skiptin voru það vel heppnaðar ferðir og frá þeim tíma eigum við fjölskyldan góðar minningar.

Kiddi starfaði heilmikið að félagsmálum í sinni heimabyggð. Hann var félagi í Lionsklúbbnum til margra ára, í golfklúbbnum og svo störfuðu þau hjónin lengi með félagi eldri borgara. Það var félagsskapur sem hentaði þeim báðum vel og veitti þeim mikla ánægju. Þar sá Kiddi m.a. um námskeið í útskurði og ekki lét hann sig vanta við undirbúning í árlegri skötuveislu félagsins.

Tengdafaðir minn bar hag barna sinna og fjölskyldna þeirra fyrir brjósti og það var alltaf gott að koma í Bleiksárhlíðina. Þannig minnumst við fjölskyldan hans.

Blessuð sé minning látins tengdaföður.

Hvíl í friði.

Margrét Karlsdóttir.