Fjölskyldan Frá vinstri, Halldór Örn, Sólveig Ragnheiður, Elísabet, Gunnar Örn og Bárður Örn á sjötugsafmæli Gunnars.
Fjölskyldan Frá vinstri, Halldór Örn, Sólveig Ragnheiður, Elísabet, Gunnar Örn og Bárður Örn á sjötugsafmæli Gunnars.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gunnar Örn Guðmundsson er fæddur 17. nóvember 1948 í Reykjavík og ólst upp á Ljósvallagötu í vesturbæ Reykjavíkur. „Í hringnum bak við Ljósvallagötu og Ásvallagötu var aðalleiksvæði æsku minnar

Gunnar Örn Guðmundsson er fæddur 17. nóvember 1948 í Reykjavík og ólst upp á Ljósvallagötu í vesturbæ Reykjavíkur. „Í hringnum bak við Ljósvallagötu og Ásvallagötu var aðalleiksvæði æsku minnar. Þetta stóra port var kallað Bakkó. Þarna ólst upp fjöldi barna og var mikið um að vera, alls konar leikir daginn út og inn, fótbolti, brennó, fallin spýta, sto, hark og frjálsar íþróttir. Íþróttafélag hverfisins hét Súlan, þó öll værum við og séum KR-ingar. En svo var líka farið í könnunarferðir, mest niður á höfn, út á flugvöll eða vestur í Selsvör. Eiginlega var alltaf ferðast í flokkum, vegna stöðugra árekstra við gutta úr nágrannahverfunum, sem lumbruðu á okkur ef við vorum fáir á ferð.“

Gunnar var sendur fimm ára í sveit 1954 til ömmubróður síns á Staðarbakka í Helgafellssveit, en hann var níu sumur í sveit. „Dvölin þar var sérstök, því engar vélar voru á bænum, allt unnið með höndum og hestum. Ég lærði að rifja og raka og vann við þurrkun mós og reiddi hey heim af úthaga. Þarna vaknaði áhuginn á landbúnaði.“

Skólaganga Gunnars var Melaskóli, Hagaskóli og MR. „Ég naut góðrar menntunar í þessum skólum, sem hefur enst mér út lífið. Þar eignaðist ég líka fjölda vina. Ég stundaði fjölbreytta sumarvinnu sem hafnarverkamaður, sjómaður og við fiskvinnslu, við verktakaframkvæmdir og línumaður í háspennulínum. Fór til Vínarborgar ári eftir stúdentspróf og lærði þar til dýralæknis eftir að hafa starfað um tíma hjá Kockums-skipasmíðastöðinni í Málmey.

Elísabetu kvæntist ég áður en ég hélt til Vínar, en hún er Vesturbæingur líkt og ég. Við bjuggum í Vínarborg í sex ár, en Elsa nam þar leirlist og höggmyndalist við listaháskólann. Í Eisenstadt, borg Haydns, fæddist sonur okkar Bárður Örn. Að búa í Vín var ævintýri líkast, þar kynntumst við menningu, meðal annars tónlist, sem var okkur við komuna þangað svo framandi. Í Austurríki eigum við enn þá marga góða vini.“

Að námi loknu lauk Gunnar doktorsprófi frá skólanum, en efni ritgerðarinnar fjallaði um frjósemi stóðhesta. „Eftir nám starfaði ég fyrst í eitt og hálft ár sem dýralæknir í Bæjaralandi í Suður-Þýskalandi, aðallega í stórgripapraxís, þar sem feikilega mikið var að gera. Bæjarar eru yndislegir, fólkið hlýtt í viðmóti og sýndi litlu íslensku fjölskyldunni ræktarsemi og vináttu.“

Fjölskyldan flutti heim til Íslands í október 1978 og kom Gunnar þá til starfa sem héraðsdýralæknir Borgarfjarðarumdæmis á Hvanneyri. „Þar höfum við hjónin alið upp þrjú börn og eigum í dag sterkar rætur í Borgarfirði. Á árunum 1979 til 2010 var ég samhliða dýralæknisstarfinu stundakennari við Bændaskólann á Hvanneyri og Landbúnaðarháskóla Íslands.

Ég hef stundað alls konar endurmenntun í gegnum árin bæði hérlendis og erlendis og farið árlega á ráðstefnur tengdar dýralækningum. Ég stundaði meðal annars nám árið 2003-2004 hjá Endurmenntun Háskóla Íslands um „stjórnun og rekstur fyrir sjálfstætt starfandi sérfræðinga“. Ég dvaldi við endurmenntun í Þýskalandi og Danmörku og vann um tíma sem dýralæknir bæði í Noregi og Svíþjóð.“

Gunnar starfaði um þrettán ára skeið sem héraðsdýralæknir Suðvesturumdæmis, þ.e. Reykjavík, Suðurnes og Kjós. „Það var stjórnunar- og eftirlitsstaða með dýravernd, matvæla- og heilbrigðiseftirlit, auk eftirlits með útflutningi hesta og inn- og útflutningi gæludýra og innflutningi dýraafurða. Mikið hvíldi á okkur hjá embættinu varðandi matvælaeftirlit á þessum árum, en verið var að innleiða Evrópulöggjöf um matvæli, sem tók gildi 2010 og þurfti að skerpa á aðbúnaði og verklagi matvælafyrirtækja. Naut ég þess að hafa mjög hæfa dýralækna sem samstarfsmenn.“

Gunnar ákvað að hætta störfum hjá Matvælastofnun 2013 þótt hann ætti fimm ár eftir í sjötugt. „Ég var búinn að fá nóg af stöðugu eftirliti og vinnu við að semja athugasemdir til einstaklinga og fyrirtækja. Ég hóf störf sem sjálfstætt starfandi dýralæknir í Borgarfjarðar- og Mýraumdæmi og starfa enn þá við það. En í Borgarfirðinum á ég marga trausta vini og félaga, sem ég hef eignast í gegnum árin.

Helsta áhugamál mitt er í raun dýralækningar. Þær hef ég stundað dag og nótt meira og minna í 47 ár. Héraðsdýralæknisstarfið eins og það var fyrir 1999, var ekki beinlínis starf heldur lífsform. Öll fjölskyldan hefur stutt mig í starfinu og áhugamálum mínum. Hestamennska hefur verið ríkur þáttur í lífi fjölskyldunnar, öllum til ómældar gleði. Við höfum ferðast mikið saman á hestum og líka vegna starfa og áhugamála konu minnar, en líka á kóramót og hestamannamót. Segja má að fjölskylda mín hafi verið mitt aðaláhugamál. Ég er frekar félagslyndur, hitti gömlu félagana úr MR reglulega og leik badminton með öðrum. Ég var formaður Hestamannafélagsins Faxa um árabil og í stjórn Dýralæknafélags Íslands í nokkur ár. Söngur og tónlist er líka ofarlega á listanum, en ég hef sungið í Karlakórnum Söngbræðrum í um það bil 43 ár og verið formaður hans svo lengi sem elstu menn muna.

Ég hef alltaf haft gríðarlegan pólítískan áhuga, enda alinn upp á mjög pólitísku heimili, þar sem allt snerist um pólitík og manngæsku. Þar var öllum skoðunum gefið rými. Mér hefur alltaf fundist að ég þyrfti að vera að mestu hlutlaus til að geta þjónað sem best mínum viðskiptavinum í sátt.“

Fjölskylda

Eiginkona Gunnars er Elísabet Haraldsdóttir, f. 18.6. 1949, leirlistarmaður og fv. grunnskólakennari og menningarfulltrúi. Þau eru búsett á Hvanneyri. Foreldrar Elísabetar voru hjónin Haraldur Ásgeirsson verkfræðingur, f. 4.5. 1918, d. 15.11. 2009, og Halldóra Einarsdóttir húsmæðrakennari, f. 13.6. 1924, d. 1.8. 2007. Þau voru búsett í Reykjavík.

Börn Gunnars og Elísabetar eru 1) Bárður Örn 8.4. 1974, framkvæmdastjóri, Kópavogi. Sambýliskona: Ósk Sigurðardóttir, f. 31.7. 1975. Börn Bárðar og Agnesar Hlífar Andrésdóttur, f. 9.6. 1976, en þau skildu, eru Alexander Örn, f. 2006, Ísabella Ylfa og Elísabet Ylfa, fæddar 2010; 2) Halldór Örn, 17.7. 1979, reiðhjólaviðgerðarmaður í Victoria, Vancouver Island. Sambýliskona: Marita Manson, f. 4.6. 1986, leirlistarkona; 3) Sólveig Ragnheiður, f. 10.12. 1986, MBA, fjármálaráðgjafi, Kópavogi. Eiginmaður: Karl Stephen Stock, f. 17.5. 1984, rafiðnfræðingur. Börn þeirra eru Sophie Eik, f. 2011, Charlotte Rós, f. 2016 og Henry Örn, f. 2017.

Systkini Gunnars eru Sólveig Guðmundsdóttir, f. 18.12. 1951, eftirlaunaþegi, Reykjavík; Guðmundur Halldór Guðmundsson, f. 1.5. 1953, eftirlaunaþegi, Reykjavík, og Elín Helena Guðmundsdóttir, f. 20.1.1962, grunnskólakennari, Reykjavík.

Foreldrar Gunnars voru hjónin Guðmundur Jóhann Guðmundsson, f. 22.1. 1927, d. 12.6. 1997, verkalýðsleiðtogi og alþingismaður, og Elín Torfadóttir, f. 22.9. 1927, d. 9.1. 2016, fóstra og framhaldsskólakennari. Þau voru búsett í Reykjavík.