Kristbjörg María Jónsdóttir fæddist í Reykjavík 2. apríl 1924. Hún lést á Grund við Hringbraut 17. október 2023.

María var dóttir hjónanna Jóns Eyjólfs Bergsveinssonar, skipstjóra og erindreka Slysavarnafélags Íslands, f. á Hvallátrum á Breiðafirði 27. júní 1879, d. 17. desember 1954, og Ástríðar Maríu Eggertsdóttur, f. í Fremri-Langey í Klofningshreppi í Dalasýslu 22. júní 1885, d. 16. nóvember 1963.

Systkini Maríu voru: Bergsveinn, f. 18. desember 1908, d. 21. desember 1971, Eggert Thorberg, f. 12. ágúst 1911, d. 2. mars 1988, Björn, f. 25. janúar 1915, d. 21. mars 1995, Ingibjörg, f. 2. janúar 1917, d. 11. september 1989, Kjartan, f. 21. apríl 1918, d. 2. febrúar 2001, Lóa, f. 13. júní 1920, d. 22. júní 2008, Friðrik, f. 4. júlí 1921, d. 21. maí 2016, Þórarinn Óttar Berg, f. 24. júlí 1925, d. 15. nóvember 1978.

Hinn 26. júní 1943 giftist María Guðmundi Bjarnasyni, f. 19. janúar 1924, d. 28. september 2005. Foreldrar hans voru hjónin Bjarni Ámundason vélstjóri, f. 13. apríl 1886 í Bjólu í Ásahreppi í Rang., d. 20. apríl 1935, og Magnea Ingibjörg Magnúsdóttir, f. 4. júní 1894 í Hólmfastskoti í Innri-Njarðvík, d. 29. júní 1983.

Synir Maríu og Guðmundar voru: 1) Jón E.B., f. 18. nóvember 1943, flugvélstjóri, d. 3. ágúst 2009, eiginkona Hedy Kues, f. 1. október 1941, flugfreyja, d. 18. september 1973. Barn þeirra er Astrid Larissa Kues, f. 25. ágúst 1970, búsett í Flórída í Bandaríkjunum, maki Guðmundur Sigurðsson, f. 23. febrúar 1970, dóttir þeirra er Hedy María Kues, f. 23. febrúar 2007. Áður átti Guðmundur, Kristínu, f. 25. janúar 1990, Aron. f. 15. desember 1991 og Alexöndru. f. 11. apríl 1994. 2) Stefán Ólafur, f. 10. júní 1947, raffræðingur, d. 21. maí 2013, eiginkona Svanhvít Jónasdóttir húsmóðir, f. 23. ágúst 1945. Dætur Stefáns og Svanhvítar eru: 1) María, f. 3. ágúst 1970, börn hennar eru a) Fanney, f. 26. nóvember 1992, maki Hreinn Bergs, f. 24. júní 1991, börn þeirra eru Jóhanna, f. 1. desember 2020 og Mikael. f. 8. ágúst 2023. Faðir Fanneyjar er Jóhannes Ingimundarson. f. 14. febrúar 1967, b) Anna Elísabet, f. 6. janúar 2003, c) Stefán Orri, f. 19. júlí 2005. Faðir þeirra er Hákon Stefánsson. f. 5. júlí 1972. 2) Elísabet, f. 25. júlí 1977, eiginmaður Sigursteinn Ingvar Rúnarsson, f. 30. nóvember 1979. Börn þeirra eru Davíð Kári, f. 8. ágúst 2011, og Sara Svanhvít, f. 1. mars 2013. Fyrir á Sigursteinn soninn Sebastian, f. 19. apríl 2007.

María vann í mjólkurbúðum víða um borg, meðal annars í Garðastrætinu, Barónsstíg, Laufásveginum og svo síðast í mjólkurbúðinni á Laugaveginum. Einnig tók hún að sér tímabundinn rekstur sjoppunnar í elliheimilinu við Lönguhlíð. Eftir að María var hætt að vinna fór hún daglega í Laugardalslaugina ásamt Guðmundi eiginmanni sínum. Á efri árum missti María sjón og varð upp frá því fastagestur hjá Blindrafélaginu.

Útför Maríu fer fram frá Neskirkju í dag, 17. nóvember 2023, klukkan 11.

Ég var skírð í höfuðið á ömmu og hef alltaf verið stolt af því. Það var líf og fjör í kringum hana og gaman að koma á Háaleitisbrautina þar sem var alltaf galopið hús hvort sem það var virkur dagur eða gamlárskvöld. Amma var allskonar og það er erfitt að lýsa henni í fáum orðum en þau sem koma fyrst upp eru að hún var með eindæmum hreinskilin, skemmtileg, gjafmild, bóngóð og síðast en ekki síst stjórnsöm. Hún var mjög félagslynd og leiddist að hanga ein heima í aðgerðaleysi enda gerði hún lítið af því þó hún væri komin yfir nírætt. Fór í félagsstarf blindra, sund og „hamingjustund“ á einhverjum góðum bar með vinkonum. Þegar ég var lítil var ég mikið í sumarbústaðnum hjá henni og afa þar sem hún var alltaf í stuði í litla eldhúsinu. Man vel hvernig það var einhvern veginn alltaf matur út um allt þrátt fyrir lítinn ísskáp, meira en nóg til fyrir alla þá gesti sem kíktu við.

Hún elskaði að ferðast og kippti mér mjög oft með í allskonar skemmtileg ævintýri, allt frá því að vera í tjaldvagni á Þingvöllum til þess að fara til

Hong Kong með viðkomu í sex löndum. Elsta dóttir mín, hún Fanney, naut góðs af því að eiga svona hressa langömmu og langafa, þau fóru með hana í sund en fóru þá kannski tvisvar sama daginn af því hún vildi fara í Árbæjarlaug en þeirra laug var Laugardalslaug og því var ekki hægt að sleppa. Þau voru ekkert að kippa sér upp við það og létu þetta eftir henni. Lýsir þeim vel, allt gert fyrir alla og ekkert vesen neins staðar.

Amma var góð fyrirmynd og það eru nokkur heilræðin sem hún hefur gefið mér í gegnum ævina. Það fyrsta sem ég man eftir kom þegar ég var ekki eldri en 12 ára. Þá tilkynnti hún mér að það væri mér fyrir bestu að kjósa alltaf Sjálfstæðisflokkinn ef ég ætlaði einhvern tímann að eignast pening. Mögulega var þetta bein skipun frekar en heilræði, hún var með eindæmum stjórnsöm og í henni rann blátt blóð. Síðasta heilræðið kom svo í sumar en það var á þá leið að ef ég ætla að ná mér í mann þarf hann að vera skemmtilegur, ekkert annað skiptir máli.

Ég kunni alltaf vel að meta hversu hreinskilin hún var og ég hef tileinkað mér það en þó með aðeins meiri mildi, vona ég. Hún var það hreinskilin að það gat komið henni í koll. Átti það til að fara hressilega yfir strikið sem er ekki fyrir alla. Þó hún væri orðin nánast alveg blind fengum við afkomendur og aðrir sennilega líka gjarnan athugasemdir um þreytulegt útlit, ekki smart föt eða nokkur kíló sem höfðu bæst við, hún sá nefnilega gjarnan það sem hún vildi sjá.

Hún var orðin þreytt í lokin og fannst þetta orðið gott, löngu tilbúin að kveðja enda fannst henni hundleiðinlegt að þurfa að flytja að heiman og geta ekki séð um sig sjálf. Það er ekki í hennar anda að lifa í leiðindum þannig að við kveðjum hana með bros á vör með fullt af skemmtilegum sögum sem eiga ekki allar heima á prenti.

María Stefánsdóttir.

Elsku hjartans amma mín, þá kom að því að leiðir okkar skildi.

Ég á góðar minningar um ömmu sem hugsaði svo vel um fólkið sitt og elskaði ekkert meira en að vera í góðra vina hópi. Þér fannst sko gaman að hafa gaman. Óteljandi stundir í Birkiselinu þar sem það þurfti að færa ansi oft til tré, reyta arfa, stinga upp kartöflugarðinn, klippa til tré og alls konar sem þurfti að dytta að. En svo var það líka það, að ef það var eitthvert verkefni sem þurfti að sinna, þá svona þurfti það að gerast helst strax, þolinmæði var nú ekki alveg þín besta hlið. Listin að spara pening og vera nægjusöm voru eiginleikar sem þú bjóst nú heldur betur yfir. Alveg þannig að þegar við vorum að keyra austur í Birkiselið þá þurfti nú alltaf að stoppa ef þú sást dós eða flösku í vegkantinum. Því var safnað saman og svo var farið með dósir í endurvinnsluna og lagt inn á bók í banka. Alltaf varð að reyna að fullnýta allt, ekkert mátti fara til spillis. Samt sem áður varstu líka svo rausnarleg. Ekki oft sem þeir eiginleikar fara saman hjá fólki.

Framsýni virðist hafa verið þér í blóð borin, held þú hafir fengið hana frá báðum foreldrum þínum, sem voru frumkvöðlar á sínum tíma. Því svona miðað við þinn tíma þá varstu kannski meira í takt við ömmur eins og þær voru að verða. Úti á vinnumarkaðinum, keyrðir bíl og það var meira að segja uppþvottavél á heimilinu. Man líka hvað ég var undrandi á því að þú varst að elda lasagna! Verð nú samt að segja að það var smá erfitt fyrir litlu mig að taka því að þú kallaðir mig Litlu-Ljót, það hjálpaði lítið til að þú fylgdir því alltaf með: „Já, því hún varð svo falleg!“ en þetta bjargaðist allt fyrir horn. En einmitt, þú áttir það til að vera ansi hreinskilin, jafnvel þannig að þú komst þér í vandræði.

Í æsku minni tókst þú virkan þátt í að hugsa um mig, svona eins og ömmur og afar gera, en svo á þínum efri árum þá víxluðust hlutverkin og fékk ég að gjalda þér greiðann með því að stíga inn og hjálpa þér svona með hitt og þetta. Eins og að setja límband yfir alla ónothæfu takkana á fjarstýringunni, svona til að einfalda aðeins notkun hennar. Eða taka bíltúr út á Grund til þín klukkan átta á föstudagskvöldi því það vantaði að fylla á nammibirgðirnar. Það gat að sjálfsögðu ekki beðið til næsta dags!

Það var mikið á þig lagt amma mín, missir sjónina, svo fer afi, Nonni og pabbi allir með fjögurra ára millibilum. En áfram hélst þú og náðir næstum því að verða 100 ára! Það vantaði bara fimm mánuði upp á. Og þegar maður verður næstum 100 ára týna vinirnir líka tölunni. Enda sagði ég við þig að mögulega myndir þú deyja úr leiðindum. Þú glottir nú þegar ég sagði það.

Mikið er ég þakklát að hafa fengið að vera hjá þér síðasta spölinn, elsku amma mín. Þú mættir vonandi með glæsibrag síðust í partíið til systkina þinna sem öll eru látin. Fullt af vinum og ættingjum og að sjálfsögðu til afa, pabba og Nonna.

Minningin um skemmtilega, hreinskilna og sterka ömmu lifir. Ég verð þér ævinlega þakklát.

Þín

Elísabet.

Elsku amma mín hefur kvatt okkur, mér finnst rosalega skrítið að hún sé farin, hún hefur alltaf verið stór hluti af mínu lífi. Ég flutti með pabba til ömmu og afa eftir að mamma dó þegar ég var bara þriggja ára. Það var pínu spes að alast upp hjá þeim öllum, ég kynntist hennar kynslóð vel þar sem systkini og vinafólk komu reglulega í kaffi og eins fór ég með í kaffi til þeirra líka. Ég þvældist út um allt með ömmu, hún poppar alltaf upp í hugann í svarta jakkanum með rauða hattinn þegar ég hugsa um barnæskuna. Það var samt kynslóðabil á milli okkar þannig að við vorum nú ekki alltaf alveg sammála um hlutina og gátum nú alveg rifist stundum. Það skorti aldrei hreinskilnina hjá henni ömmu minni og ég lærði betur að meta það eftir því sem ég fullorðnaðist. Amma var alltaf rosalega dugleg og alltaf á fullu að gera eitthvað. Hún vann í mjólkurbúð og var alltaf vel liðin af samstarfsfólki og viðskiptavinum, alltaf mjög hress. Hún kom stundum heim með vínarbrauðsendana, fannst synd að henda þeim, enda hef ég aldrei komist yfir ást mína á vínarbrauðum. Svo var það garðyrkjan á vorin, hreinsa beðin og setja niður sumarblómin bæði heima, uppi í bústað og í kirkjugarðinum. Amma og afi voru mikið fyrir það að ferðast bæði hérlendis og erlendis og tóku okkur stelpurnar oft með.

Þegar amma og afi hættu að vinna fóru þau reglulega til Flórída á veturna og keyrðu þar um allt, heimsóttu fjölskylduna og eins eyddu þau góðum tíma á ströndinni og nutu lífsins. Þau fóru oft með vinafólki sínu og þá var nú fjör. Þau komu alltaf sólbrún og sæl heim í íslenska vorið. Amma hafði mjög gaman af því að gera góð kaup, sérstaklega að skoða útsölurnar og prútta enda var hún mjög góð í því. Hún var komin með afsláttarkort í lágvöruverslanirnar í Flórída og það fannst henni nú ekki leiðinlegt. Það var reglulegt prógramm í hvaða búðir þurfti að fara á hvaða dögum og fékk ég þann ágæta heiður að þvælast með hana á milli búða eftir að ég fluttist þangað.

Á seinni árum dofnaði sjónin hjá afa og stuttu síðar hjá ömmu líka. Þau fóru að fara í opið hús og ýmsar uppákomur og ferðalög á vegum Blindrafélagsins og áttu mjög góðar stundir þar. Amma hélt áfram að taka þátt í þeim eftir að afi dó og hafði gaman af því. Einnig fór hún í sund á hverjum morgni í Laugardalslaugina og átti góða vini þar. Eftir því sem á leið, fór heyrnin að versna líka og hún lagði í vana sinn að hækka vel í fréttunum. Ég held að henni hafi tekist að brjóta hljóðmúrinn hér einn daginn þegar við vorum í heimsókn hjá henni, dóttir mín var að horfa á teiknimynd með þétt heyrnartól en heyrði ekki neitt annað en fréttirnar og skildi ekkert í þessu.

Æ amma mín, ég sakna þín mikið. Ég segi bara eins og Gummi minn: Heimurinn verður aldrei samur án þín.

Astrid Larissa K. Jónsdóttir.

Ég heimsótti Maríu Jónsdóttur, föðursystur mína, á afmælisdegi hennar, 2. apríl sl., þar sem hún bjó á Grund og varð 99 ára gömul.

María sagðist vera nokkuð hress og hafði orð á því að hún hefði ekki séð mig lengi. Ég svaraði því til að við hefðum hist ekki fyrir svo löngu, ég hefði nú komið til hennar fyrir um hálfu ári.

„Jú,“ sagði föðursystir mín, „það er rétt, en ég hef ekki séð þig. Hvernig lítur þú út? Ertu kannski þykkur eins og hann pabbi þinn?“ hélt hún áfram. Hún hafði ekki séð mig í um tuttugu ár vegna blindu. Þegar ég var þarna minntur á að hún væri blind kvað ég nei við og sagðist vera meira eins og Þórarinn bróðir hennar, grannur og spengilegur. „Það er gott,“ svaraði María.

María var glaðlynd og skemmtileg eins og hún átti kyn til og lá ekki á skoðunum sínum og spurði mig þar sem við sátum tvö á 99 ára afmælisdaginn og ræddum málin. „Á ég virkilega að verða hundrað ára?“ Ég vissi ekki hvernig ég ætti að svara. Þá sagði María að hún væri búin að missa manninn sinn og báða syni sína. Önnur tengdadóttir hennar væri dáin og öll systkini. Flestir vinirnir væru líka farnir.

Ég vissi ekkert hvað ég ætti að segja og valdi bara að segja ekki neitt.

Þá sagði föðursystir mín nokkuð sem ég mun seint gleyma: „Á maður ekki bara að lifa eins lengi og maður hefur gaman af?“ Og svo kom brosið og hláturinn sem maður þekkti.

Ég kom við á Grund og heilsaði upp á Maríu 2. október, þegar hún varð 99,5 ára gömul, og var þess vísari að hún hafði ekki gaman af lífinu lengur. Nokkrum dögum síðar skildi hún við, södd lífdaga.

Föðursystir mín verður jarðsett í dag. Kristbjörg María Jónsdóttir var Breiðfirðingur í báðar ættir, ein af tíu börnum Ástríðar Eggertsdóttur frá Langey í Suðureyjum Breiðafjarðar og Jóns Eyjólfs Bergsveinssonar frá Hvallátrum í Vestureyjum, sem var einn af stofnendum Slysavarnafélags Íslands og fyrsti starfsmaður þess.

María var frændrækin og félagslynd, skemmtileg og glaðvær eins og einkennir Breiðfirðinga. Og allaf allt bjart fram undan.

María var síðust systkinanna sem yfirgefið hafa þessa jarðvist. Systkinin voru öll mjög náin og héldu hópinn alla tíð og við barnabörnin öll minnumst samskiptanna sem voru þétt og skemmtileg. Ég minnist þess þegar við hittumst á stórhátíðum á Baldursgötu 17. Þar var miðstöð slysavarna á Íslandi rekin og sagt var að útidyrahurðin þar opnaðist ekki bara út á Baldursgötuna heldur út á alla strandlengju Íslands. Ég minnist líka þegar okkur öllum var boðið í þrjúbíó á öðrum jóladegi og fylltum við börnin allan þriðja bekk og hálfan annan bekk Stjörnubíós í boði Eggerts Jónssonar, bróður Maríu. Góðar minningar verða aldrei frá manni teknar.

Blessuð sé minning Maríu Jónsdóttur og allra systkina hennar níu og ég votta nánum aðstandendum mína dýpstu samúð.

Hilmar Þór Björnsson.