Grindavíkurkirkja Fannar segir að sveitarfélög um allt land hafi boðið Grindvíkingum húsnæði en vonar að flestir muni geta flutt aftur heim.
Grindavíkurkirkja Fannar segir að sveitarfélög um allt land hafi boðið Grindvíkingum húsnæði en vonar að flestir muni geta flutt aftur heim. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, segist ekki vita til þess að Grindvíkingar séu að færa lögheimili sín yfir til annarra sveitarfélaga og vonast hann til…

Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, segist ekki vita til þess að Grindvíkingar séu að færa lögheimili sín yfir til annarra sveitarfélaga og vonast hann til þess að flestir geti flutt til síns heima þegar fram líða stundir. Hann segir að skoða þurfi að koma upp tvöföldu skráningarkerfi aðseturs og lögheimils.

Fannar segir að Grindvíkingar hafi dreift sér á marga staði eftir að þeim var gert að rýma bæinn en íbúafjöldi í bænum er um 3.700. „Fólk fór bara á þá staði þar sem laust húsnæði var að finna. Það hafa mjög margir fengið inni hjá ættingjum og vinum tímabundið en langstærsta og erfiðasta verkefnið er að finna húsnæði fyrir fólkið. Það er eitt af forgangsmálunum sem og skólamálin og fjárhagsmálin. Það eru margir með fjárhagsáhyggjur og það er teymi sem er að vinna í þessum málum og skoða ýmsar leiðir hvað það varðar,“ segir Fannar.

Spurður hvort bæjaryfirvöld hafi einhverja vitneskju um hvort fólk sé að færa lögheimili sitt segist Fannar ekki vita til þess. „Það er verið að skoða hvort hægt sé að skrá aðsetur annars staðar en það þarf lagabreytingu til þess. Það myndi henta okkur vel og íbúunum líka að koma á tvöföldu skráningarkerfi. Við viljum eðlilega ekki missa útsvarstekjurnar og okkar von er sú að fólk geti flutt til síns heima þegar fram líða stundir. Einhverjir munu fara úr bænum og skrá þá lögheimili sitt annars staðar en ég held að það sé enginn að hugsa um það núna,“ segir Fannar.

„Sveitarfélög um allt land hafa boðið okkur húsnæði en mestur þunginn er á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og á Suðurlandi. Það gista margir í sumarhúsum í uppsveitum Árnessýslu. Ég hef heyrt í bæjarstjórunum á því svæði og það er komin af stað einhver vinna við að taka á móti börnum og foreldrum sem gefa sig fram af sjálfsdáðum. Við viljum koma á einhverri festu í lífi barnanna sem eru í grunnskóla og leikskóla og okkar skólayfirvöld eru að vinna í þessu á fullu,“ segir hann enn fremur. gummih@mbl.is