Rudolf Þór Axelsson fæddist á Læk á Skagaströnd 18. janúar 1936. Hann lést á hjartadeild Landspítalans 30. október 2023.

Foreldrar Rudolfs voru Kristján Axel Jón Helgason, f. 14. janúar 1896, d. 26. júlí 1971, og Jóhanna Helga Lárusdóttir, f. 9. apríl 1908, d. 12. des. 1980. Systkini hans: Helga, f. 22. júlí 1930, d. 6. apríl 2013, Ingibjörg Axelma, f. 2. ágúst 1931, d. 6. mars 2007, Þorvaldur Birgir, f. 22. ágúst 1938, d. 4. sept. 1997, Ævar Már, f. 22. júní 1943, Magðalena, f. 24. júlí 1946, d. 3. júlí 2015, Ester Bryndís, f. 3. jan. 1948, d. 15. okt. 2015, og Brynja Hrönn, f. 11. mars 1950.

Eiginkona Rudolfs var Kristrún Björt Helgadóttir, f. 14. október 1939, d. 22. febrúar 2019. Börn þeirra eru: 1) Ásrún, f. 5. sept. 1960, maki: Kristþór Gunnarsson. Börn: Kristrún Helga, maki Dan Roger Lid, barn: Kristþór Viljar. Jóhann Þór, maki Þórunn Óskarsdóttir, börn: Óskar Hrafn og Kristrún Kría. 2) Axel Þór, f. 22. júní 1963, fyrrv. maki: Ingibjörg Eggertsdóttir, dóttir: Aníta Rut, maki Erik Nordström, barn: Óskírð Nordström. 3) Hrund, f. 25. mars 1969, maki: Kristján Óskarsson, dætur: Hanna Björt, maki Heiðar Samúelsson. Ásrún Sara og Emelía Lára.

Rudolf ólst upp á Læk á Skagaströnd með foreldrum og stórum systkinahópi. Ásamt öðrum störfum voru foreldrar hans með sjálfsþurftarbúskap þar sem Rudolf frá unga aldri og aðrir í fjölskyldunni lögðu hönd á plóg. Úr foreldrahúsum fór Rudolf fjórtán ára gamall í heimavist að Reykjum þar sem hann lauk landsprófi 1952. Að því loknu fluttist hann suður, þar sem hann vann við akstur, fyrst leigubíla í Reykjavík og síðan stórra vörubíla við gerð Keflavíkurflugvallar. Árið 1958 kynntist hann Kristrúnu (Kiddý) sem varð hans eiginkona, hófu þau sambúð og giftust 29. des. 1963. Þau bjuggu m.a. í Stóragerði 6, lengst af í Hellulandi 11 og síðustu æviárin í Hæðargarði 29.

1. apríl 1957 byrjaði Rudolf í Lögreglunni í Reykjavík, sem varð hans ævistarf. Innan lögreglunnar gegndi hann ýmsum störfum, lauk námskeiði 1968 við verkfræðiskóla danska hersins í meðferð sprengja og var sprengjusérfræðingur lögreglunnar í rúmlega 20 ár. Rudolf var skipaður flokkstjóri árið 1967 og varðstjóri árið 1976, starfaði hann á fjarskiptamiðstöð, Árbæjarstöð, Miðborgarstöð og Breiðholtsstöð. Hann kenndi við Lögregluskólann og á námskeiðum um meðferð skotvopna um árabil. Einnig starfaði hann oft með öryggisvörðum erlendra þjóðhöfðingja við komu þeirra til Íslands. Samhliða lögreglustörfum vann hann sem dyravörður á Silfurtunglinu og var ökukennari. Árið 1993 var Rudolf skipaður aðalvarðstjóri A-vaktar á aðalstöð, sem hann gegndi þar til hann hætti störfum sökum aldurs árið 2003. Frá 1964 og þar til mörgum árum eftir að hann hætti störfum var Rudolf í Lögreglukórnum, þar sem hann söng annan bassa. Við útför mun Lögreglukórinn kveðja góðan félaga með fögrum söng.

Útför Rudolfs fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 17. nóvember 2023, klukkan 13.

Við kveðjustund er margt sem rennur í gegnum hugann, margs að minnast. Pabbi var sterkur persónuleiki með ríkulegar skoðanir. Að halda verndarhendi yfir fjölskyldunni var honum mjög mikilvægt. Hann og mamma voru börn sinnar kynslóðar, hlutverkaskiptin hefðbundin. Pabbi vann eins og hestur við að koma þaki yfir fjölskylduna, lét engar aukavaktir fram hjá sér fara. Mamma sinnti okkur börnunum með umhyggju og natni, saumaði flest föt á okkur fram eftir aldri, bjó okkur bjart og gott æskuheimili í Hellulandi. Að koma okkur systkinunum til manns var meginmarkmiðið, við áttum helst að ganga menntaveginn og fá að njóta lífsgæða sem þeim bauðst ekki sjálfum á yngri árum.

Ég var afskaplega stolt af því að pabbi væri lögreglumaður, hann var mikil hetja í mínum augum þegar hann fór á vaktina í fullum einkennisklæðnaði. Hann vann nær alla sína starfsævi innan lögreglunnar og skilgreindi sig sem lögreglumann alla ævi. Hins vegar var ég ekki há í loftinu þegar áhyggjur af því að eitthvað kæmi fyrir hann í starfi læddust að, ekki síst árin í starfi sem sprengjusérfræðingur. Það var ekki auðvelt að sjá á eftir pabba sínum hverfa í hendingskasti með blikkandi ljósum til að aftengja sprengjur sem komu upp í fiskinetum, sem gerðist oft á þessum árum. Það var ekki erfitt að átta sig á hvað gæti gerst ef eitthvað færi úrskeiðis. Við áttum minnisstætt samtal um þetta sem ég hef oft hugsað til, þar sem hann útskýrði af hverju hann, en ekki einhver annar, yrði að fara í þessi verkefni. Þá lærði ég mikilvægi þess að axla ábyrgð, vera hugrakkur og að víkja sér ekki undan erfiðum verkefnum.

Að njóta íþrótta og útivistar var einnig talið mikilvægt í Hellulandi. Að æfa handbolta og fótbolta hafði forgang á flest annað, nema námið. Alltaf tími til að skutla á æfingar eða í keppni. Oft beið pabbi óþreyjufullur þegar skólinn var búinn, annaðhvort fórum við saman í sundlaugarnar, sem hann stundaði nær daglega fram á efri ár, eða hann var klár með smurt nesti, skíði eða skautar komnir í bílinn. Það var keyrt út úr bænum og ekki komið heim fyrr en seint að kvöldi. Að drekka heita súkkulaðið hennar mömmu uppi á toppi Bláfjalla í niðamyrkri voru dásamlegar stundir.

Þó aldrei hafi ég efast um ást þeirra og umhyggju, þá voru skýrar línur settar á heimilinu almennt. Umgengnis- og útivistarreglur skyldu virtar, enginn afsláttur gefinn þar. Seinna meir breyttist pabbi hins vegar í dúnmjúkan afa, sem leyfði barnabörnunum allt, reglur og agi var skyndilega ofmetið í uppeldi. Það var hans heilaga skylda að sjá um allt skutl svo íþróttum og tónlistarlegu uppeldi barnabarna væri sinnt.

Pabbi kenndi mér margt, gerði sér far um að gefa okkur allt sem hann átti og skila öllu til næstu kynslóða, líka að búa til vísur. Því miður með engum árangri hvað mig varðar, þó hann reyndi þolinmóður alla ævi að gera atlögu að því sem honum fannst óskiljanlegur skortur á skáldagáfu. Ég treysti því að að við bætum bara úr því þegar við hittumst hinu megin.

Hvíldu í friði með mömmu, elsku pabbi.

Hrund Rudolfsdóttir.

Þá hefur þú kvatt okkur, elsku pabbi. Kvaddir hægt og hljótt eftir stutta dvöl á sjúkrahúsi. Held að það hafi verið eins og þú vildir helst.

Ef þú varst beðinn að lýsa sjálfum þér kallaðir þú þig gamlan löggukall. Eflaust ekki skrýtið þar sem það var jú ævistarfið.

Þú varst býsna dæmigerður karl af þinni kynslóð, vinna var dyggð og menn lögðu hart að sér til að sjá sér og sínum farborða. Varst lögga, dyravörður, ökukennari og margt fleira. Mamma sinnti börnum og búi og gerði vel. Þannig var verkaskiptingin og við krakkarnir nutum jú góðs af. Vissum að hún væri alltaf til staðar, fastur punktur í tilverunni. Heimilishaldið bar keim af löggustarfinu, jólamaturinn var t.d. þegar vaktir leyfðu og þannig var það bara. Kenndi manni kannski að vera sveigjanlegur í lífinu og umburðarlyndi. Það var okkur mikill missir þegar mamma kvaddi. Við höfðum áhyggjur af því hvernig þú myndir „plumma“ þig án hennar, enda ekki þekktur fyrir færni í eldamennsku eða heimilisstörfum. Þú komst þar mjög á óvart og bjóst einn í Hæðargarðinum í nærri fimm ár.

Hreyfing og útvist var þér hugleikin. Meðan heilsa leyfði mættirðu daglega í Laugardagslaugina og hittir vini og kunningja. Sund var þín uppáhalds heilsubót og fastur liður í tilverunni. Ferðunum fækkaði í heimsfaraldri og féllu að lokum niður. Við tóku veikindi sem tóku sinn toll, en þú braggaðist aftur og við áttum ekki von á öðru en að árin yrðu enn fleiri. En þar höfðum við því miður rangt fyrir okkur.

Minningarnar streyma fram. Lítil telpa skottast með pabba í einhverjum erindum og stærri var hún við MR að hlusta á lögreglumenn frá ýmsum löndum hefja upp raust sína. Æskuárin í Stóragerði þar sem þið byggðuð ykkar fyrstu íbúð. Þar bjó her barna ásamt foreldrum og mikill samgangur var á milli íbúða. Sagt er að það taki heilt þorp að ala upp barn og það átti sannarlega við þar. Leiðin lá svo í Hellulandið þar sem þið bjugguð meðan heilsa leyfði. Fossvogurinn byggðist upp á þessum tíma, leiksvæði endalaus og góðir grannar. Þá rifjast upp ferðir í Bláfjöll, sundferðir og sumarbústaðaferðir. Og stundum fékk maður að fylgja með í vinnuna, þó strangt til tekið væri það ekki leyfilegt, t.d. að kíkja á stórmeistara í Laugardagshöll eða á hestamannamót austur í sveitum.

Þegar afabörnin komu fékkst þú nýtt hlutverk sem þú tókst „alla leið“ og gafst þeim endalausa umhyggju og ást. Reglur sem við systkinin vorum alin upp við urðu að engu og þau muna tindilfættan afa sem alltaf var til í að leika, skutla í skóla, tónlistarskóla eða á íþróttaæfingar. Þú varst stoltur af þeim og þeirra fólki og þreyttist aldrei á að dásama þau. Svo komu langafabörnin, nú fjögur og það fimmta væntanlegt. Ný, dýrmæt kynslóð til að hlúa að. Þú hafðir mikið gaman af að hitta þau og heyra af þeim. Velferð fjölskyldunnar skipti þig öllu, að allir væru heilir heilsu og liði vel. Ekkert gerði þig eins stoltan og að horfa yfir hópinn og sjá Hellulandsgengið blómstra í leik og starfi.

Hafðu þökk fyrir allt og allt, elsku pabbi. Bið að heilsa í sumarlandið.

Ásrún Rudolfsdóttir.

Þá kom að því að elsku afi sofnaði svefninum langa, þrátt fyrir að hafa búið heima og haldið sjálfstæði sínu fram á síðasta dag. Góðar minningar fylla hjarta og hug og langar okkur að koma nokkrum þeirra niður á blað. Hann afi hafði endalausa þolinmæði fyrir okkur barnabörnunum sínum. Það var hægt að fá hann til að liggja með okkur á gólfinu í kúluspili tímunum saman. Hann fór reglulega upp á háaloft að sækja gamla indjánatjaldið sem við höfðum svakalega gaman af að leika okkur í og setti það upp fyrir okkur úti í garði. Hann hafði mjög gaman af því að eyða tíma með okkur og fór mikill tími í að skutla okkur krökkunum á allar æfingar, hvort sem það var fótbolti, kór, tónlistarskóli, danstímar og svo margt fleira. Hann átti alltaf eitthvað sætt fyrir okkur í hanskahólfinu og var prins póló og kók það sem varð oftast fyrir valinu.

Hann var okkur innan handar með svo margt og var mjög umhugað um að okkur liði vel. Hann vildi að við tækjum lýsi, því það væri svo hollt, þrátt fyrir hávær mótmæli frá okkur. Hann hugaði vel að heilsunni og fór daglega í sund. Það er svo hægt að deila um það hvort hann synti alltaf eða slúðraði við félagana í pottinum.

Að okkur vitandi, þá var hafragrautur það eina sem hann kunni að elda og því lagði hann mikla áherslu á að við skyldum borða hann, enda hollur og góður fyrir meltinguna. Þessu fylgdi reglulega rjómi, sem iðulega var kekkjóttur, því ekkert fór til spillis á heimili þeirra ömmu. Þessi nýtni og nægjusemi átti ekki bara við um mat, heldur mátti aldrei henda neinu. Hann átti til dæmis sömu 66°Norður-úlpuna svo lengi að hún var komin aftur í tísku.

Hann var mjög listrænn, þó að hann hefði kannski ekki lýst sér þannig sjálfur. Hann hafði mikla unun af tónlist, enda var hann lengi í lögreglukórnum og hann samdi alveg ógrynni af ljóðum, sem hann lét alltaf fylgja með í öllum kortum í tilefni afmæla eða annarra áfanga í okkar lífi. Í skrifborðsskúffum afa leynast margar vísur, og varð þessi eftir uppi á borði eftir andlát hans:

Í litlu kerti ég Krist minn sé

með kærleiks ríkar hendur.

Hér höfum við hið helga vé,

Hann hjá oss núna stendur.

Afi var með mikið jafnaðargeð, sérstaklega í garð okkar frændsystkinanna. Þessi mannkostur nýttist honum vel í starfi enda var hann lögreglumaður til fjölda ára. Við fengum reglulega innsýn í þennan heim í gegnum sögurnar sem hann sagði okkur af störfum sínum. Við vorum mjög stolt af afa okkar og þeirri arfleifð sem hann skildi eftir sig.

Við kveðjum elsku afa okkar með söknuði og þakklæti fyrir allt sem hann gerði fyrir okkur. Hann var afi sem var til staðar fyrir barnabörnin sín og betri stuðningsmann er erfitt að finna. Við erum viss um að amma hafi tekið á móti honum með haug af fiskibollum og pönnukökum heitum af pönnunni.

Takk fyrir allt, elsku afi Rudolf.

Hvíl í friði.

Kristrún Helga
Kristþórsdóttir,
Jóhann Þór Kristþórsson, Aníta Rut Axelsdóttir, Hanna Björt Kristjánsdóttir,
Ásrún Sara Kristjánsdóttir,
Emelía Lára Kristjánsdóttir.