Vínið var bætt með MDMA-efni.
Vínið var bætt með MDMA-efni.
Einn hefur verið handtekinn í Þýskalandi eftir andlát 52 ára karlmanns þar í landi sem óafvitandi neytti kampavíns sem blandað hafði verið með fíkniefninu MDMA eða alsælu. Hinn látni veiktist skyndilega á veitingastað og urðu félagar hans, fjórir…

Einn hefur verið handtekinn í Þýskalandi eftir andlát 52 ára karlmanns þar í landi sem óafvitandi neytti kampavíns sem blandað hafði verið með fíkniefninu MDMA eða alsælu. Hinn látni veiktist skyndilega á veitingastað og urðu félagar hans, fjórir karlmenn og þrjár konur á aldrinum 33 til 52 ára, einnig fyrir eitrunaráhrifum. Þau náðu sér þó eftir skamma sjúkrahúslegu.

Atvikið átti sér stað í febrúar 2022 í Weiden í Bæjaralandi. Hópurinn sat þá að sumbli á veitingahúsi og pantaði þriggja lítra kampavínsflösku á borðið. Skömmu síðar lá hluti hópsins á gólfinu, kvartaði undan verkjum og undarlegri líðan. Rannsókn þýsku lögreglunnar hefur leitt í ljós að miklu magni MDMA hafði verið blandað við kampavínið.

Hinn grunaði er 35 ára pólskur ríkisborgari og flúði hann til Hollands þar sem hann var að lokum handtekinn í sameiginlegri aðgerð pólsku og hollensku lögreglunnar. Hann verður að líkindum ákærður fyrir fíkniefnabrot, byrlun og manndráp af gáleysi, að því er fréttaveita AFP greinir frá.

Talið er að hin fíkniefnablandaða kampavínsflaska hafi farið í sölu fyrir mistök. Verið var að smygla efnunum með þessum hætti.