Grindavík Björgunarsveitir hafa aðstoðað við að manna lokunarpósta.
Grindavík Björgunarsveitir hafa aðstoðað við að manna lokunarpósta. — Morgunblaðið/Eggert
Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, segir að skoða þurfi að koma upp tvöföldu skráningarkerfi þannig að fólk geti skráð aðsetur sitt fjarri lögheimili vegna þeirra aðstæðna sem Grindvíkingar búi nú við

Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, segir að skoða þurfi að koma upp tvöföldu skráningarkerfi þannig að fólk geti skráð aðsetur sitt fjarri lögheimili vegna þeirra aðstæðna sem Grindvíkingar búi nú við.

Í samtali við Morgunblaðið í dag segist Fannar ekki vita til þess að Grindvíkingar hafi fært lögheimili sín yfir til annarra sveitarfélaga, og vonast hann til þess að flestir geti flutt til síns heima þegar fram líða stundir.

Ljóst er að íbúar bæjarins, um 3.700 að tölu, hafa nú dreifst um marga staði eftir að bærinn var rýmdur um síðustu helgi, en samkvæmt upplýsingum frá Rauða krossinum hafa rúmlega 600 manns boðið fram húsnæði fyrir Grindvíkinga hjá samtökunum. Þá hafa stéttarfélög og Samtök atvinnulífsins einnig hlaupið undir bagga með því að bjóða afnot af orlofshúsnæði.

Hermann Jónasson, forstjóri Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, segir í samtali við Morgunblaðið í dag að hugsanleg húsnæðisþörf Grindvíkinga vegna jarðhræringa bætist við uppsafnaða þörf á markaði. „Það vantar íbúðir fyrir markaðinn á Íslandi og í Grindavík. Við byggjum of lítið. Við hjá HMS höfum sagt að það þurfi að byggja 4.000 íbúðir árlega næstu fimm árin að minnsta kosti og meta svo stöðuna frá ári til árs. Við erum hins vegar ekki að byggja nema tæplega 3.000 íbúðir árlega 2022 til 2025 en hefðum viljað vera farin að nálgast 4.000 íbúðir á ári,“ segir Hermann við blaðið í dag.

Þá bendir hann á að í rammasamningi milli ríkis og sveitarfélaga, sem undirritaður var í fyrra, hafi verið kynnt áform um 35.000 íbúðir á næstu tíu árum, þar af 4.000 íbúðir á ári næstu fimm árin, en raunin sé að töluvert færri íbúðir hafi verið byggðar.

Ástandið lítið breytt

Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur sagði í samtali við mbl.is í gærkvöldi að ástandið á Reykjanesskaga væri lítið breytt og ekki væru miklar breytingar frá degi til dags. Þá væru enn allir möguleikar opnir og ómögulegt að segja til um hvaða sviðsmynd yrði ofan á.

Þá minnti hann á að einungis væru liðnir sex dagar frá því að núverandi ástand kom upp. „Þetta er fimmti gangurinn sem við sjáum fara og þrír þeirra hafa náð til yfirborðs, einn náði ekki og svo þessi, sem veit ekki alveg hvert hann er að fara ennþá,“ sagði Páll og bætti við að það hefði til dæmis tekið þrjár vikur fyrir kvikuganginn í fyrsta gosinu á Reykjanesskaga að ná alla leið til yfirborðsins.