Verðlaunahafinn „Ég varð mjög hissa og ætlaði varla að trúa þessu,“ segir þýðandinn Áslaug Agnarsdóttir.
Verðlaunahafinn „Ég varð mjög hissa og ætlaði varla að trúa þessu,“ segir þýðandinn Áslaug Agnarsdóttir. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Þetta kom svo sannarlega á óvart. Ég varð mjög hissa og ætlaði varla að trúa þessu,“ segir Áslaug Agnarsdóttir þýðandi sem tók við Verðlaunum Jónasar Hallgrímssonar í Eddu síðdegis í gær, á degi íslenskrar tungu

Ragnheiður Birgisdóttir

ragnheidurb@mbl.is

„Þetta kom svo sannarlega á óvart. Ég varð mjög hissa og ætlaði varla að trúa þessu,“ segir Áslaug Agnarsdóttir þýðandi sem tók við Verðlaunum Jónasar Hallgrímssonar í Eddu síðdegis í gær, á degi íslenskrar tungu. Eru verðlaunin veitt einstaklingum sem hafa með sérstökum hætti unnið íslenskri tungu gagn í ræðu eða riti, með skáldskap, fræðistörfum eða kennslu og stuðlað að eflingu hennar, framgangi eða miðlun til nýrrar kynslóðar.

„Svona verðlaun eru náttúrulega mikill heiður og hvatning fyrir fólk sem vinnur svona störf. Venjulega situr maður bara einn með sína tölvu og er að glíma við að þýða texta. Þetta gleður mjög mikið og er manni mikil hvatning,“ segir Áslaug.

Í rökstuðningi dómnefndar segir að Áslaug hafi „á undanförnum árum fært Íslendingum ljóð og sögur af rússnesku í snilldarþýðingum. Af ljóðskáldum sem Áslaug hefur þýtt má nefna Marínu Tsvetajevu og af sagnaskáldum Lev Tolstoj, Alexander Púshkín og Fjodor Dostojevskíj. Þá hefur hún og þýtt tvær skáldsögur úkraínska rithöfundarins Andrejs Kúrkovs sem vakið hafa mikla athygli.“

Áslaug segist halda að skilningur á mikilvægi þýðinga hafi verið að aukast á undanförnum árum. „Á árum áður voru þýðendur stundum ekki einu sinni nefndir en það hefur verið mikið talað um það undanfarið að þýðendur séu hluti af bókmenntaheiminum,“ segir hún.

Kúrkov kom henni á bragðið

„Ég hafði snemma mikinn áhuga á rússneskum bókmenntum og var búin að kenna sjálfri mér stafrófið nokkrum sinnum og gleyma því jafnóðum. Svo var ég stödd í Noregi og þar var möguleiki að taka rússnesku fyrir byrjendur í Háskólanum í Osló og ég skráði mig í þá deild. Síðan fékk ég styrk til að vera einn vetur í Mosvu og læra rússnesku, veturinn 1975-76. Svo hef ég farið nokkrum sinnum á námskeið síðan.“

Áslaug tók sín fyrstu skref sem þýðandi í kjölfar valdaránstilraunarinnar í Rússlandi 1991 en þá þýddi hún fréttir þaðan fyrir fréttastofu RÚV. „Síðan hafði Snæbjörn Arngrímsson hjá Bjarti samband við mig og spurði mig hvort ég gæti hugsað mér að þýða Dauðann og mörgæsina eftir Andrej Kúrkov. Fyrst sagðist ég ekki hafa neinn tíma í það af því ég var í fullri vinnu og með fjölskyldu. En svo hitti ég hann stuttu seinna í jólaboði og hann spurði aftur. Ég ákvað að það gæti verið gaman að prófa og spurði hvað ég hefði mikinn tíma. Hann sagði að ég fengi ár. Og það tók ár að þýða þessa fyrstu bók. En þá var ég einhvern veginn komin á bragðið, fannst þetta skemmtilegt og hélt áfram.“

Spurð hvað standi upp úr af þeim þýðingarverkefnum sem hún hafi tekið að sér nefnir Áslaug að sér hafi þótt sérstaklega gaman að þýða verk nútímahöfunda á borð við Andrej Kúrkov og Mikhaíl Shishkin. Þeir hafi báðir komið hingað til lands og hún fengið tækifæri til að hitta þá í eigin persónu. Mest gaman hafi hún þó haft af því að setja saman smásagnasöfnin Sögur frá Rússlandi og Sögur frá Sovétríkjunum, þar sem hún valdi saman og þýddi smásögur frá 19. og 20. öld.

Lestur skiptir sköpum

„Að fella veröldina í orð felur nú sem þá í sér nýjar áskoranir á degi hverjum og þó að netorðabækur, þýðingarvélar og gervigreind séu góðar til síns brúks þá er vandséð að sá sköpunarmáttur sem býr í mannlegum huga verði nokkurn tíma leystur af hólmi. Þýðendur eru kannski mikilvægari á okkar dögum en nokkru sinni fyrr því færni þeirra ræðst ekki aðeins af því að geta fundið þá þýðingu sem er líklegust tölfræðilega heldur getur góð þýðing lokið upp heimi sem gefur innsýn í sögu, samfélag, menningu og siðvenjur sem búa í öðru tungumáli,“ segir í rökstuðningi dómnefndar.

„Ef maður kemur texta yfir á góða íslensku þá hlýtur að vera áhugavert fyrir Íslendinga að kynna sér menningu annarra þjóða í gegnum þýðingar. Þá er algjör forsenda að það sé þýtt á gott mál. Það er allt mögulegt sem kemur inn í þýðingar eins og stíll og setningaskipan sem ég held að gervigreindin ráði ekki við, alla vega ekki enn sem komið er,“ segir Áslaug.

Hún minnist að lokum á mikilvægi lesturs. „Ég held að lestur sé algjör grundvöllur fyrir því að fólk nái góðum tökum á íslenskunni. Það þarf að byrja snemma og lesa með börnum. Ég var sjálf mikill bókaormur og byrjað að lesa snemma og ég held að það skipti sköpum til að ná tökum á tungumálinu.“

Viðurkenning







VV sögur

Elsa G. Björnsdóttir og Anna Valdís Kro tóku við sérstakri viðurkenningu fyrir störf í þágu íslensks máls fyrir verkefnið Menningin gefur og vinnu sína með svokallaðar VV sögur.

Verkefnið Menningin gefur hófst árið 2020 en það er samstarfsverkefni Ós Pressunnar, Borgarbókasafnsins og Bókmenntaborgarinnar Reykjavíkur. „Segja má að þungamiðja verkefnisins sé námskeiðið VV sögur þar sem Elsa G. Björnsdóttir, túlkur, leikkona og ljóðskáld, kenndi þátttakendum gerð VV sagna sem byggja á sérstökum sjónrænum aðferðum við að flytja bókmenntir, hér mætti jafnvel tala um nýtt skáldskaparmál,“ segir m.a. í rökstuðningi dómnefndar.

„Í kjölfar námskeiðsins skrifaði Anna Valdís Kro mjög metnaðarfulla BA-ritgerð sem byggði á viðtölum við níu döff þátttakendur í námskeiðinu þar sem meðal annars er glímt við stöðu íslensks táknmáls gagnvart táknmáli VV sagna, sem segja má að sé alþjóðlegt. Þátttakendur veltu líka fyrir sér menningararfi íslenska döff samfélagsins og síðast en ekki síst stöðu döff bókmennta í íslenskri bókmenntasögu.“