Húsnæðismál Aðilar vinnumarkaðarins sem og almenningur hafa brugðist vel við ósk um að aðstoða Grindvíkinga í þeim hremmingum sem ganga yfir.
Húsnæðismál Aðilar vinnumarkaðarins sem og almenningur hafa brugðist vel við ósk um að aðstoða Grindvíkinga í þeim hremmingum sem ganga yfir. — Morgunblaðið/Eggert
„Stéttarfélögin sendu okkur strax lista yfir eignir og erum við komin með 122 einingar á hann með samtals 750 rúmum,“ segir Karl Pétur Jónsson, upplýsingafulltrúi Framkvæmdasýslunnar – Ríkiseigna í samtali við Morgunblaðið, en…

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Stéttarfélögin sendu okkur strax lista yfir eignir og erum við komin með 122 einingar á hann með samtals 750 rúmum,“ segir Karl Pétur Jónsson, upplýsingafulltrúi Framkvæmdasýslunnar – Ríkiseigna í samtali við Morgunblaðið, en stofnuninni var falið að útvega húsnæði í neyðarviðbragði vegna rýmingar í Grindavík.

Segir hann að leitað hafi verið til verkalýðshreyfingarinnar sem er með talsverðan fjölda orlofsíbúða í sinni eigu og óskað eftir aðgengi Grindvíkinga að því húsnæði. Viðtökur hafi verið góðar. Hann nefnir einnig að margir þessara íverustaða hafi verið í leigu hjá félagsfólki og hafi stéttarfélögin farið í að afbóka þá. Rauði krossinn hafi farið í það á miðvikudag að bjóða fólki þetta húsaskjól og yrði því haldið áfram næstu daga.

Tekið á móti skráningum

Rauði krossinn tekur einnig á móti skráningum frá einstaklingum, verkalýðsfélögum og öðrum aðilum sem hafa boðið fram húsnæði til afnota fyrir Grindvíkinga sem þurft hafa að flýja heimili sín vegna jarðhræringanna á Reykjanesskaga.

Segir Oddur Freyr Þorsteinsson, upplýsingafulltrúi Rauða krossins, í samtali við Morgunblaðið að samtökin hafi yfirsýn yfir það húsnæði sem boðið hefur verið fram og skráð hjá samtökunum, en ekki það húsnæði sem boðið hefur verið eftir öðrum leiðum, t.d. manna á milli.

„Viðbrögðin hafa verið góð, mörg hundruð manns hafa boðið fram húsnæði um allt land. Fólk fór að bjóða fram húsnæði strax á föstudagskvöldið, þannig að það tók okkur ekki langan tíma að koma fólki úr fjöldahjálparstöðvum í annað húsnæði. Nú er vinna við að koma fólki fyrir í fullum gangi og fólki forgangsraðað eftir því hve þörfin er mikil,“ segir Oddur Freyr.

Um fjölda þeirra íbúða, sumarbústaða eða annars húsnæðis sem boðið hefur verið fram, þ.e. af hálfu einstaklinga eða annarra aðila, segir Oddur Freyr að ekki sé hægt að gefa afgerandi svör um það, enda vinna í fullum gangi og forsendur taki stöðugum breytingum.

Þó sé ljóst að yfir 600 manns hafi boðið húsnæði af ýmsu tagi, allt frá herbergjum inni á heimilum til einbýlishúsa og sífellt bætist við listann. Ekki sé þó fólki ráðstafað inn á herbergi á einkaheimilum.

Oddur Freyr segir að ekki liggi fyrir upplýsingar um fjölda þeirra Grindvíkinga sem fengið hafi afnot af húsnæði og ekki heldur hvað vanti upp á. Fólk væri bæði að finna gistingu sjálft og einnig væri húsnæði sífellt að bætast við.

Stéttarfélög og Samtök atvinnulífsins útvega húsnæði

Þau stéttarfélög sem boðið hafa fram húsnæði í sinni eigu eru Kennarasamband Íslands, Verslunarmannafélag Reykjavíkur, Efling, Bandalag háskólamanna og Byggiðn, en von væri á fleirum að sögn Karls Péturs. Verið væri að hafa samband við stéttarfélög á landsbyggðinni sem ættu íbúðir í Reykjavík og næsta nágrenni, þar sem skortur væri á þeim.

Þá hafa Samtök atvinnulífsins hvatt fyrirtæki til þess að hlaupa undir bagga með Grindvíkingum með því að leggja til afnot af orlofshúsnæði á meðan þeim er óheimilt að snúa til síns heima, en samtökin eiga í samstarfi við Framkvæmdasýsluna – Ríkiseignir í þessu verkefni.

Á heimasíðu samtakanna segir að í forgangi sé að útvega þeim sem dvalið hafa í fjöldahjálparstöðvum og öðru bráðabirgðahúsnæði viðunandi tímabundin úrræði. Mat á húsnæðisþörf og miðlun húsnæðisins sé unnið í samvinnu við almannavarnir og bæjaryfirvöld í Grindavík. Samtökin muni hafa milligöngu um þessar upplýsingar og afhenda Framkvæmdasýslunni.