Matvælastofnun Ríkisendurskoðun hefur eitt og annað að athuga við starfshætti Matvælastofnunar, að því er fram kemur í úttekt.
Matvælastofnun Ríkisendurskoðun hefur eitt og annað að athuga við starfshætti Matvælastofnunar, að því er fram kemur í úttekt. — Morgunblaðið/Eggert
Ólafur E. Jóhannsson oej@mbl.is Matvælastofnun, MAST, fær nokkra útreið í úttekt Ríkisendurskoðunar um eftirlit stofnunarinnar með velferð búfjár, en embættið kynnti úttekt sína á MAST fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis í gær.

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Matvælastofnun, MAST, fær nokkra útreið í úttekt Ríkisendurskoðunar um eftirlit stofnunarinnar með velferð búfjár, en embættið kynnti úttekt sína á MAST fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis í gær.

Þar kemur m.a. fram að MAST standi frammi fyrir margvíslegum áskorunum. Megi þar nefna að stofnuninni hafi ekki tekist nægilega vel að byggja upp það traust sem nauðsynlegt sé hverri eftirlitsstofnun og hafi sýnt langlundargeð í einstaka málum þar sem velferð dýra er ábótavant.

Ríkisendurskoðun segir að ýmislegt megi bæta í starfsemi MAST til að ná betri árangri í eftirliti stofnunarinnar með velferð búfjár. Telur Ríkisendurskoðun m.a. að MAST þurfi að leggja aukna áherslu á að stjórnsýsluleg framkvæmd verði ekki á kostnað velferðar dýra, stofnunin þurfi að huga betur að innri og ytri upplýsingagjöf, hún þurfi einnig að virkja betur samstarfsráð sitt, bæta samskipti og samstarf við hagaðila og byggja upp aukið traust. Þá þurfi MAST að þróa skipulag, verklag og framkvæmd eftirlits nánar og beita áhættu- og frammistöðumati í meiri mæli en gert er.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er bent á sjö atriði sem huga þurfi að. Snúa þær að því að stofnunin leggi meiri áherslu á „að dýr njóti vafans með hliðsjón af markmiðum laga um velferð dýra, þrói frekar verklag um áhættu- og frammistöðumat, efli gæðastjórnunarkerfi, endurskoði gerð eftirlitsáætlana, tryggi betri yfirsýn með vöktun frávika, bæti ímynd sína og efli lögbundið samráð og samstarf við hagaðila,“ að því er segir í tilkynningu Ríkisendurskoðunar.

Þar segir og að sex ábendingum sé beint til matvælaráðuneytis sem snúi að því að skýra þurfi stefnu um samræmi við erlendar kröfur, endurmeta þurfi kröfur um tilkynningarskylt dýrahald og endurskoða þurfi ábyrgð á skipan yfirdýralæknis, starfsemi og hlutverk fagráðs um velferð dýra og aðkomu ráðuneytisins að innri úttektum sem og gjaldskrá MAST.

Bent er á að stjórnvöld þurfi að setja skýra stefnu um með hvaða hætti kröfur um dýravelferð eigi að fylgja þróun í evrópskum rétti, gjaldskrá stofnunarinnar hafi ekki fylgt raunkostnaði við eftirlit í lengri tíma með neikvæðum áhrifum á starfsemina og þurfi stjórnvöld að bæta þar úr.

Ýmsa skavanka segir Ríkisendurskoðun að megi finna á framkvæmd eftirlits MAST í einstaka málum. Þar á meðal telur Ríkisendurskoðun að MAST hafi í einhverjum málum sýnt of mikið langlundargeð og í öðrum tilvikum hafi aðgerðir ekki verið nægilega markvissar og eftirfylgni ábótavant. Draga verði þá ályktun að nálgun stofnunarinnar gagnvart stjórnsýslulegri meðferð sé í einhverjum tilvikum svo varfærin að hún gangi í raun gegn markmiðum laga um velferð dýra.

Þá er nefnt að dæmi séu um að MAST hafi þétt eftirlit með búrekstri, þar sem fjöldi frávika sé skráður, árum og jafnvel áratugum saman án þess að aðstæður batni til frambúðar og virðist mótstaða eða samstarfsvilji umráðamanna dýra hafa áhrif á til hvaða aðgerða MAST grípur og hvenær.