Gísli Þorgeir Kristjánsson, landsliðsmaður í handknattleik og leikmaður Magdeburgar í Þýskalandi, kveðst staðráðinn í að taka þátt á EM 2024 í Þýskalandi þrátt fyrir að vera að jafna sig á alvarlegum axlarmeiðslum

Gísli Þorgeir Kristjánsson, landsliðsmaður í handknattleik og leikmaður Magdeburgar í Þýskalandi, kveðst staðráðinn í að taka þátt á EM 2024 í Þýskalandi þrátt fyrir að vera að jafna sig á alvarlegum axlarmeiðslum. Gísli Þorgeir gekkst undir skurðaðgerð á hægri öxl í sumar eftir að hafa farið úr lið í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu. Í samtali við Magdeburger Volksstimme sagði Gísli Þorgeir að endurhæfingin gengi vel og að hann væri bjartsýnn á að geta byrjað að spila fyrr en upphaflega var áætlað. Stefnir hann á að vera með á EM.

Knattspyrnudeild Vestra hefur ráðið Kristján Arnar Ingason sem þjálfara kvennaliðs félagsins. Vestri verður nýliði í 2. deild kvenna á næstu leiktíð. Vestri var síðast með kvennalið á Íslandsmótinu árið 2013 og á Kristján Arnar að hefja enduruppbygginguna á Vestfjörðum. Liðið er að mestu leyti skipað ungum leikmönnum og er því frábært að fá inn reynslumikinn þjálfara til að hefja vegferðina,“ segir m.a. í tilkynningu félagsins.

Knattspyrnudeild Vals hefur framlengt samning sinn við varnarmanninn Örnu Sif Ásgrímsdóttur um tvö ár. Hún hefur verið í lykilhlutverki hjá liðinu undanfarin tvö ár. Arna hefur leikið 268 leiki í efstu deild með Val og Þór/KA og skoraði í þeim 46 mörk. Þá á hún 17 A-landsleiki að baki. Hún hefur verið einn allra besti leikmaður Íslandsmótsins undanfarin ár og átt stóran þátt í að Valur sé Íslandsmeistari síðustu tveggja ára. Hún lék fyrst með Val frá 2016 til 2017 og kom síðan aftur til félagsins á síðasta ári.

Draymond Green, leikmaður Golden State Warriors í NBA-deildinni í körfuknattleik, hefur verið úrskurðaður í fimm leikja bann fyrir að hafa tekið Rudy Gobert, leikmann Minnesota Timberwolves, hálstaki í leik liðanna í fyrrinótt. Upp úr sauð snemma leiks og kom til handalögmála sem endaði með brottvikningu Greens, liðsfélaga hans Klays Thompsons og Jadens McDaniels leikmanns Minnesota.