Skáldið Ætli Jónas yrði ekki glaður að vita að enn er verið að vernda íslenska tungu og að nýjasta tækni gæti orðið liðtækt vopn í baráttunni?
Skáldið Ætli Jónas yrði ekki glaður að vita að enn er verið að vernda íslenska tungu og að nýjasta tækni gæti orðið liðtækt vopn í baráttunni? — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Dóra Ósk Halldórsdóttir doraosk@mbl.is

Sviðsljós

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

Á degi íslenskrar tungu er tilvalið að staldra við og skoða hvert okkar ástkæra ylhýra tungumál stefnir í stöðugt fjölmenningarlegri heimi. Það er ekki sjálfgefið að tungumál smærri þjóða lifi í heimi sem sífellt notar meira tungumál stærstu málsvæðanna og íslensk börn þurfa skertan aðgang að barnaefni á vefnum svo þau svari ekki foreldrunum á ensku. Á fæðingardegi skáldsins Jónasar Hallgrímssonar, 16. nóvember, er haldið upp á dag tungunnar okkar og reynt að gera veg hennar sem mestan.

Í anda Fjölnismanna var í gær hleypt af stokkunum átakinu Höldum íslenskunni á lofti hjá stjórn Isavia. Ákveðið var að íslenskan yrði sýnilegri á Keflavíkurflugvelli og kæmi á undan öðrum tungumálum á öllum leiðbeiningarskiltum fyrir árslok 2024. En til þess að rugla ekki blessaða ferðamennina sem koma í stríðum straumum til landsins var ákveðið að öllum skiltum vallarins yrði breytt í einu svo samræmis gæti í hvívetna. Það er mikill kostur að þetta anddyri útlendinga til landsins beri menningu og sérkennum þjóðarinnar vitni og sé ekki svo enskuvætt að flugvöllurinn gæti verið hvar sem er í hinum enskumælandi heimi.

Með kennarann í vasanum

En hvernig ætli staðan sé hjá stöðugt stærra hlutfalli erlendra borgara sem búa nú og starfa á Íslandi? Í gær var tilkynnt að sveitarfélögin Reykjavíkurborg, Akranes, Mýrdalshreppur, Ísafjarðarbær og Mosfellsbær hefðu öll tekið tæknina í sína þjónustu til að auðvelda starfsfólki sínu af erlendum uppruna tungumálanámið og væru fleiri sveitarfélög að íhuga að feta í fótspor þeirra.

Appið Bara tala frá fyrirtækinu Akademias byggist á gervigreind og íslenskri máltækni og hefur gefist vel hjá þeim fyrirtækjum sem hafa fengið það fyrir sína erlendu starfsmenn. Starfsfólkið fær í appinu stafrænan íslenskukennara sem fylgir þeim hvert fótspor og aðstoðar við íslenskunámið, en þessi aðstoð getur skipt sköpum fyrir þau 23% starfsfólks af erlendum uppruna sem eru nú á íslenskum vinnumarkaði.

Lestrarvopn Finna

Það eru ekki bara nýbúar af erlendum uppruna sem þurfa aðstoð við íslenskuna, heldur hefur margoft komið fram í lestrarkönnunum PISA að börn, og þá sérstaklega drengir, geta ekki lesið sér til gagns þegar þau útskrifast úr grunnskóla. Talað er um að rúmur þriðjungur drengja og fimmtungur stúlkna falli í þennan hóp. Það sýnir kannski það augljósa að íslensk börn lesa miklu minna en áður var en líka að það þarf að nálgast kennsluna með einhverjum öðrum hætti.

Menntaverðlaun UNESCO

Í rannsókn á vegum Menntamálastofnunar á stöðu drengja í íslenskum skólum kemur fram að íslensk börn og sérstaklega drengir þurfi meiri tungumálastuðning á fyrstu árum náms. Finnski tölvuleikurinn Graphogame verður nú á næstunni í boði fyrir íslensk börn á íslensku, en leikurinn hlaut nýlega menntaverðlaun UNESCO fyrir afburðaárangur í tungumálakennslu.

Leikurinn hefur verið staðfærður á 11 tungumál og undanfarin misseri hefur verið unnið að því að færa hann yfir á íslensku. Verkefnisstjóri verkefnisins er Tryggvi Hjaltason hjá CCPC, sem í samvinnu við Billboard ehf. stendur að útgáfu tölvuleiksins, og verða prófanir á íslensku útgáfunni gerðar í byrjun næsta árs. Með stuðningi Menntamálastofnunar, Samtaka atvinnulífsins og Kópavogsbæjar er gert ráð fyrir að tölvuleikurinn verði gjaldfrjáls næstu fimm árin og að sjálfsögðu verður leiknum fundið gott íslenskt nafn.

Kenna GPT-4 Turbo íslensku

Það gera sér kannski ekki allir grein fyrir því hversu mikilvægt það var á sínum tíma að íslenska m.a. stýrikerfi og að núna sé róið að því öllum árum að á gervigreindaröld verði hægt að eiga samskipti við snjalltæki á íslensku.

Íslenska fyrirtækið Miðeind hefur verið í samstarfi við bandaríska gervigreindarfyrirtækið Open AI, sem hefur þróað GPT-gervigreindarlíkönin. Sú vegferð hófst í kjölfar heimsóknar forseta Íslands og sendinefndar til höfuðstöðva Open AI í San Francisco í haust, en þá var Vilhjálmur Þorsteinsson stofnandi Máleindar með í för. Ákveðið var að Máleind myndi aðstoða fyrirtækið við að kenna nýjustu kynslóð GPT-4-gervigreindarlíkansins íslensku og hefur það starf gengið vonum framar.

Nýjasta útgáfa GPT-4 Turbo getur nú beygt heil beygingardæmi villulaust í eintölu og fleirtölu í öllum föllum í 66% tilvika, sem er gífurleg framför frá eldra líkaninu sem kom út í mars sl. sem hafði engar villur í 25% tilrauna. Það þætti aldeilis góð bæting á örfáum mánuðum og víst að stutt er í að GPT-4 geti spjallað á gullaldaríslensku að hætti Jónasar.