Jón Hjaltalín Magnússon
Jón Hjaltalín Magnússon
Ólympíufarar, íþróttafólk og þjálfarar: Sækið ráðstefnuna „Vinnum gullið – ný stefna í afreksíþróttum á Íslandi“ nk. mánudag, 20. nóvember, í Hörpu.

Jón Hjaltalín Magnússon

Samtök íslenskra ólympíufara (SÍÓ) fagna þeirri ákvörðun Ásmundar Einars Daðasonar ráðherra mennta-, barna- og íþróttamála að styðja myndarlega við markvissa afreksíþróttastefnu fyrir Ísland í samstarfi við ÍSÍ, UMFÍ og Samband íslenskra sveitarfélaga. SÍÓ hvetur alla ólympíufara, íþróttamenn og –konur sem stefna að árangri á alþjóðlegum mótum og ólympíuleikum svo og þjálfara þeirra, liðsstjóra og leiðtoga íþróttafélaga og sérsambanda að sækja ráðstefnuna „Vinnum gullið – ný stefna í afreksíþróttum á Íslandi“ nk. mánudag 20. nóvember í Hörpu. Þar mun íþróttamálaráðherra ásamt Vésteini Hafsteinssyni OLY og afreksstjóra ÍSÍ kynna áform um eflingu afreksíþróttastarfs auk þess sem fulltrúar íþróttahreyfingarinnar og aðrir ráðstefnugestir munu koma að mótun tillagna.

Á ráðstefnunni verða kynnt áform um stóreflingu afreksíþróttastarfs á Íslandi með bættri aðstöðu, stuðningi og réttindum fyrir afreksíþróttafólk. Fjallað verður um hvernig skapa megi umgjörð fyrir unga íþróttaiðkendur til að vaxa og dafna, jafnt í þéttbýli og dreifbýli. Þá mun þjóðþekkt afreksíþróttafólk koma sínum áherslum á framfæri og einnig verður aðkoma sveitarfélaga og atvinnulífsins rædd. Nánari upplýsingar um ráðstefnuna er að finna á heimasíðu ÍSÍ og fésbókarsíðu SÍÓ.

SÍÓ fagnar einnig nýrri rannsóknarstofu námsbrautar íþrótta- og heilsufræði við Háskóla Íslands sem opnuð var í seinustu viku. Þessi rannsóknarstofa verður búin fyrsta flokks rannsóknartækjum til að mæla og rannsaka líkamlegt atgervi íþróttafólks og almennings eins og stökkkraft og þol. Búnaður þessi er eins og best gerist erlendis. Þessi aðstaða mun nýtast afreksíþróttafólki vel til að bæta árangur sinn og ná sér fyrr eftir meiðsli.

SÍÓ fagnar ráðningu Vésteins Hafsteinssonar afreksíþróttamanns og margfalds ólympíufara sem afreksstjóra ÍSÍ með stuðningi íþróttamálaráðuneytisins. Eins og þjóðin veit þá hefur Vésteinn náð frábærum árangri með afreksíþróttamenn Svíþjóðar o.fl. þjóða á alþjóðlegum mótum og ólympíuleikum eins og sænsku kringlukastarana Daníel og Símon sem tóku gull og silfur í Tókýó. Vésteinn mun leiða mótun afreksstefnunnar og aðstoða íþróttafólk okkar, félög og sérsambönd við mótun sinnar stefnu og eftirfylgni.

SÍÓ þakkar stjórn og starfsmönnum ÍSÍ og þá sérstaklega forseta ÍSÍ, Lárusi Blöndal, fyrir öflugt starf undanfarin ár við mótun afreksstefnu í íþróttum og bætta aðstöðu og verður áhugavert að fylgjast með okkar efnilega íþróttafólki í öllum íþróttagreinum á næstu árum.

SÍÓ þakkar einnig núverandi ríkisstjórn og alþingi fyrir aukinn stuðning við málefni íþróttamála og þá sérstaklega Ásmundi Einari Daðasyni ráðherra mennta-, barna- og íþróttamála. Vonum að þessi fjárhagslegi stuðningur muni aukast verulega til að framkvæma hina nýju afreksíþróttastefnu með tilheyrandi bættri aðstöðu eins og þjóðarhöll o.fl. Sérstaklega er brýnt að koma tryggingamálum íþróttafólks í viðunandi horf, koma á fót öflugum afrekssjóði íþróttafólks og ferðasjóði unglingalandsliða, því það er ófært að piltar og stúlkur í unglingalandsliðum okkar þurfi að greiða úr eigin vasa eða safna fyrir keppnisferðum sínum á stórmót með tilheyrandi undirbúningi og ferðalögum sem nemur yfir einni milljón á ári, eins og piltarnir í unglingalandsliði okkar í handbolta sem unnu bronsverðlaun á seinasta heimsmeistaramóti.

Höfundur er formaður Samtaka íslenskra ólympíufara.