Samhugur Fjölskyldan er flutt búferlum vegna náttúruhamfaranna.
Samhugur Fjölskyldan er flutt búferlum vegna náttúruhamfaranna.
Kristján Jónsson kris@mbl.is Grindvíkingurinn Skúli Pálmason segist klökkur yfir þeirri velvild sem hann og fjölskyldan hafa fundið fyrir eftir að í ljós kom að hús þeirra í Grindavík er einfaldlega ónýtt eftir harða jarðskjálfta. Í framhaldinu auglýsti Skúli eftir húsgögnum og fleiru í innbú á facebooksíðunni Aðstoð við Grindvíkinga. Hann segir viðbrögðin hafa verið ævintýraleg.

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Grindvíkingurinn Skúli Pálmason segist klökkur yfir þeirri velvild sem hann og fjölskyldan hafa fundið fyrir eftir að í ljós kom að hús þeirra í Grindavík er einfaldlega ónýtt eftir harða jarðskjálfta. Í framhaldinu auglýsti Skúli eftir húsgögnum og fleiru í innbú á facebooksíðunni Aðstoð við Grindvíkinga. Hann segir viðbrögðin hafa verið ævintýraleg.

„Það er stórkostlegt að finna fyrir þessum samhug en mig hefði ekki órað fyrir samstöðunni hjá þjóðinni. Maður tárast oft á dag yfir velvildinni og hugulseminni. Allir virðast vera tilbúnir til að rétta hjálparhönd og fólk er tilbúið til að gefa hitt og þetta. Það er alveg magnað og við erum afar þakklát. Ég fékk slík viðbrögð við þessari færslu að ég hefði líklega getað safnað innbúi fyrir þrjár íbúðir á klukkutíma,“ segir Skúli en þeim buðust þeir hlutir sem þau óskuðu eftir á um það bil fimm mínútum.

„Við erum lánsöm að því leytinu til að við höfum nú þegar fengið langtímahúsnæði á Seltjarnarnesi. Við erum að ljúka við að mála íbúðina núna og taka við því dóti sem við fengum gefins. Stefnt er að því að flytja inn í næstu viku,“ segir Skúli en íbúðin var tóm og þess vegna óskaði hann eftir innanstokksmunum á Facebook eins og áður var nefnt.

Lífið breyttist á einu bretti

Skúli er uppalinn Grindvíkingur. Hann fór í burtu til að afla sér menntunar en flutti aftur í heimabæinn fjórtán árum síðar. Í desember síðastliðnum flutti fjölskyldan í húsið sem nú er óíbúðarhæft eftir jarðskjálftana á dögunum en það stendur á sprungu að sögn Skúla. Rætur Skúla eru í þessu húsi.

„Ég ólst upp í húsinu en langafi minn byggði það á sjötta áratugnum. Ég ólst upp á neðstu hæðinni og er sá eini sem hefur búið á öllum þremur hæðum hússins á einhverjum tímapunkti. Þarna eru æskuminningarnar og þetta er fjölskylduhús. Nú er það að hruni komið,“ segir Skúli sem er menntaður sjúkraþjálfari og þarf nú að svipast um eftir atvinnu.

„Við vorum með stóran bílskúr sem ég var að breyta í vinnuaðstöðu fyrir mig. Ég var að ljúka því að innan í síðustu viku og ætlaði að hefja störf þar sem sjúkraþjálfari en þá ríður þetta yfir. Undir skúrnum er hola „niður til helvítis“ eins og nágranni minn orðaði það. Húsnæðið er því farið, atvinnan er farin, skólinn er farinn og leikskólinn er farinn. Allt á einu bretti. Þetta er því töluvert áfall,“ segir Skúli en börnin eru annars vegar á leikskólaaldri og hins vegar á grunnskólaaldri.

Fyrst þessar hamfarir þurftu að eiga sér stað þá lítur Skúli þannig á að fjölskyldan sé á vissan hátt lánsöm. Til dæmis séu þau ekki í óvissu um hvort heimili þeirra sé íbúðarhæft eða ekki. Það sé ónýtt og þau geti strax hugað að því að byrja upp á nýtt á öðrum stað.

Viss léttir að fá niðurstöðu

„Í rauninni er viss léttir að húsið skuli vera ónýtt. Ekki verður aftur snúið í það og því þurfum við einfaldlega að ákveða næstu skref. Maður brotnaði niður við að koma inn í húsið en þegar mesta sjokkið er yfirstaðið horfir maður öðrum augum á málið. Við erum því heppnari en margir aðrir. Strákurinn okkar byrjaði í nýjum grunnskóla í gær og stelpan byrjar vonandi í leikskóla á Seltjarnarnesi í næstu viku en í bæjarfélaginu eru allir af vilja gerðir til að koma henni að,“ segir Skúli Pálmason í samtali við Morgunblaðið.

Höf.: Kristján Jónsson