Á Boðnarmiði spyr Halldór Halldórsson: Þegar karl á áttræðisaldri á Holtinu í Hafnarfirði fer að efast um hvað hann skilur eftir sig: Er að lokum lífs ég kem, leið sem skima yfir; verður aðeins auðna sem eftir það sem lifir! Steindór Tómasson…

Á Boðnarmiði spyr Halldór Halldórsson: Þegar karl á áttræðisaldri á Holtinu í Hafnarfirði fer að efast um hvað hann skilur eftir sig:

Er að lokum lífs ég kem,

leið sem skima yfir;

verður aðeins auðna sem

eftir það sem lifir!

Steindór Tómasson skrifar: Ég er margs vísari um bragfræði og „rétt“ ortar vísur, eftir margskonar athugasemdir varðandi bragfræðireglur. Ég er fullur þakklætis fyrir viðbrögð bæði þeirra sem vanda um fyrir mér og ekki síður þeirra sem „læka“ þessa viðleitni mína. Ég geri þetta mér til skemmtunar og bara bónus ef það skemmtir öðrum í leiðinni:

Ekki brotinn, bugaður

bara þrotinn kraftur.

Herða lotinn, hugaður,

hæru skotinn raftur.

Benedikt Jóhannsson um það sem allir hugsa:

Jörðin stundar háska hrekki

og hristing ei fær sparað.

Gýs hún eða gýs hún ekki?

Því getur enginn svarað.

Ingólfur Ómar Ármannsson bætir við:

Gliðnar jörð við Grindavík

gerast lotur harðar.

Ógnin þar er engu lík

í iðrum móður jarðar.

Gunnar Hólm Hjálmarsson segir að ferskeytlan geymi marga góða sjálfsmynd. – Hér er mín um þessar mundir:

Allt er gott sem í mér býr

undir fögru skinni.

Húmanisti hjartahlýr

hlær við tilverunni.

Eiríkur Jónsson bætir við:

Aldrei hef ég efast neitt

mig enginn viti sviptir

enda veit ég yfirleitt

allt sem máli skiptir.

Á Leir fór Björn Ingólfsson í vindsperringi til kirkju og orti auðmjúkur undir messunni:

Vér sitjum á bekkjunum breiðu

svo bljúgir og andinn til reiðu.

Fyrir framan mig er

einn fjárbóndi hér.

Ó, Drottinn minn, gefðu 'onum greiðu!

Björn tilkynnti að hann væri kominn á ellilaun:

Nú finnst oss að fagna megi.

Vér fretnaglar bognum eigi

né föllum á kné

komið þótt sé

að síðasta söludegi.

¶ Það er gamanlaust með það að glettast¶ og grínlaust ef það mundi fréttast.¶ Hún var kannski ekki klók¶ þessi kona sem tók¶ af sér hausinn því hún vildi léttast.¶ Hallmundur Guðmundsson gefur þjóðráð á Tene:¶ Á Tene giska gott er¶ að gæta sín á veirunum.¶ Svo ef að svaka 'hot er'¶ - er sólarvörn á eyrunum.¶ Sigurður Garðar Gunnarsson er líka ráðagóður:¶ Þú skalt ekki lundleiðan¶ láta spilla degi¶ Heldur ekki bolbreiðan¶ beina þér af vegi¶ Sigurður Garðar Gunnarsson yrkir:¶ Klukkur tifa tafalaust¶ tímann sífellt kynna.¶ Sumar hafa háa raust¶ hinar láta minna¶ Öfugmælavísa:¶ Séð hef ég hegrann synda á sjó,¶ súluna á fjöllum verpa.¶ álftina sitja við ullartó.¶ örnina í eldi snerpa.¶ Halldór Blöndal