Biðstaða Bræðurnir Kristján og Gunnar í Kjötborg eru ósáttir.
Biðstaða Bræðurnir Kristján og Gunnar í Kjötborg eru ósáttir. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
„Núna eru komnar rúmar þrjár vikur og ég hef ekki heyrt eitt eða neitt frá þeim,“ segir Gunnar Halldór Jónasson, kaupmaður í versluninni Kjötborg við Ásvallagötu. Gunnar fundaði með Degi B. Eggertssyni borgarstjóra vegna bílastæðamála við verslunina í lok október og bíður svara eða lausna

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Núna eru komnar rúmar þrjár vikur og ég hef ekki heyrt eitt eða neitt frá þeim,“ segir Gunnar Halldór Jónasson, kaupmaður í versluninni Kjötborg við Ásvallagötu. Gunnar fundaði með Degi B. Eggertssyni borgarstjóra vegna bílastæðamála við verslunina í lok október og bíður svara eða lausna.

Eins og Morgunblaðið hefur greint frá lýstu kaupmenn í versluninni og fleiri í þeirra stöðu óánægju með það þegar bílastæðagjöld voru hækkuð og gjaldsvæði stækkað. Ótækt væri að þurfa að greiða fullt gjald til að geta sinnt viðskiptavinum sínum. Í kjölfarið lýsti Dagur því yfir að hann myndi bjóða þeim í kaffi. Kaffiboðið var efnt en Gunnar bíður enn eftir aðgerðum.

„Þetta gekk ágætlega. Borgarstjórinn lofaði engu í sjálfu sér en sagði að farið yrði í að leysa þetta mál með einhverjum hætti. Ég var með þeim í þrjú korter og við fórum yfir ýmis mál. Hann sagði þó að skýrt væri að ekki væri hægt að gera neitt fyrir tvo bíla, ekki heldur hjá íbúum. Við myndum þá kannski byrja á að fá leyfi fyrir einum bíl og borga fyrir hinn.“

Hann segir brýnt að þessar breytingar fari í gegn því mikill kostnaður leggist á reksturinn. Stöðumælaverðirnir hafa sýnt sífellt meiri hörku við að sekta að undanförnu. Það bætast bara við fleiri sektir.

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon