Björn Indriðason fæddist 27. febrúar 1957. Björn lést 23. október 2023.

Útför Björns fór fram 3. nóvember 2023.

Í þeim heimi sem við þekkjum er einungis tvennt sem er sjálfgefið, þeir sem inn í hann fæðast munu frá honum deyja. Þeir sem fara á undan skilja okkur hin eftir með minningar liðins tíma, minningarnar sem lifa með okkur svo lengi sem við lifum. Ég minnist Bjössa bróður míns sem kvaddi fyrir stuttu, allt of snemma miðað við aldur en kallið var kærkomið miðað við heilsu.

Í vöggugjöf fáum við ýmislegt sem gerir okkur að því sem við erum. Forfeður okkar leggja til erfðamengi sem er undirstaða tilvistar okkar, náttúran leggur til frávik sem tryggja fjölbreytileika kynslóðanna og umhverfið hefst strax handa við að móta okkur til framtíðar.

Þegar Bjössi var enn ungur drengur kom í ljós að náttúran hafði gefið honum heldur óhagstæð frávik, í vöggugjöf. Á unglingsaldri gripu örlögin síðan mjög harkalega í taumana. Hann var ungur, vinmargur og galsafullur drengur, sem var að átta sig á því hvað lífið væri fjölbreytt og skemmtilegt. Á einni kvöldstund var honum kippt út úr liði jafningja og hann settur á hliðarlínuna. Ég var bænheyrður þetta kvöld því Bjössi fékk að lifa, en það var hann sem upp frá þessu þurfti að greiða tollinn af miskunnseminni.

Árin eftir áfallið tókst bróðir minn á við erfiðar áskoranir sem ósanngjarnt var að leggja á ungan dreng. Það hefði verið svo auðvelt að gefast upp, láta hverjum degi nægja sína þjáningu, en það var ekki í anda Bjössa, hvorki þá né síðar á lífsleiðinni. Með áræði og eljusemi komst hann að því að þrátt fyrir allt var lífið fjölbreytt og skemmtilegt.

Bjössi bróðir var stoltur af uppruna sínum þar sem vestfirskt blóð rann til jafns við þingeyskt. Það hefur verið vestfirska þvermóðskan sem neitaði honum um að gefast upp, og þingeyska stoltið sem lét hann halda höfðinu hátt og líta ávallt fram á við.

Þegar unglingsárin voru að baki tók alvara lífsins við. Hann kynntist dásamlegri konu, þau stofnuðu ung heimili og eignuðust tvær yndislegar dætur. Hann lærði rafvirkjun, hélt í framhaldsnám til Danmerkur og útskrifaðist þaðan sem rafmagnstæknifræðingur. Eftir námið réð hann sig í krefjandi starf og tókst á við ábyrgðarhlutverk í því starfi.

Fötlunin háði honum líkamlega alla tíð og andlega held ég að hann hafi aldrei að fullu getað sætt sig við sitt hlutskipti, og hver láir honum það. Bjössi leit þó aldrei á fötlun sína sem hindrun, það geta heimsóknir á Heimaklett og Blátind staðfest, ásamt Klifinu sem var eins og jafnslétta fyrir Bjössa.

Fyrir örfáum árum fóru örlagadísir náttúrunnar að banka upp á og gerðu vart við sig í tíma og ótíma. Smátt og smátt fór að halla undan fæti og undir lokin var það ljóst að stutt væri í að Bjössi fengi að halla höfði sínu til hinstu hvíldar.

Elsku Elsa mágkona, Ella Sigga, Elva Dögg og barnabörn, ég votta ykkur mína dýpstu samúð. Ég dáist að kærleika ykkar og samstöðu á þessum erfiða tíma.

Með söknuð í hjarta og tár í augum kveð ég þig elsku bróðir. Takk fyrir allt það sem þú gafst mér í lífinu.

Einar Bragi Indriðason.

Margar minningar skjóta upp kollinum þegar horft er yfir sviðið. Fyrsta gæti fallið undir hryllingsmyndir eða heimildarefni á Netflix.

Ungur drengur liggur sofandi í foreldrahúsum og er vakinn upp þakinn innihaldi úr innibombu frá hjálparsveitum skáta. Sá sem framdi verknaðinn stendur nálægt með bros á vör og er nafn hans Björn Indriðason. Í sálfræðinni eru slíkar minningar kallaðar „leifturminningar“ og þær geymast eins og þær hefðu gerst í gær.

Þrátt fyrir að liðnir séu meira en fjórir áratugir síðan man drengurinn ungi þennan atburð í smáatriðum eins og aðrar minningar um Björn Indriðason. Kynni mín af þér eru safn „leifturminninga“ því þú varst þessi einstaki kraftur náttúrunnar sem erfitt er að gleyma. Ég fékk sögulega kennslu um tónlist fyrri tímabila þar sem þú í dáleiðslu barst saman gæði söngradda, tóntegunda eða gítarsólóa við drasl nútímans. Að tengjast yfirgripsmiklum galdraseið úr hendi kennarans gat reynt á þolinmæði ungrar sálar en gleymist eigi. Þú varst þessi kraftur sem lýtur eigin lögmálum og hafðir lítinn áhuga á yfirborðskenndum umræðum. Þú gast brotið upp spjall eins og þruma úr heiðskíru lofti með athugasemdum eða innleggi um eitthvað sem hvorki fugl né fiskur áttu samtal um.

Þú dáðist að landi þínu og fegurð íslenskrar náttúru. Við gengum oft á tindana í Vestmannaeyjum og þrátt fyrir byltur og sár á sköflungum kom þrjóskan þér alltaf á toppinn. Ást þín á fjölskyldu þinni, börnum og barnabörnum var mikil og aldrei hikaðirðu þegar kom að því að sinna þeim.

En eitt sinn skal hver maður ekki hafa möguleika á að hlusta á The Rolling Stones. Lífskraftar þínir dvínuðu með árunum og raunir þínar urðu miklar. Þrátt fyrir eldmóð þinn og þrjósku tapaðir þú því stríði að lokum. Í október 2023 hittumst við svo í síðasta sinn og var gjöf mín til þín samsafn laga úr potti Spotify. Lokaseiðurinn var með Alice Cooper, „Welcome to my nightmare“. Sá seiður hafði oft komið þér til stjarnanna og náð röddum guðanna. Titill lagsins hafði tvenna merkingu í hjarta mínu. Sú fyrri er að án sólarinnar er myrkrið allsráðandi og án heilsu eru lífsgæðin skert og þannig vildir þú ekki lifa. Síðari merkingin á rætur að rekja til uppruna „leifturminninganna“ og upphafsins þegar innibomban vakti ungan dreng með andfælum úr draumaheimum og fyrsta sýn var Björn Indriðason með sitt heillandi bros.

Ég vildi kveðja þig eins og þú vaktir mig og í hjarta mínu veit ég og trúi að við höfum báðir skilning á þeim svarta húmor sem gaf okkur ótal margar gleðistundir og ánægju á lífsleiðinni.

Elsku mágur, vinur og bróðir. Söknuðurinn er mikill og sólargeislar þínir hafa skinið í hinsta sinn. Hjartans þakkir fyrir samferðina og allt sem þú gafst mér. Hvar þú ert núna er ómögulegt að segja en líklega er þörf á þeim hæfileikum sem þú bjóst yfir einhvers staðar í ljósleiðurum alheimsins. Í ferilskrá þinni í bókhaldi alheimsaflanna mun þér væntanlega vera lýst eins og við sungum saman flutt af skeggjuðu öldungunum í ZZ-Tops: „Im a Rough Boy.“

Þinn mágur,

Gunnar Hallberg.