Sigríður Hróalds Jóhannsdóttir fæddist í Reykjavík 8. september 1967. Hún lést 20. september 2023.

Foreldrar hennar voru Rebekka Kristjánsdóttir (Bíbí) talsímavörður og fararstjóri frá Ísafirði og Jóhann Guðmundsson innheimtustjóri, fæddur í Flatey á Breiðafirði.

Hálfsystkini Sigríðar eru Páll Guðjónsson, giftur Ingibjörgu Flygenring og eiga þau tvö börn; Fanný Guðjónsdóttir, gift Þorsteini Höskuldssyni og eiga þau þrjú börn; Herjólfur Guðjónsson, á tvö börn, giftur Önnu Fenger. Albróðir Sigríðar er Jón Jóhannsson, giftur Ástu Þóru Valdimarsdóttur og eiga þau tvö börn.

Sigríður giftist Björgvini Ragnarsyni, börn þeirra eru: 1) Þórunn Katrín, í sambúð með Ægi Birni Gunnsteinssyni, Þórunn á tvö börn frá fyrra sambandi, þá Björgvin Skúla Hauksson og Baltasar Erni Hauksson. 2) Karen Mjöll, í sambúð með Hektori Má Jóhannssyni og eiga þau einn son, Manúel Nóa, Karen á dóttur frá fyrra sambandi, Veigu Katrínu Ólafsdóttur. 3) Jóhann Ari.

Sigríður var í sambúð með Þórarni Þórarinssyni og eiga þau einn son, Þórarin.

Sigríður verður jarðsungin frá Grafarvogskirkju í dag, 17. nóvember 2023, klukkan 13.

Það var mikill gleðidagur hjá mér þann 8. september 1967 þegar elsku Sigga systir mín fæddist en ég hafði lengi óskað þess að eignast systur. Það voru 15 ár á milli okkar en við áttum margar góðar stundir saman, sérstaklega sumarið sem hún dvaldi hjá okkur góðan part úr sumri þar sem við bjuggum í Noregi í tvö ár.

Það er svo erfitt að setja minningar á blað en ég mun geyma þær vel í hjarta mínu.

Elsku Sigga systir mín kvaddi þennan heim langt fyrir aldur fram.

Ég kveð elsku systur mína með bæninni sem amma Katrin kenndi okkur.

Nú legg ég augun aftur,

ó, Guð, þinn náðarkraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virst mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Sveinbjörn Egilsson)

Elsku mamma, Þórunn Katrin, Karen Mjöll, Jóhann Ari, Þórarinn og fjölskylda, Guð gefi ykkur styrk á þessum erfiða tíma.

Hvíl í friði, elsku systir mín.

Þín stóra systir,

Fanný.

Þá er hún Sigga litla æskuvinkona mín dáin. Það er einkennilegt að fylgja einhverjum sem maður hefur þekkt svo vel og verið mjög náinn á ákveðnum tímapunkti í lífinu. Það rifjast upp allar stundirnar sem við áttum með stelpunum í Álftó. Með Baddý, Stínu, Halldóru, Rögnu, Ragnheiði og Stefaníu og Kötu og Guddu og já fleiri vöskum stúlkum að ógleymdum Kidda KR og Samma okkar. Nú eruð þið bæði gengin á vit feðranna eftir á köflum erfitt líf og baráttu.

Allar ferðirnar okkar niður í bæ á föstudagseftirmiðdegi. Í Póst og síma til pabba þíns og hann splæsti oftar en ekki peningum á þig og þá var farið lóðbeint í Karnabæ og þú keyptir einhverja flík. Hver man ekki eftir vangapartíinu ódauðlega í Safamýrinni. Eða hljómsveitinni Vespré sem flutti hið epíska Lára hefur vakað í 1000 ár sem þú söngst óaðfinnanlega á árshátíð Álftó. Ef maður kann ekki neina dönsku, hvað verður um mann þá?

Unglingsárin í Háaleitishverfinu voru áhyggjulaus og skemmtileg. Komum við í Hárprýði á leið í fermingarfræðsluna og keyptum gloss með jarðarberjabragði. Rölt upp og niður Ástarbrautina og ég samdi einhverja vitleysuna. Klúbbakvöldin í Tónabæ með Halli og Ragnhildi. Bleiku legghlífarnar og Baddý að spila Tainted Love tíu sinnum.

Sumrin á Mallorca þar sem við gúffuðum í okkur Kinder-egg og lásum Sannar sögur og hlógum endalaust að Tony með loðna bakið og myndarlega þjóhnappa.

Tony í götunni okkar með alla sína vini sem við gáfum öllum einhver uppnefni. Það var ekki leiðinlegt að vera miðpunktur athygli tíu drengja á okkar aldri. Þú varst skotin í Tony og ég í Carlos sem var í heimsókn frá Barcelona. Við stálumst á diskótekið Chic og enginn gerði athugasemd við að kornungar stúlkur væru að þvælast þarna og drekka kampavín. Þegar Steini kom að passa okkur og eldaði kjúklinginn og við fengum öll matareitrun. Ógleymanlegir tímar.

Allar ógleymanlegu stundirnar á Grettisgötunni og rúntarnir í rauða sportbílnum hlustandi á Solid og aðrar ballöður áttunnar. Mallorca-ferðin með Kjartani og Björgvini. Við öll svo ástfangin og drukkum bláa drykki og ég eyddi heilum eftirmiðdegi í að plokka úr þér hárlengingar.

Ég flutti svo erlendis í mörg ár og sambandið minnkaði. En ég hringdi samt í þig, ekki lækninn eiginmanninn, þegar ég var ófrísk að Sverri og fannst eins og égg hefði pissað á mig. Þú sagðir: Dísa, þú varst að missa vatnið. Farðu á spítalann. Þegar ég flutti heim varð meira samband og eitt kvöldið borðuðum við saman og fórum í bæinn og þú hittir Þórarin. Ég gleymi aldrei sms-inu sem ég fékk frá þér á afmælisdaginn minn. Til hamingju með daginn, ég eignaðist son í tilefni hans.

Þú varst einstaklega ljúf, góðhjörtuð og fyndin. Þú háðir erfiða baráttu á tímabilum í lífinu og nú hefurðu tapað henni. Ég er fullviss um að amma þín og pabbi hafa tekið vel á móti þér og þið eruð að brasa eitthvað saman. Hvíldu í friði, Sigga mín. Þín er sárt saknað og félagar okkar úr Álftó minnast þín allir svo fallega. Sigga litla lifir í hjörtum okkar.

Blessuð sé minning þín, elsku Sigga mín.

Þín

Arndís (Dísa).