Fúsi, aldur og fyrri störf Halldóra, Fúsi, Vala Kristín og Agnar í hlutverkum sínum. Egill Andrason á hljómborði.
Fúsi, aldur og fyrri störf Halldóra, Fúsi, Vala Kristín og Agnar í hlutverkum sínum. Egill Andrason á hljómborði. — Ljósmynd/Leifur Wilberg Orrason
„Við Fúsi höfum báðir verið sviðslistamenn lengi og ég hef áður unnið sýningu á vegum Listar án landamæra, með fötluðu og ófötluðu fólki saman, þar sem markmiðið er að eyða muninum, að fólk sé fyrst og fremst að koma til að horfa á sögu og þá…

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

„Við Fúsi höfum báðir verið sviðslistamenn lengi og ég hef áður unnið sýningu á vegum Listar án landamæra, með fötluðu og ófötluðu fólki saman, þar sem markmiðið er að eyða muninum, að fólk sé fyrst og fremst að koma til að horfa á sögu og þá skipti ekki máli hver segi hana,“ segir Agnar Jón Egilsson, leikstjóri sviðslistaverks sem frumsýnt verður í Borgarleikhúsinu í kvöld og heitir Fúsi, aldur og fyrri störf. Sýningin er heimildarleikhús um Sigfús Sveinbjörn Svanbergsson, eða Fúsa, sem er fatlaður, en sýningin er partur af tuttugu ára afmæli Listar án landamæra. Miðja sýningarinnar er samtal Agnars og Fúsa þar sem þeir fara yfir lífsferil Fúsa.

„Allt á þetta upphaf sitt í því að ég spurði Fúsa hvað við ættum að gera til að vera meira saman, og hann sagði: „Búum til leikrit. Um mig.“ Þetta átti að verða lítil sýning en svo kom covid og við gátum ekki sýnt, en næstu þrjú ár töluðum við saman um líf Fúsa. Við komumst að ýmsu hvor um annan sem við ekki vissum og við gerðum heimildavinnu, töluðum við fólk og spurðumst fyrir,“ segir Agnar og bætir við að það sem sé sérstakt við sýninguna sé að frá því að hugmyndin kviknaði hjá Fúsa og fram að lokum vinnslu verksins, þá sé fatlaður einstaklingur í fararbroddi.

„Engin „krúttun“ hefur átt sér stað við vinnslu eða nálgun og við Fúsi erum samstarfsmenn alla leið, við erum samhöfundar og jafningjar í þessu. Sýningin er ekki um fötlun, það er rosalega mikilvægur partur af inngildingu verkefnisins að fólk mun koma og horfa á sögu Fúsa sem manneskju á þessari sýningu. Við mannfólkið þurfum öll að takast á við mismunandi ögranir í lífinu og í hans tilfelli tengist það fötlun en í mínu tilfelli tengist það einhverju allt öðru,“ segir Agnar og Fúsi bætir við að þeir séu frændur, systkinabörn.

„Agnar er níu árum yngri en ég, en þegar ég fæddist bjó ég fyrstu árin í Meðalholti með mömmu og þar bjuggu líka foreldrar Agnars og amma okkar og afi. Við vorum báðir mikið hjá ömmu Laufeyju, sem var aðalmanneskjan í lífi okkar. Hún hét Laufey Ólafsdóttir og var fædd 1901. Þegar ég var níu ára flutti mamma til Bandaríkjanna með nýjum manni og hún tók Gunnhildi systur mína með, en ekki mig,“ segir Fúsi og Agnar bætir við að þeir lesi á milli línanna úr fortíðinni að kannski hafi verið ætlunin að búa til gott líf fyrir Fúsa og nýju fjölskylduna í Bandaríkjunum, en ekki fundist grundvöllur til þess.

„Fúsi flutti á Sólheima þegar mamma hans flutti til Bandaríkjanna og þar bjó hann í sjö ár, en við komum í sýningunni meðal annars inn á þann erfiða tíma í lífi Fúsi þegar honum var skutlað þangað og hann vissi ekki hvenær hann yrði sóttur,“ segir Agnar og bætir við að minningar séu ekki endilega sannleikur heldur útgáfa af sannleikanum. „Fúsi hefur gengið í gegnum ýmislegt og sumt af því hefur ekki verið auðvelt, en hann býr yfir mörgum styrkleikum. Hann er jákvæður og hamingjusamur maður sem verður sextugur á næsta ári, býr með Evu kærustunni sinni sem hann er hringtrúlofaður,“ segir Agnar og Fúsi er fljótur að bæta við: „Ég er mikill íþróttamaður, ég er göngugarpur og ég tek alltaf þátt í Reykjavíkurmaraþoni og hleyp til að safna fyrir Styrktarfélagið Ás.“

Við grípum hvert annað

Í sýningunni eru þeir frændur ýmist þeir sjálfir eða að leika sjálfa sig, en þeir fá hjálp frá tveimur leikkonum, Halldóru Geirharðsdóttur og Völu Kristínu Eiríksdóttur, sem leika með þeim valin atriði úr lífi Fúsa.

„Ég er mikill áhugamaður um leikhúsform og sama á við um Dóru og Völu Kristínu. Við enduðum í útgáfu af spunaformi sem heitir draumaspuni, en við erum búin að sveigja það form til svo henti okkur og sýningunni fullkomlega. Þar sem fólk er kannski ekki vant því að sjá heimildarsýningar, þá lögðum við mikið í að finna hvaða rammi lætur þessa sögu skína. Fyrst settum við niður leiktexta á blað, en þá hætti þetta að vera lífrænt og við fórum því yfir í viðtalsformið, sem lifnar svo við í leik Dóru og Völu Kristínar. Svona sýning snýst líka um traust, ef Fúsi man ekki hvert við erum að fara á sviðinu, þá er eins gott að ég muni það, og öfugt. Ég spyr hann bara: „Hvað er næst?“ og það sama á við um Dóru og Völu Kristínu. Við grípum öll hvert annað,“ segir Agnar og bætir við að upphaflega hafi hann átt að vera ósýnilegur, af því að Fúsi skín fyrst og fremst á sviðinu. „Ég þurfti að vera á sviðinu þar sem ég er partur af sögu Fúsa, og ein persóna sýningarinnar er í raun vinátta okkar frændanna.“

Fúsa finnst skemmtilegt að Dóra og Vala Kristín séu með í sýningunni, þær séu svo fyndnar. „Við Halldóra þekkjumst vel, alltaf þegar ég hitti hana í Borgarleikhúsinu eftir Perluæfingar þá spjöllum við saman, og oftast um Djöflaeyjuna, uppáhaldskvikmyndina mína, sem hún leikur í. Baddi í myndinni þarf að hringja collect símtal í mömmu sína til Ameríku, alveg eins og ég gerði. Við hittumst öll um daginn og horfðum saman á Djöflaeyjuna.“

Konur stólpar í lífi Fúsa

Á svið sýningarinnar er varpað stórum myndum af fólki úr fjölskyldu Fúsa, þeim sem stóðu og standa honum næst.

„Þetta er í raun saga fimm kvenna sem hafa verið stólpar í lífi Fúsa, mömmurnar hans tvær, annars vegar sú sem fæddi hann, Hólmfríður mamma í Ameríku, og hins vegar stjúpmóðir hans, kona pabba hans, hún Sísí, eða Sigurbjörg Kristjánsdóttir, sem hefur verið klettur í lífi Fúsa, sérstaklega eftir að hann varð ungur fullorðinn maður. Svo er það amma Laufey, Eva kærasta hans og Sigga Eyþórs, sem hafði umsjón með starfsemi leikhópsins Perlunnar, vettvangs fyrir fatlaða listamenn,“ segir Agnar og Fúsi bætir við að Sigga hafi verið honum sem móðir. „Ég er einn af stofnfélögum Perlunnar og hef verið með frá byrjun, í fjörutíu ár. Ég fékk viðurkenningu frá forseta Íslands fyrir vel unnin störf hjá Perlunni um daginn,“ segir Fúsi og Agnar bætir við að Fúsi sé ekkert venjulegur maður. „Hann hefur leikið út um allan heim með Perlunni, m.a. í Hvíta húsinu fyrir varaforseta Bandaríkjanna, George W. Bush, sem seinna varð forseti.“

Lifandi söngur og leikinn af bandi er hluti af sýningunni og Egill Andrason sér um að leika á hljómborð. „Við syngjum lög eftir Vilhjálm Vilhjálmsson og Elly systur hans, en ég held mikið upp á þau bæði og ég segi sögur af því hvernig þau tengjast lífi mínu. Elly var vinkona mömmu minnar þegar þær voru ungar konur og ég lítill drengur,“ segir Fúsi.