Vísvitandi vanmat á að nota til að þvinga áfram borgarlínu á kostnað gatna

Í Dagmálum Morgunblaðsins var í fyrradag áhugavert viðtal við bæjarstjóra Garðabæjar þar sem rædd voru fjármál sveitarfélagsins í tengslum við nýkynntar og óvæntar skattahækkanir og svo framkvæmdir sem þetta bæjarfélag líkt og önnur, í samvinnu við ríkið, vinnur að á sviði samgöngumála.

Skattahækkanirnar eru auðvitað verulegt áhyggjuefni og mikil vonbrigði og verður vonandi snúið við þegar kemur að næstu fjárhagsáætlun, enda hlýtur Garðabær að geta áfram verið til fyrirmyndar þegar kemur að álögum á íbúana.

Annað sem var ekki síður áhugavert í þessu viðtali voru umræður um samgöngumál og sérstaklega samgöngusáttmála höfuðborgarvæðisins og áætlanir sem brugðist hafa í tengslum við hann. Bæjarstjórinn sagði að það þyrfti blandaða leið til að leysa samgönguvanda svæðisins, þ.e. að huga bæði að einkabílnum og almenningssamgöngum í þeim efnum. Það er varla mjög umdeilt enda hafa almenningssamgöngur verið hluti af samgöngum þessa svæðis svo lengi sem elstu menn muna og enginn lagt annað til.

Það er hins vegar svo að nú hefur í meira en áratug verið lögð ofuráhersla á almenningssamgöngur með því að taka um milljarð á ári, sem hefði átt að fara í stofnvegaframkvæmdir, og setja í staðinn í Strætó. Árangurinn af þessu hefur ekki verið neinn. Jafnvel þó að götur fyrir einkabílinn hafi frekar verið þrengdar en rýmkaðar á sama tíma og Strætó hefur fengið viðbótarfé, ferðast sama hlutfall með Strætó og áður og áfram er einkabíllinn sá ferðamáti sem langflestir velja.

Það þarf þess vegna ekki að koma á óvart að bæjarstjórinn hafi viðurkennt að það kunni að vera að farið hafi verið offari í þessum efnum í þágu almenningssamgangnanna á kostnað einkabílsins.

Þá kom fram að þó að búið sé að vinna af miklum móð í undirbúningi borgarlínunnar í að minnsta kosti þau fjögur ár frá því að samgöngusáttmálinn var gerður, þá liggur ekki enn fyrir hvað ætlast er til að sveitarfélögin á svæðinu taki á sig vegna rekstrarins, en eins og vitað er þá hafa áætlanir um stofnkostnað vaxið gríðarlega á sama tíma og fullkomin óvissa ríkir um rekstur borgarlínunnar.

Bæjarstjórinn viðurkenndi að mikil óvissa væri í þessum efnum og að hann hefði áhyggjur af að áætlanir um hversu margir muni nýta borgarlínuna væru of bjartsýnar. Það er fjarri því ofmælt en því miður er áhyggjuefni hve veikt sveitarstjórnarmenn á svæðinu hafa almennt talað um þessi yfirvofandi útgjöld sveitarfélaganna og þar með þær skattahækkanir sem þeim munu fylgja.

Bæjarstjórinn sagði samtöl í gangi við ríkið um endurmat á samgöngusáttmálanum og að þar hefði stundum komið upp ágreiningur þó að það hefði ekki komið fram opinberlega. En er ekki kominn tími til að draga þennan ágreining fram? Hver er það, fyrir utan vinstri meirihlutann í Reykjavík, sem þrýstir á um það að anað verði áfram borgarlínuleiðina þrátt fyrir gegndarlausar hækkanir áætlana og óvissu um rekstrarkostnað, sem þó er vitað að verður mun meiri en af Strætó?

Loks var umræða í Dagmálaviðtalinu um áætlanir hins opinbera í tengslum við samgöngusáttmálann sérstaklega athyglisverð og lærdómsrík fyrir skattgreiðendur. Bæjarstjórinn nefndi að í upphaflegum áætlunum hefði verið óvissa en að sú staðreynd hefði ef til vill ekki komist nægilega vel til skila. En hann viðurkenndi líka að við slíkar áætlanir væri „freistnivandi í því að koma verkefnum í gegnum nálaraugun“.

Þá bætti hann því við um samgöngumálin að það væri „alveg klárt að aðilar hafa leikið það í gegnum tíðina að koma verkefnum á blað og það er kannski vitað að það er ekkert sérstaklega fast land undir fótum hvað varðar fjárhagsáætlun. Svo þegar verkefnið er komið af stað þá stækkar það og auðvitað þurfa skattgreiðendur að borga það, það er þannig á endanum.“

Ekki þarf að efast um að bæjarstjórinn hefur rétt fyrir sér í þessum efnum, í það minnsta hvað varðar samgöngusáttmálann og þau verkefni sem honum tengjast. Augljóst er orðið að þar var leikinn sá ljóti leikur að vanmeta stofnkostnað og halda rekstrarkostnaði í óvissu til að hægt yrði að hleypa verkefninu af stokkunum.

Og nú þegar það er komið af stað á að nudda því áfram og enginn virðist þora að taka af skarið og henda óraunsæju hugmyndunum út en halda í hinar og bæta jafnvel í þar sem þörfin er brýnust, sem er uppbygging stofnvega og rýmkun gatnakerfisins.