„Mér fannst við byrja leikinn ágætlega en þessi leikur okkar var í raun uppskriftin að okkar leik í þessum riðli,“ sagði landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson í samtali við Stöð 2 Sport í Bratislava í Slóvakíu eftir leikinn í gær

„Mér fannst við byrja leikinn ágætlega en þessi leikur okkar var í raun uppskriftin að okkar leik í þessum riðli,“ sagði landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson í samtali við Stöð 2 Sport í Bratislava í Slóvakíu eftir leikinn í gær.

„Við eigum ágætis kafla en okkur skortir stöðugleika. Þessi riðill var algjört dauðafæri fyrir okkur til þess að komast á EM og við ætluðum okkur klárlega meira en þetta. Staðreyndin er hins vegar sú að við vorum ekki betri en þetta og svo einfalt er það bara.

Það er mikið búið að tala um það að við þurfum að bæta þetta og hitt og laga okkar leik en það er okkar núna að sýna það í verki,“ sagði Aron Einar.

„Það er eðlilegt að falla til baka þegar þú ert 1:0 yfir á erfiðum útivelli en við fundum aldrei réttu augnablikin til þess að fara í pressuna. Við vorum einu skrefi á eftir allan leikinn og það er ekki í boði á þessu stigi. Ef við komumst í umspilið þurfum við að gera miklu miklu betur þar ef við ætlum okkur á EM,“ sagði Jóhann Berg Guðmundsson.

„Við áttum í erfiðleikum með pressuna þeirra. Þeir voru mjög grimmir í sinni pressu og okkur gekk illa að spila boltanum úr öftustu víglínu. Við þurfum að gera miklu betur í uppspilinu í næsta leik. Menn voru svekktir með frammistöðuna eftir leik inni í klefa,“ sagði Orri Steinn Óskarsson.

 Nánar er rætt við þremenningana á mbl.is/sport/efstadeild.