Hólmar Hólm
Hólmar Hólm
Menning okkar, saga og sjálfsvitund er óneitanlega samofin málinu okkar.

Hólmar Hólm

Á síðasta ári samþykkti safnasamfélagið á heimsvísu nýja safnaskilgreiningu á 26. allsherjarþingi ICOM, Alþjóðaráðs safna, en um skilgreininguna var kosið á þremur starfstungumálum ICOM: ensku, frönsku og spænsku. Í kjölfar samþykktarinnar tókst stjórn Íslandsdeildar ICOM svo, líkt og aðrar landsdeildir Alþjóðaráðsins, á við það verkefni að þýða skilgreininguna fyrir okkar málsamfélag og leiddi það ferli til lykta innan þriggja mánaða, að höfðu víðtæku samráði við vettvang safnafólks og sérfræðinga, auk þýðenda og málfræðinga. Þá kynnti stjórn félagsins íslenska þýðingu skilgreiningarinnar og skilaði henni í framhaldinu inn til Alþjóðaráðsins en Íslandsdeildin er ein af 29 landsdeildum Alþjóðaráðsins sem skilað hafa inn þýðingum sínum á skilgreiningunni. Landsdeildir Alþjóðaráðsins eru þó að svo stöddu alls 125 talsins og eina Norðurlandadeildin sem skilaði inn þýðingu, fyrir utan Ísland, var landsdeild ICOM í Danmörku. Stjórn Íslandsdeildar ICOM lagði þannig áherslu á að íslensk þýðing skilgreiningarinnar yrði gefin út á skikkanlegum tíma og hún mætti verða tæki fyrir íslenskan safnaheim til þess að horfa inn á við og hugleiða hver staða íslenskra safna sé í hinu stóra samhengi.

Nú má auðvitað velta fyrir sér hvaða þýðingu eða tilgang slík skilgreining hafi fyrir söfn heimsins en í henni er meðal annars komið inn á hlutverk safna og skyldur. Í nýrri skilgreiningu er einnig minnst á að söfn skuli stuðla að fjölbreytileika og sjálfbærni, auk þess sem þau skuli vera inngildandi og öllum aðgengileg.

Einn liður í þessu starfi snýst vissulega um notkun tungumálsins, þar sem mikilvægt er að tryggja grundvöll íslenskunnar á sama tíma og mörg söfn – sem og aðrar menningarstofnanir – leita leiða til þess að ná til hópa gesta sem ekki tala íslensku, jafnt ferðamanna sem þeirra sem hér hafa sest að. Þetta sýnir sig best í því að miðlun á flestum söfnum landsins fer fram á tveimur málum, þar sem flestir textar eru þýddir yfir á ensku og birtir til hliðar við íslenskuna.

Að jafnaði er verklag íslenskra safna til fyrirmyndar hvað þetta varðar og þess gætt að íslensk tunga sé hvarvetna höfð í öndvegi. Þó kemur það fyrir að enskir titlar sýninga eða verka séu ekki þýddir og er það miður, með tilliti til menningarlegrar og samfélagslegrar ábyrgðar safna. Því eitt helsta hlutverk safna er að tryggja aðgang allra sem þetta land byggja að sameiginlegum menningar- og náttúruarfi okkar, áþreifanlegum sem óáþreifanlegum. Þá er ekki sjálfsagt að allir kunni ensku, hvorki innfæddir né aðfluttir, enda þótt oft megi greina það viðhorf meðal fólks. Þess vegna vil ég nýta þetta tækifæri til þess að hrósa íslenskum söfnum fyrir gott starf í þessum efnum á sama tíma og ég minni á mikilvægi þess að hlúa að íslenskunni.

Enda eru áhrif ensku alltumlykjandi í samfélagi nútímans og hinum stafræna heimi og ástæða er til þess að vera ætíð á varðbergi gagnvart þeirri útbreiddu tilhneigingu að láta enskuna standa eina og sér, líkt og hún sé mál allra. Er það ekki síður spurning um inngildingu og aðgengi en önnur atriði er varða miðlun safna – því menning okkar, saga og sjálfsvitund er óneitanlega samofin málinu okkar.

Höfundur er formaður Íslandsdeildar ICOM, Alþjóðaráðs safna.