Óttarr Arnar Halldórsson fæddist á Akureyri 7. nóvember 1940. Hann lést í faðmi eiginkonu sinnar á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 31. október 2023.

Foreldrar hans voru Ísafold Teitsdóttir hjúkrunarfræðingur, f. 17. janúar 1907, d. 29. desember 1997, og Halldór Jónsson stórkaupmaður, f. 16. janúar 1916, d. 23. febrúar 1977.

Eiginkona Óttars er Ingrid Halldórsson, útstillingahönnuður og snyrtifræðingur, f. 6. júní 1943. Foreldrar hennar voru Karl Springer módelsmiður, f. 6. nóvember 1904, d. 7. mars 1979 og Else Springer húsfreyja, f. 28. febrúar 1909, d. 17. mars 2001. Óttarr og Ingrid giftust 6. júní 1964 í heimabæ Ingridar, Schwäbisch Gmünd í Þýskalandi.

Dætur Óttars og Ingridar eru:

1) Esther Angelica, flugfreyja hjá Icelandair, f. 25. október 1965. Eiginmaður Estherar er Ólafur Bergmann Svavarsson, véla- og iðnrekstrarfræðingur, f. 1957. Sonur þeirra er Óttarr Bergmann, f. 2004. Dóttir Estherar og stjúpdóttir Ólafs er Alexandra Ingrid, f. 1993. Faðir hennar og fyrrverandi eiginmaður Estherar er Hafliði Bárður Harðarson, f. 1963. Maki Alexöndru er Leifur Arason, f. 1993. Synir þeirra eru Arnaldur Ari, f. 2020 og Hafliði Henry, f. 2022. Dóttir Ólafs af fyrra hjónabandi og stjúpdóttir Estherar, er Lúcía Sigrún, f. 1986. Eiginmaður hennar er Bram Van der Stocken, f. 1982. Börn þeirra eru Óliver Aldar, f. 2012, Harpa Nótt, f. 2017 og Saga Lóa, f. 2019.

2) Íris Kristína, viðskiptafræðingur, f. 4. júlí 1971. Synir Írisar eru Þorsteinn Arnar f. 2005 og Matthías Dagur f. 2008. Faðir þeirra og fyrrverandi eiginmaður Írisar er Þorsteinn Kristmannsson f. 1963. Synir Þorsteins af fyrra hjónabandi og stjúpsynir Írisar eru Haukur f. 1997 og Kristmann f. 1999.

Óttarr fluttist ungur suður og ólst upp í vesturbæ Reykjavíkur þar sem hann gekk í Melaskóla og Gaggó Vest. Hann lauk verslunarprófi frá Verzlunarskóla Íslands árið 1958. Þá hélt hann í nám til London og útskrifaðist úr The London School of Foreign Trade árið 1960.

Óttarr var umsvifamikill í viðskiptum og fasteignum, ásamt því að sitja í hinum ýmsu stjórnum í gegnum árin. Árið 1976 stofnaði hann heildverslunina Ísflex ehf. sem hann rak í yfir 40 ár. Áður starfaði hann hjá Almennum tryggingum og í heildverslun föður síns, Halldóri Jónssyni ehf.

Áhugamál Óttars voru ferðalög bæði innanlands og erlendis, siglingar, jöklaferðir og skíði. Hann var mikill bílaáhugamaður, tefldi mikið og hafði unun af því að hlusta á djass og dixieland-tónlist. Á yngri árum æfði hann júdó og sat í stjórn Júdódeildar Ármanns um árabil. Óttarr var félagi í Frímúrarareglunni í 49 ár í stúkunni Eddu.

Útför Óttars fer fram frá Háteigskirkju í dag, 17. nóvember 2023, klukkan 15.

Elsku hjartans pabbi okkar.

Orð geta ekki lýst hversu sárt við söknum þín. Við sitjum hér saman og allar fallegu minningarnar um þig streyma upp í huga okkar. Þú varst kletturinn í lífi okkar og við gátum alltaf treyst á þig. Þú varst okkar fyrirmynd í lífinu á svo marga vegu og kenndir okkur svo ótalmargt. Við gátum alltaf leitað til þín hvort sem okkur vantaði ráð eða stuðning, þá hlustaðir þú á okkur með þinni yfirveguðu ró og kærleik. Þú varst svo úrræðagóður og fannst alltaf góða lausn á öllum málum. Þú hvattir okkur og studdir til að elta drauma okkar og fyrir það erum við þér óendanlega þakklátar. Þú kenndir okkur að grípa tækifærin þegar þau gefast, það var þitt mottó í lífinu. Þú varst viljasterkur, drífandi, úrræðagóður og hörkuduglegur. Þekkingarbrunnur þinn var óþrjótandi. Þú varst svo vel lesinn og fróður um alla hluti og varst óspar á að miðla af visku þinni til okkar og barnabarnanna. Heilræði þín munu lifa í hjörtum okkar. Þú varst andlega þenkjandi og mikill hugsuður. Þú varst einnig einstaklega orðheppinn og með góðan húmor. Viljastyrkur þinn, elja, kraftur og útsjónarsemi var aðdáunarverð. Það gat ekkert haggað þér þegar þú varst búinn að taka ákvörðun. Þú varst farsæll í viðskiptum og getur verið stoltur af ævistarfi þínu. Þú þurftir snemma að bjarga þér sjálfur og standa á eigin fótum og átti það án efa stóran þátt í að móta sterkan persónuleika þinn.

Þið mamma áttuð gott og hamingjusamt líf og stóðuð saman í gegnum súrt og sætt. Þið voruð ólík að eðlisfari en það var aðdáunarvert að sjá hversu vel þið náðuð að draga fram það besta í persónuleika hvort annars. Þið genguð samstiga í gegnum lífið og þú settir mömmu alltaf í fyrsta sæti, hún var sólargeislinn þinn. Þú hugsaðir svo vel um litlu fjölskylduna þína og vildir allt fyrir okkur gera.

Við erum svo innilega þakklátar fyrir allar dásamlegu stundirnar sem við áttum saman síðasta sumarið sem þú lifðir. Þegar þú varst lagður inn á líknardeildina í vor var þér vart hugað líf, en þú reist upp í orðsins fyllstu merkingu og gafst okkur þessa dýrmætu mánuði sem við fengum að njóta með þér og mömmu. Sumarið var sólríkt og bjart og við minnumst sérstaklega með miklum hlýhug þeirra dýrmætu stunda þegar við sátum með þér og mömmu á veröndinni við fallega húsið ykkar í Skeljatanganum. Þar leið þér best og þú naust samverunnar.

Elsku pabbi, við kveðjum þig með miklum söknuði og ást. Við höfum nú eignast nýjan verndarengil á himnum og vitum að þú munt halda áfram að fylgjast með okkur og vísa okkur veginn alla tíð. Takk fyrir allt sem þú gerðir fyrir okkur. Takk fyrir kærleikann, ástina og hlýjuna. Hvíl í friði, elsku pabbi. Við elskum þig.

Þínar dætur,

Esther og Íris.

Tengdafaðir minn kvaddi okkur 31. október, eftir stutt veikindi. Í febrúar síðastliðnum greindist hann með 4. stigs krabbamein, í framhaldinu fór hann í geislameðferð og aðgerð, en lyfjagjöf kom ekki til greina. Lá hann á Landspítalanum í nokkrar vikur og var tvísýnt um hann um tíma. Þetta var reiðarslag fyrir okkur í fjölskyldunni. Óttarr hafði alltaf verið hraustur, stundaði líkamsrækt reglulega, sund, göngur, skíði o.fl. Í apríl fór hann á líknardeildina í Kópavogi, eftir að yfirlæknirinn á deildinni hafði sannfært hann um að þar væri gott að vera og færi miklu betur um hann en á spítalanum. Ég heimsótti hann hann daginn eftir og hvað honum leið vel, mjög sáttur, starfsfólkið yndislegt og maturinn ágætur. Svona eftir á að hyggja, þá varð ákveðinn vendipunktur á líknardeildinni. Í staðinn fyrir að búa okkur undir að kveðja hann varð „nýtt upphaf“ eins og ég vil kalla það. Hann fylltist bjartsýni og stefndi á að komast heim, sem hann svo gerði. Fyrst í heimsókn, síðan endanlega í maí. Hann efldist með hverjum deginum. Með heimahjúkrun og hjálp frá sinni góðu konu, Ingrid, var þetta gerlegt. Að sjá þau tvö saman var alveg yndislegt. Ástin hvors til annars og væntumþykjan endurspeglaðist þarna fyrir framan mig. Hún svo natin og hann svo þakklátur, engin orð sögð, þess þurfti ekki. Fyrir mér var þetta hin eina sanna ást. Eftir heimkomuna notaðist Óttarr við göngugrind og æfði sig reglulega og alltaf meira í dag en í gær. Hann sýndi ótrúlegar framfarir. 15 júní síðastliðinn fórum við hjónin með Óttari og Ingrid til Þingvalla, alveg ógleymanleg ferð. Þar sýndi Óttarr hversu magnaður hann var. Sex vikum áður lá hann á líknardeildinni og gat varla hreyft sig. Óttarr sýndi okkur hinum hvað hægt er að gera með miklum viljastyrk og gefast aldrei upp. Seinnipartinn í sumar var hann nánast hættur að nota göngugrindina og við gleymdum hversu alvarlegan sjúkdóm hann var með. Við fjölskyldan erum ákaflega þakklát almættinu fyrir þennan „aukatíma“ sem við fengum með honum. Við nýttum þennan tíma vel, vorum mikið saman og í góðu sambandi. Guð blessi minningu Óttars Halldórssonar.

Ólafur Bergmann.

Ég kveð þig með miklum söknuði, elsku besti Opale minn og nafni Óttarr. Þú varst mér svo kær og miklu meira en bara afi eða Opale eins og við barnabörnin kölluðum þig, sem þýðir afi á þýsku. Þú varst í algjöru uppáhaldi hjá mér, minn besti vinur og mín helsta fyrirmynd.

Mér leið alltaf vel þegar ég heimsótti Omale og Opale í fallega húsið þeirra í Skeljatanga, þau sýndu mér svo mikla hlýju og væntumþykju. Oft hjálpaði ég Opale með hin ýmsu verk sem hann átti orðið erfitt með í seinni tíð. Hvort sem það var að þvo bílana, moka snjóinn á veturna, slá grasið á sumrin, mála nýja garðhúsið og girðinguna eða þrífa laufin úr þakrennunni. Það var alltaf jafn gaman og gefandi að hjálpa þeim og nú þegar Opale er fallinn frá, mun ég halda áfram að hjálpa elsku Omale. Ég á margar góðar minningar um Opale minn. Áhugi okkar á bílum, viðskiptum og þýsku skapaði sérstök tengsl á milli okkar. Og ekki má gleyma ströndinni í Sarasota í Florida sem var í algjöru uppáhaldi hjá okkur báðum. Hann hafði mikinn áhuga á að mér gengi vel í skólanum og hvatti mig til að halda áfram að vera duglegur að bæta mig í þýskunni. Hann sagði að þýskan væri gott veganesti út í lífið og mundi opna margar dyr og tækifæri í framtíðinni. Eins og gerðist hjá honum þegar hann var ungur og náði í Wella-umboðið í Þýskalandi. Hann Opale var mikill bílaáhugamaður og hefur átt marga flotta bíla um ævina. Hann vissi allt um nýjustu bílana, kosti þeirra og galla enda las hann þýsku bílablöðin af miklum áhuga. Við gátum endalaust talað um bíla og mér er minnisstætt þegar við skoðuðum BMW 630I Cabrio. Honum fannst hann flottur en var ekki hrifinn af SMG-skiptingunni. Síðasti draumabílinn hans var Audi TT. Ég hafði gaman af að hlusta á hann rifja upp ævintýralegar ferðir sínar upp á Vatnajökul á upphækkaða Toyota Land Cruiser ´80 jeppanum sínum. Hvernig þeir festust uppi á jökli og náðu að losa bílinn eftir mikið basl. Ég vildi óska að ég hefði haft tækifæri til að fara með honum í þessar mögnuðu jöklaferðir. Ég man enn eftir spennunni að fá að sitja í stóra Land Cruisernum hans, sem var eins og risatrukkur í mínum augum, fimm ára gamall á leið upp í Bláfjöll, og hvað mér fannst stóra talstöðin hans merkileg. Ég er þakklátur fyrir allar góðu og dýrmætu stundirnar með Opale og allt sem hann gerði fyrir mig og kenndi mér. Hann var algjört hörkutól í viðskiptum, oft mjög kaldur og þorði að taka áhættu. Hann gaf mér mörg góð ráð, sagði að það væri mikilvægt að mennta sig og nýta tækifærin vel. Mér fannst gott að tala við hann, því hann var rólegur og yfirvegaður og gaf sér alltaf góðan tíma. Hann var mér svo kær og ég lærði svo margt og mikið af honum.

Takk fyrir allt elsku Opale, ég á eftir að sakna þín mikið.

Þú ert og verður alltaf besti Opale minn og ég mun alltaf bera nafn okkar með stolti. Ég elska þig. Þinn nafni,

Óttarr.

Það var árið 1976 sem við Óttarr kynntumst. Hann að æfa og starfa í Júdódeild Ármanns en ég í skíðadeild sama félags. Á þessum tíma voru þau Óttarr og Ingrid að stofna fyrirtækið sitt Ísflex ehf. Óttarr hitti formann Ármanns og sagði að sig vantaði endurskoðanda. Þannig hófst samband okkar sem hélst alla tíð eða næstum 50 ár.

Þau hjón byggðu upp mjög öflugt fyrirtæki bæði með innflutningi og ekki síst framleiðslu á snyrtivörum. Astor-snyrtivörurnar voru áberandi í tugi ára og meira og minna allt gert hérlendis nema hrávaran sjálf. Síðan tók við hvert heimsþekkta merkið af öðru, sem þau fengu umboð fyrir.

Ísflex byrjaði starfsemi í Sigtúni 1 og er þar næstu 15 árin. Þá var orðið þröngt um og Óttarr ákveður að kaupa Starmýri 2, þar sem Víðir hafði verið til húsa, sem fyrsti stórmarkaður hérlendis. Húsið í ömurlegu ástandi þegar hann sýndi mér það. Hann var með allt á hreinu. Hér átti að breyta gluggum, hér þessu og svo framvegis. Eftir sex mánuði var búið að breyta þessu húsnæði þannig að enginn hefði trúað sem sá það áður.

Óttarr var með bíladellu. Keypti fimmtíu og eitthvað-módel af amerískum kagga, sem notaður var þegar veður var gott. Hann lét breyta Toyota-jeppanum sínum í jöklatrukk. Fór með honum í nokkrar jöklaferðir og hafði gaman af.

Óttarr var maður sem sá alltaf tækifæri og var fljótur að átta sig á kjarna málsins og enn fljótari að taka ákvarðanir. Hann hafði alltaf áhuga á fasteignaviðskiptum. Í einni jöklaferðinni hitti hann fasteignasala sem var með til sölu jarðhæð Mjóddarinnar, nú Nettó. Sagði við mig að nú þyrftum við að reikna. Viku seinna búinn að kaupa. Síðar Skeifuna 7 og síðan uppbyggingu Starmýrarinnar ásamt fleirum.

Starmýrin var honum alltaf í huga frá því hann keypti hana og mörg plön um uppbyggingu. Hann upplifði svo að sjá Starmýrina verða að fjögurra hæða lúxusíbúðarblokk.

Lengi bjuggu þau hjónin í Kópavogi en keyptu svo einbýlishús á Skeljatanga 7 með útsýni yfir hafið og Reykjanesið. Þau stækkuðu og breyttu og fallegra heimili er erfitt að finna.

Við hjónin höfum talsvert ferðast með Óttari og Ingrid og átt góða tíma saman.

Við Óttarr áttum mjög góða stund í lok september. Ég kom til hans að morgni, fengum okkur kaffi og ræddum um lífið og tilveruna í langa stund og hann sagðist kveðja sáttur þegar að því kæmi. Takk kæri vinur.

Blessuð sé minning Óttars Arnars.

Þorvaldur K. Þorsteinsson.

Í dag kveðjum við vin okkar, Óttar Halldórsson.

Fundum okkar Óttars bar fyrst saman í indíánatjaldi, sem reist hafði verið fáeina metra frá barnum í skandinavíska stúdentaklúbbnum í Karlsruhe. Hann var á leið á hótel í Karlsruhe þegar hann sá ljósaskilti á vegg sem á stóð: Skandinaviska Studentenklubben. Hann var snöggur að leggja bílnum og kíkja inn. Þar hittir hann svo fyrir Íslendinga og eitt leiddi af öðru.

Þegar þeir fréttu að hann væri á leiðinni í Svartaskóg, þá var ekki spurning að hann yrði að hitta mig, því ég var að fara í tækniskóla í Svartaskógi. Hófst þar með leit, sem endaði með því að ég fannst í indíánatjaldinu. Óttarr var á leið til Waldkirchen, en þar átti hann að kynna sér fyrirtæki sem fyrirtæki föður hans verslaði við. Þegar ég kem heim að loknu námi, 1963, tökum við upp þráðinn þar sem frá var horfið í Þýskalandi, en Óttarr var þá starfandi í fyrirtæki föður síns, Halldór Jónsson hf. Það hélst svo nokkuð í hendur að ég stofna eigið fyrirtæki um sama leyti og hann stofnar fyrirtækið Ísflex ehf., ásamt Þórarni Gíslasyni, sem hann síðar kaupir út þegar hann byrjar á heildverslun með snyrtivörur. Óttarr hafði góða þekkingu á því hvaða fyrirtæki, og þá hvaða vörur, væru líkleg til að verða vinsæl, enda blómstraði Ísflex hratt á næstu árum. Hans stóra gæfa í lífinu var Ingrid eiginkona hans, en Ingrid er þýskættaður snyrtifræðingur og lærð í útstillingum.

Þau kynntust um borð í Gullfossi þegar Óttarr kemur frá Þýskalandi 1962 og hún á leið í stóra ævintýrið. Það er þó ekki fyrr en 1963 að þau hittast aftur og endar með hjónabandi ári síðar.

Saman voru þau hjón hið fullkomna par fyrir þennan rekstur og bættu hvort annað upp.

Hann með gott vit á viðskiptahliðinni og hún með auga fyrir útliti og fegurð, auk þess sem Ingrid býr yfir meðfæddum persónutöfrum, sem greiddu götu Ísflex inn í erfiðan heim snyrtivörubransans.

Við höfum margt að þakka fyrir í gegnum árin. Hin mörgu ógleymanlegu heimboð og samverustundir. Þá rís e.t.v. hæst skemmtileg ferð okkar til Flórída árið 1986. Ferðin byrjaði í Disneyworld. Síðan fórum við á vesturströndina og heimsóttum Busch Garten í Tampa og var það jafnvel enn meira gaman en í Disney World. Í framhaldinu áttum við svo dýrðarinnar viku á íbúðahótelinu Alden í St. Petersburg.

Óttarr kynnti mig fyrir Frímúrarareglunni, og er ég honum afar þakklátur fyrir það, því þar hef ég kynnst einstaklingum sem ég hefði ekki viljað missa af. Það er góð tilfinning að vita að í jafn stórum hópi skuli blómstra bæði drenglund og einlæg vinátta.

Það var sárt að verða vitni að því að Óttarr skyldi ekki fá að njóta síðustu æviáranna í friðhelgi frá erfiðum veikindum. Að sama skapi var aðdáunarverð þrautseigja hans og dugnaður meðan á þessu ferli stóð.

Við kveðjum Óttar með þakklæti fyrir vináttu hans og ánægjulegar samverustundir í gegnum árin.

Hvíldu í friði við hið eilífa ljós.

Elsku Ingrid, við vottum þér, Ester, Íris og fjölskyldum þeirra innilega samúð.

Kristín og Kolbeinn Pétursson.

hinsta kveðja

Elsku opale.

Ég mun sakna þín sárt.

Þinn

Þorsteinn Arnar.

Elsku opale.

Það var alltaf svo gaman að tala við þig og skemmtilegast fannst mér að heyra allar sögurnar frá því þegar þú varst lítill strákur.

Þín verður sárt saknað og ég mun aldrei gleyma þér.

Þinn

Matthías Dagur.