Íslenska liðið byrjaði leikinn vel og var með yfirhöndina á fyrstu mínútunum. Eftir að Orri Steinn Óskarsson kom Íslandi hins vegar yfir snerist leikurinn algjörlega við. Liðið féll of langt til baka og hleypti þannig Slóvökunum algjörlega inn í leikinn

Íslenska liðið byrjaði leikinn vel og var með yfirhöndina á fyrstu mínútunum. Eftir að Orri Steinn Óskarsson kom Íslandi hins vegar yfir snerist leikurinn algjörlega við. Liðið féll of langt til baka og hleypti þannig Slóvökunum algjörlega inn í leikinn.

Slóvakar nýttu sér þetta, fengu fjórar hornspyrnur í röð, sem endaði að lokum með jöfnunarmarki.

Eftir þetta var leikurinn svo gott sem eign Slóvaka og íslenska liðið sá í raun aldrei til sólar eftir þetta.

Varnarleikurinn var mjög slakur og leikmenn liðsins hörfuðu of langt frá sóknarmönnum Slóvaka sem refsuðu grimmilega.

Miðjumenn liðsins fundu sig engan veginn og voru of oft langt út úr stöðu. Af því leiddi að sóknarmenn Slóvaka gátu keyrt hvað eftir annað á varnarmenn Íslands sem komu í raun engum vörnum við.

Sóknarleikurinn var slakur líka. Íslenska liðið fékk nokkur ágætis tækifæri til þess að sækja hratt á Slóvakana sem voru með háa varnarlínu í leiknum en í hvert skipti sem tækifæri gáfust var ákveðið að senda til baka og róa leikinn sem var illskiljanlegt enda réð íslenska liðið mjög illa við hápressu Slóvaka allan leikinn.

Frammistaða íslenska liðsins var fyrst og fremst vonbrigði en tilkoma Arons Einars Gunnarssonar gaf liðinu smá von og vonandi getur hann tekið meiri þátt í næstu leikjum.