Sigríður Haraldsdóttir fæddist í Reykjavík 10. apríl 1947. Hún varð bráðkvödd á heimili sínu 6. nóvember 2023.

Foreldrar hennar voru Haraldur Kristjánsson, f. 23. janúar 1912, d. 16. ágúst 2004, og Gerða Herbertsdóttir, f. 11. maí 1919, d. 26. mars 2010. Bróðir Sigríðar er Herbert, f. 24. ágúst 1942, giftur Hallfríði Ragnheiðardóttur, f. 18. október 1942. Sonur þeirra er Jón Ingi, maki Laufey Löve, synir þeirra eru Þorri Jakob og Haraldur Karl.

Hinn 17. september 1977 giftist Sigríður, eða Sidda eins og hún var alltaf kölluð, Gunnari Þór Ólafssyni, f. 19. ágúst 1938, d. 5. ágúst 2011. Foreldrar Gunnars voru Ólafur Jónsson, f. 28. apríl 1907, d. 25. mars 1975, og Lára Guðmundsdóttir, f. 12. september 1909, d. 21. júlí 1962.

Dætur Siddu og Gunnars eru: 1) Gerða, f. 29.1. 1968, maki Guðmundur Arnar Jónsson, f. 13.7. 1966, börn þeirra eru a) Arna Rán, f. 5.1. 1993, maki Arnar Þór Róbertsson, f. 13.3. 1990, sonur þeirra er Róbert Arnar, f. 26.7. 2021, og b) Jón Gunnar, f. 5.4. 1995, maki Guðrún Jónsdóttir, f. 2.4. 1996, börn þeirra eru Adam Hrafn, f. 17.7. 2020, og Aþena Ósk, f. 30.8. 2023. 2) Lára Guðrún, f. 23.4. 1980.

Sonur Gunnars er Birgir Þór, f. 18.2. 1956, maki Karen Rafnsdóttir, f. 3.1. 1956, börn þeirra eru: a) Gunnar Þór, f. 1.9. 1975, maki Anna Ósk Ómarsdóttir, f. 7.4. 1980, börn þeirra eru: Birgir Alex, f. 12.9. 2007, Emma Lísa, f. 29.5. 2010, og Viktor Logi, f. 15.10. 2014, b) Íris Ósk, f. 6.7. 1980, maki Davíð Hlíðkvist Ingason, f. 28.3. 1982, börn þeirra eru Mikael Ingi, f. 3.3. 2008, Alexander Þór, f. 15.3. 2013, Tara Líf, f. 8.1. 2015, og Aþena Ósk, f. 31.1. 2019, og c) Tara Sif, f. 8.4. 1992, maki Elfar Elí, f. 22.10. 1990, sonur þeirra er Adrían Elí, f. 11.2. 2021.

Sidda ólst upp á Ásvallagötu og lauk verslunarprófi frá Verzlunarskóla Íslands árið 1966 og námi frá Húsmæðraskólanum 1967. Hún starfaði meðal annars hjá skrifstofu síldarútvegsnefndar, ferðaskrifstofunni Úrval og FÍB. Árið 1978 fluttu þau Gunnar í Eikjuvog, sem var heimili Siddu til dánardags.

Sidda var áður félagi í Lionsklúbbnum Eir og síðar virkur félagi í Oddfellow, Rebekku stúku nr. 4 Sigríði í 25 ár. Þar mætti hún reglulega á fundi ásamt því að spila bridge með systrum sínum og fara í göngutúra með gönguhópnum yfir sumartímann.

Sidda og Gunnar voru vinmörg og stunduðu skíði, bæði innan lands og utan, og laxveiði á sumrin. Á seinni árum átti golfið hug þeirra allan. Hún hafði unun af því að njóta samveru með börnum og barnabörnum, ferðast með fjölskyldunni og vinkonum.

Útför Sigríðar fer fram frá Dómkirkjunni í dag, 17. nóvember 2023, og hefst athöfnin klukkan 15.

Elsku mamma mín.

Það er ólýsanlega sárt að þurfa að kveðja þig, og það svona skyndilega. Missirinn er mikill og ótímabær.

Þú varst svo falleg og hlý, geislandi, glæsileg og góð við alla sem voru í kringum þig. Fjölskyldan hefur misst mikið og söknuðurinn er gífurlegur og skarðið stórt, okkur þótti öllum svo vænt um þig og þér um okkur.

Ég er svo þakklát fyrir þann tíma sem ég fékk með þér og allar samverustundirnar okkar, sérstaklega eftir að pabbi kvaddi okkur. Við ferðuðumst oft mikið saman og verðum við systur ævinlega þakklátar fyrir ferðina okkar til Rómar í sumar, minningar sem við munum ávallt geyma.

Í sorginni og söknuðinum finn ég styrk og kærleika í gegnum fjölskylduna og stóra vinahópinn okkar, ásamt hlýju af öllum yndislegu minningunum og tilhugsuninni um endurfundi ykkar pabba.

Til himnaríkis ég sendi,

þér kveðju mamma mín.

Á því virðist enginn endi,

hve sárt ég sakna þín.

Þú varst mín stoð og styrkur,

þinn kraftur efldi minn hag.

Þú fældir burtu allt myrkur,

með hvatningu sérhvern dag.

Nú tíminn liðið hefur,

en samt ég sakna þín.

Dag hvern þú kraft mér gefur,

ég veit þú gætir mín.

(Steinunn Valdimarsdóttir)

Elsku mamma, ég sakna þín sárt og þakka fyrir allar dýrmætu minningarnar sem ég mun varðveita í hjartanu um ókomna tíð. Ég elska þig.

Þín dóttir,

Lára Guðrún.

Elsku mamma mín, þú fórst allt of fljótt. Áttir svo mikið eftir, svo mikið eftir í þínu glaða og fallega lífi.

Þú varst alltaf svo lífsglöð, alltaf brosandi. Þess vegna er svo sárt að hugsa til þess að þú fékkst ekki lengri tíma með okkur, við eigum svo margar fallegar og góðar minningar saman, höfum verið samrýmdar í öll þessi ár, ferðast mikið saman bæði innan- og utanlands. Fallegar og dýrmætar minningar.

Við Addi munum gera okkar besta til að varðveita fallegu minninguna þína og leyfa langömmubörnunum að vita hvað þú varst góð amma. Við Addi kveðjum þig með sorg í hjarta og miklum söknuði.

Þar sem englarnir syngja sefur þú

sefur í djúpinu væra.

Við hin sem lifum, lifum í trú

að ljósið bjarta skæra

veki þig með sól að morgni.

Drottinn minn faðir lífsins ljós

lát náð þína skína svo blíða.

Minn styrkur þú ert mín lífsins rós

tak burt minn myrka kvíða.

Þú vekur hann með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Guð varðveiti þína fallegu sál, við elskum þig.

Þín

Gerða og Arnar (Addi).

Elsku besta amma okkar, erfitt að trúa að þú sért farin. Það verður skrýtið að lifa án þín, að geta ekki kíkt í heimsókn eða hringt í þig.

Þú varst alltaf til staðar fyrir okkur og eigum við svo margar góðar minningar úr Eikjuvoginum. Erum svo þakklát fyrir að hafa átt þig sem ömmu, þú vildir og gerðir allt fyrir okkur.

Erum svo glöð að þú hafir fengið að kynnast Róbert Arnari, Adam Hrafni og Aþenu Ósk, þér fannst svo gaman að fylgjast með þeim vaxa og við efumst ekki um að þú munir fylgjast með þeim áfram. Við vitum að þú og afi eruð loksins sameinuð og eigið eftir að bralla ýmislegt saman.

Elskum þig og minning þín mun lifa að eilífu.

Við kveðjum þig amma, með söknuð í hjarta

en minning um faðmlag og brosið þitt bjarta.

Allar liðnar stundir um þig okkur dreymi

og algóður Guð á himnum þig geymi.

(Sigfríður Sigurjónsdóttir)

Þín barnabörn,

Arna Rán og Jón Gunnar.

Í minningu ástkærrar systur.

Andlát hennar gerði ekki boð á undan sér. Við töluðum saman á laugardegi, á mánudegi var hún dáin. Það var erfitt að trúa þessu. Smátt og smátt síaðist raunveruleikinn inn í vitundina. Litla systir mín, sem ég gætti eins og sjáaldurs auga míns í bernsku, var lögð af stað á undan mér í óvissuferðina sem á fyrir okkur öllum að liggja. Í plöggum frá afa okkar, Kristjáni Hanssyni, fann ég þessa vísu sem ber yfirskriftina „Þegar Sigga litla var skírð“:

Elsku barn með æsku ljóma

sem almáttugur drottinn gaf,

engla raddir helgar hljóma

heiðra nú þinn skírnardag.

Lifðu meðal blíðra blóma,

blessuð vertu nótt og dag.

Þegar til baka er litið er sem bæn afa hafi orðið að áhrínsorðum. Það var yfir systur minni birta hins blíða blómálfs sem orkaði á umhverfi hennar. Hún lagði sig fram við að ljá heiminum lið, ósérhlífin, örlát. Á samband okkar féll aldrei skuggi, við áttum þeirri gæfu að fagna að vinna saman í sátt að þeim sameiginlegu verkefnum sem lífið færði okkur.

Á kveðjustund er mér efst í huga þakklæti fyrir elskulega samfylgd í gegnum lífið.

Herbert.

Nú er sál þín rós

í rósagarði Guðs

kysst af englum

döggvuð af bænum

þeirra sem þú elskaðir

aldrei framar mun þessi rós

blikna að hausti.

(Ragnhildur Pála Ófeigsdóttir)

Að heilsast og kveðjast, það er lífsins saga.

Nú hefur hún Sidda vinkona kvatt okkur, öllum að óvörum, og er nú komin í fangið á Gunnari sínum. Eftir sitjum við þrjár, sorgmæddar og daprar.

Við vorum svo lánsamar að kynnast okkar elskulegu vinkonu snemma á lífsleiðinni og höfum haldið hópinn æ síðan.

Við gengum saman gegnum unglingsárin og brölluðum margt. Þá var lífið leikur.

Áður en við stofnuðum fjölskyldur var gjarnan farið út að skemmta sér og ekki settum við það fyrir okkur að taka fram saumavél og græja dress fyrir kvöldið.

Lífsgleði og kátína fylgdi hópnum okkar, þótt sólin skini ekki alla daga.

Þegar við svo stofnuðum fjölskyldur var ýmislegt gert saman, ferðast með börnin í skíðaferðir, til sólarlanda og í veiðiferðir. Sidda elskaði sumarbústaðaferðir okkar sem farnar voru á seinni árum, þar var spjallað, spilað og hlegið fram á nótt. Seinna ferðuðumst við svo saman til ýmissa landa.

Sidda var lífsglöð, mjög félagslynd og skemmtileg í góðra vina hópi. Hún var traust, vandvirk, samviskusöm, heiðarleg og dugleg að rækta vinasambönd.

Það var mikil gæfa þegar Sidda og Gunnar Þór rugluðu saman reytum, samband þeirra var ástríkt og einstaklega gott.

Hún bjó fjölskyldu sinni fallegt heimili sem hún rak af myndarskap og alltaf var gott að kíkja til hennar í kaffi og spjall.

Frá þessum tíma situr eftir hafsjór dýrmætra endurminninga, minningar sem gott er að eiga og ylja sér við.

Siddu er sárt saknað. Fyrir tryggð hennar og vináttu viljum við þakka innilega.

Elsku Gerða, Lára Guðrún, Birgir Þór og aðrir ástvinir, við biðjum góðan Guð að gefa ykkur styrk í sorginni.

Guðríður (Systa),
Margrét (Magga) og
Ragnhildur (Ragga).

Liljublóm sem að leit sólu mót

á lífsins morgni var í burtu hrifið slitið óvænt upp af sinni rót

ekkert finnst þar síðan nema grjót

Aftanstund og örlítill þeyr

í eyra mér er hvíslað dimmum rómi:

lætur eftir sig, það líf, sem deyr lítið skarð í hópinn, ekki meir.

Hjálpar alltaf að

eiga í sínum hjartastað ljóselska minning ljúfa

Sorgin er ein á yfirferð

ótti af henni mannfólkinu stendur hún er bæði köld og viðsjárverð og velur ekki neina sáttagerð

Liljublóm sem að leit sólu mót

á lífsins morgni var í burtu hrifið slitið óvænt upp af sinni rót

ekkert finnst þar síðan nema grjót

Hjálpar alltaf að

eiga í sínum hjartastað ljóselska minning ljúfa

(Ásgeir Einarsson / Einar Einarsson / Guðmundur Jónsson)

Takk fyrir allt elsku Sidda.

Nína Björk.

Í dag kveðjum við með miklum söknuði kæra æskuvinkonu, Sigríði Haraldsdóttur, og þökkum langa og góða vináttu.

Við vorum flestar samferða í skóla, sumar í Réttó og helmingur hópsins fór í Versló en þar kynntumst við nokkrar Siddu og buðum henni í nýstofnaðan saumaklúbb sem nú, rúmlega 60 árum síðar, er enn virkur og veitir okkur alltaf jafnmikla ánægju. Nú erum við í þriðja skipti á örfáum árum að kveðja vinkonu úr klúbbnum en Kristín og Björg höfðu áður kvatt okkur. Það minnir á hvað lífið er dýrmætt og hversu mikilvægt er að viðhalda vináttu með því að hittast reglubundið og gleðjast saman. Sidda tók sannarlega þátt í því. Það hefur verið verðmætt að geta fylgst með börnum hvor annarrar í gegnum tíðina og þau verið sífelld uppspretta umræðna í klúbbnum okkar enda hópurinn orðinn stór.

Sidda var gift Gunnari Ólafssyni útgerðarmanni og áttu þau tvær dætur, Gerðu og Láru. Gunnar lést fyrir tólf árum, sem var henni mikið áfall en mikil og náin samskipti Siddu við dætur og barnabörn hafa verið henni mikill styrkur og nú eru komin langömmubörn sem við fylgjumst grannt með. Sidda og Gunnar ferðuðust oft og víða og stunduðu bæði skíðaferðir og golf. Heimili Siddu er glæsilegt og hún var alla tíð mikill gestgjafi og hafði gaman af að taka á móti gestum og nutum við vinkonurnar þess vel.

Við vinkonurnar gerðum ýmislegt saman auk þess að halda saumaklúbba með tilheyrandi bakstri og eldamennsku. Skemmtum okkur saman á yngri árum og fórum til útlanda í tilefni af stórafmælum og var Sidda þar hrókur alls fagnaðar enda einstaklega skemmtileg kona.

Að leiðarlokum er okkur þakklæti í huga og við sendum fjölskyldu Siddu okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Bergþóra, Brynja, Ebba, Erna og María.