Elsa Kemp fæddist 17. október 1940 í Reykjavík. Hún lést á Landspítala í Fossvogi 2. október 2023.

Foreldrar Elsu voru Þóra Kemp, f. 8. febrúar 1913, d. 30. júní 1991, og Júlíus Kemp skipstjóri, f. 5. febrúar 1913, d. 19. febrúar 1969. Systkini hennar eru Lúðvík, f. 1944, og Bára, f. 1949, d. 2021.

Elsa útskrifaðist frá Hjúkrunarskóla Íslands í október 1969. Hún starfaði sem hjúkrunarfræðingur á Landspítala, Sahlgrenska sjúkrahúsinu í Gautaborg, á Vífilsstöðum og á Landakoti.

Elsa giftist Ólafi Emil Ólafssyni lyfjafræðingi 26. janúar 1974. Börn þeirra eru: 1) Júlíus, f. 1974, kvæntur Mörtu Pulido Polo. Börn þeirra eru Julia og Nicolas. 2) Ólafur Björgvin, f. 1978. 3) Hildigunnur, f. 1980, gift Vilhelm Grétari Ólafssyni. Börn þeirra eru Ólafur Grétar, Hjalti Páll og Róbert Smári.

Útför Elsu hefur farið fram í kyrrþey.

Ástkær vinkona, Elsa Kemp, er látin.

Fyrir rúmlega 50 árum réðu örlögin því að við þrjár bjuggum allar í sænsku borginni Gautaborg. Vegir okkar lágu saman og vináttan, sem myndaðist, hélst ævilangt. Á þessum tíma var Elsa dugleg að afla sér menntunar og reynslu í sínu fagi á erlendri grundu og alltaf uppskar hún einhver ævintýri í leiðinni.

Árin liðu í leik og starfi hér heima en fastur liður tilverunnar var að gera eitthvað skemmtilegt saman. Setjast inn á notalegt kaffihús, fara í ökuferð um nærliggjandi sveitarfélög með nesti og nýja skó. Stundum létum við Hafnarfjörðinn alveg nægja. Meira að segja skelltum við okkur til Stokkhólms – m.a. til að æfa okkur í sænskunni.

Elsa hafði sterkan persónuleika, var dugnaðarforkur og það sópaði að henni. Ef hún frétti af veikindum eða erfiðleikum var hún fljót að koma með góð ráð – og hún fylgdi þeim eftir. Vandamálið gat bæði verið barn og bíll. Hún vissi allt um bíla. Muna ekki allir eftir henni akandi rólega um götur borgarinnar á sínum rauða Volvo? Hún var eins og drottning.

Brúðkaup barnanna okkar, skírnir og fermingar voru góðar samverustundir. Afmælin okkar voru í hávegum höfð. Það voru veislur í fínni kantinum og var Elsa næst í röðinni. Hún var mjög flink í höndunum og átti hún ekki langt að sækja það. Meistarastykkið hennar var skírnarkjóll sem hún prjónaði fyrir barnabörnin. Ef hún greip bók til að lesa þurfti hún helst að vera um einhverja ættfræði.

Útlönd voru ekkert efst á blaði hjá Elsu. Hún sagðist geta ferðast um allan heiminn í sjónvarpinu en þó var Spánn, þar sem Júlíus býr með fjölskyldu sinni, og Bandaríkin, þar sem Hildigunnur var um tíma með sitt fólk, í uppáhaldi. Það var líka gaman að hlusta á hana þegar hún var að lýsa ferðalagi þeirra Ólafs Björgvins til New York. Allir sem þekktu Elsu vita að hún hafði afskaplega gaman af því að spjalla við fólk á förnum vegi þó að hún þekkti engin deili á því. Hún var líka dugleg að nota símann heima við. Það var hennar stíll að spjalla vel og lengi.

Elsa var góður hjúkrunarfræðingur. Hún endaði sinn starfsferil á Landakoti og vann þar á erfiðri deild. Sjúklingurinn var alltaf númer eitt hjá henni og ef á þurfti að halda settist Elsa á rúmstokkinn hjá honum og hóf sitt rólega spjall.

Það er svo stutt síðan Elsa var kölluð í önnur verkefni að við gætum alveg hringt í númerið hennar – svona af gömlum vana. Nei, það er á tali. Hún er komin í annað símkerfi. Mamma hennar og Bára tilheyra því kerfi og pabbi hennar siglir um himinsins höf.

Við kveðjum þessa mögnuðu vinkonu okkar. Blessuð sé minning Elsu Kemp.

Sigríður og Björg.

Okkar kynni hófust í Hjúkrunarskóla Íslands 8. ágúst 1963 er við hófum nám í hjúkrun. Það var tekið eftir Elsu, glæsileg ung kona og mikil reisn yfir henni, það gustaði af henni. Hún var hreinskiptin og hafði sterkar skoðanir á mönnum og málefnum. Elsa var mannblendin, glaðvær og hópurinn hafði mjög gaman af því að fara út að dansa. Oft var glatt á hjalla á heimavistinni og margt brallað. Elsa var dugleg og ósérhlífin, m.a. var hún hjúkrunarforstjóri á Vífilsstöðum og hjúkrunarfræðingur til margra áratuga á Landakoti.

Hennar er sárt saknað. Hvíli hún í friði.

Þín gullnu spor

um ævina alla

hafa markað

langa leið.

Skilið eftir

ótal brosin,

og bjartar minningar,

sem lýsa munu

um ókomna tíð.

(Hulda Ólafsdóttir)

Fyrir hönd skólasystra,

Guðríður Þorleifsdóttir.