Kristján Hall
Kristján Hall
Hafliði var auðugur maður, og af þeim sökum hefur það verið frekar lítið mál, að gera sér varnarvirki handan Vesturhópsvatns.

Kristján Hall

Hlutur Vestur-Húnvetninga er gildur í fornum ritum Íslendinga, bókagerð landsmanna hófst þar, og Sturla Þórðarson byrjaði þar ritverk sín um Sturlunga, enda var afi hans og nafni þar fyrst til nefndur í átökum þess tíma.

Þar bjuggu stórmenni, mann fram af manni, og búa enn. Einn þeirra hét Hafliði Másson, og var einn voldugasti maður landsins á sínum tíma, og tók meðal annars að sér að rita hina miklu lögbók, sem við hann er kennd. Hann bjó á Breiðabólstað í Vesturhópi.

Hafliði var í engu vopnfimur, nema með fjaðurstafnum, en lenti samt í illdeilum á Alþingi, og þá vegna þess, að hann handlék öxi ófimlega, og missti þar af leiðandi tvo fingur og hálfan. Sá hét Þorgils Oddason, höfðingi mikill vestan úr Dölum, sem öllu liðlegar til höggs reiddi, og leiddu þær deilur til mikilla átaka og fjölmennra, þegar heim var komið, svo og á þingi sumarið eftir.

Það hlýtur að hafa verið erfitt haust og vetur norður á Breiðabólstað, þegar hvenær sem var mátti búast við illvígum mannfjölda að vestan, sem lét sér fátt fyrir brjósti brenna, og vissara að hafa varann á. Þess vegna má fastlega gera ráð fyrir því, að Hafliði hafi ekki haldið sig heima við, en flutt sig á öruggari stað. Enda fór hann snemma um vorið suður, til bandamanna sinna, að undirbúa málsókn sína.

Hafliði var auðugur maður, og af þeim sökum hefur það verið frekar lítið mál, að gera sér varnarvirki handan Vesturhópsvatns, enda hæg heimatökin, ef hann hefur dvalið á Borg þennan vetur, það er stórbýli og hverjum manni verðugur verustaður.

Þegar hann síðan fékk á þingi sjálfdæmi um fébætur í þessum málum öllum, og sumir höfðu á orði að dýr mundi Hafliði allur, ef svo kostaði hver fingurinn, þá mæltu þar allir nema Þorgils, sem greiða átti bæturnar, að slíkt fé hefði ekki áður sést. Líklega hefur þó Þorgils vitað, hversu mikinn kostnað Hafliði hafði haft af virkisgerðinni fyrir norðan, því hann sagði einmitt, að bæturnar væru sanngjarnar.

Að önnur skýring á gerð Borgarvirkis sé til fæ ég ekki séð, en svo lærir sem lifir.

Höfundur er eftirlaunaþegi.