Svala Stefánsdóttir fæddist 7. júní 1961. Hún lést 4. nóvember 2023.

Foreldrar hennar voru Stefán Júlíusson bóndi á Breiðabóli, f. 25. janúar 1924, d. 10. september 2008, og Ásta Sigurjónsdóttir húsmóðir á Breiðabóli, f. 25. júlí 1931, d. 1. júlí 2012.

Svala var fimmta í röð átta systkina, hin eru: Hilmar f. 1951, Vignir og Heimir (tvíburar). f. 1952, Aðalheiður, f. 1956, Alda og Linda (tvíburar), f. 1965 og síðastur í röðinni er Jón Haukur, f. 1973.

Svala ólst upp á Breiðabóli á Svalbarðsströnd og gekk í skóla á Svalbarðseyri og síðar á Hrafnagili.

Svala giftist 26. maí 2011 eftirlifandi eiginmanni sínum, Þresti Óskari Kolbeins, f. 17. maí 1958. Þau bjuggu saman í rúm 45 ár og eignuðust tvö börn: 1) Hildur Ósk, f. 15. nóvember 1978, maki Atli Snær Sigvarðsson, f. 24. ágúst 1981. Þau eiga þrjá syni en fyrir átti Hildur Freyju Blæ. Synir þeirra eru Karvel Leví, Þórir Erik og Arnór Ýmir. 2) Pétur Ingi, f. 26.ágúst 1984, maki Eydís Stefanía Kristjánsdóttir, f. 2. janúar 1987. Börn þeirra eru Aron Emil, Elvar Breki og Emma Karen.

Svala og Þröstur hófu búskap á Svalbarðseyri 1980 og bjuggu þar óslitið til 2005 að þau fluttu til Akureyrar og hafa búið þar síðan.

Svala starfaði hjá Kaupfélagi Svalbarðseyrar (KSÞ) til 1986. Í um það bil 13 ár starfaði hún sem landpóstur á Svalbarðsströnd ásamt manni sínum, að undanskildu einu ári. Það ár vann hún hjá Höldi ehf. Um aldamótin 2000 hóf hún störf hjá Brauðgerð Kr. Jónssonar og starfaði þar í ein 16 ár. Hún færði sig um set til Mjólkursamsölunnar á Akureyri og starfaði þar í sjö ár, eða uns heilsa hennar leyfði ekki meira.

Útför hennar verður gerð frá Akureyrarkirkju í dag, 17. nóvember 2023, klukkan 13.

Elsku hjartans Svalan mín hefur fengið hvíldina löngu eftir erfið veikindi. Takk elskan fyrir börnin okkar, barnabörnin og alla aðra fylgifiska okkar í gegnum rúm 45 ár saman. Mig langar að senda með þér í sumarlandið fallega textann hennar Hólmfríðar Óskar Samúelsdóttur, við lagið hennar, sem ég spilaði svo oft fyrir þig síðustu daga þína hjá okkur, ég elska þig alltaf.

Elska þig alltaf

Ég elska þig alltaf

heitar en heitt.

Þú vita skalt alltaf

því ekkert fær breytt.

Jafnvel þótt sólin hætti að skína.

Þó svo að alltaf rign'út í eitt.

Mun ég ávallt þig elska

heitar en heitt.

Ég elska þig meira

en orð geta lýst.

Já það máttu heyra

eins oft og þú kýst.

Því ævilangt muntu eiga mitt hjarta,

þér gefa skal kærleik, hlýju og traust.

Mun þerra þín tár, vekja brosið þitt bjarta,

sumar, vetur, vor sem haust.

Ég alltaf mun elska þig endalaust.

Þig alltaf mun elska skilyrðislaust.

Ég alltaf mun elska þig endalaust.

(Hólmfríður Ósk Samúelsdóttir (Hófí Samúels))

Þinn eiginmaður,

Þröstur Kolbeins.

Elsku tengdamamma, það er voðalega sárt að kveðja þig. Við huggum okkur þó við það að nú líður þér betur eftir erfið veikindi.

Takk fyrir að bjóða mig velkomna í fjölskylduna fyrir næstum 20 árum og leyfa mér að giftast uppáhalds syni þínum. Takk fyrir öll fallegu fötin sem þú prjónaðir á börnin mín, minning um þig mun lifa í fötunum þegar þau ganga áfram til barnabarnabarna þinna. Teppin sem þú prjónaðir fyrir hvert barn voru svo mikið notuð að þau hanga varla saman lengur. Þú varst algjör snillingur í höndunum.

Þú kynntir þá dásamlegu jólahefð fyrir mér að skera út og steikja laufabrauð fyrir hver jól. Á hverju ári hefur þessi hefð haldist, fyrst vorum það bara við fjögur, síðan hafa börnin bæst við eitt af öðru og höfum við öll notið þessarar stundar og börnin orðið betri með hverju árinu í því að skera út. Þessi hefð verður virkilega tómleg án þín fyrir þessi jól. Í fyrra lagðirðu mér línurnar og kenndir mér allt sem þarf að kunna þegar kemur að því að steikja laufabrauð þannig að við gætum haldið hefðinni á loft án þín. Við munum svo sannarlega gera það þó það verði aldrei eins án þín.

Elsku tengdamamma, hvíldu í friði í sumarlandinu þar sem alltaf er gott veður og dásamlegt að vera. Þar til við hittumst aftur, hafðu það gott í faðmi foreldra þinna.

Eydís Stefanía.

Elsku amma okkar.

Hér að hinstu leiðarlokum

ljúf og fögur minning skín.

Elskulega amma góða

um hin mörgu gæði þín.

Allt frá fyrstu æskudögum

áttum skjól í faðmi þér.

Hjörtun ungu ástúð vafðir

okkur gjöf sú dýrmæt er.

Hvar sem okkar leiðir liggja

lýsa göfug áhrif þín.

Eins og geisli á okkar brautum

amma góð, þótt hverfir sýn.

Athvarf hlýtt við áttum hjá þér

ástrík skildir bros og tár.

Í samleik björt, sem sólskinsdagur

samfylgd þín um horfin ár.

Fyrir allt sem okkur varstu

ástarþakkir færum þér.

Gæði og tryggð er gafstu

í verki góðri konu vitni ber.

Aðalsmerkið: elska og fórna

yfir þínum sporum skín.

Hlý og björt í hugum okkar

hjartkær lifir minning þín.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Þín barnabörn,

Aron Emil, Elvar Breki og Emma Karen.

Elsku Svala mín.

Margar minningar um góðar samverustundir með kærri vinkonu eru mér efst í huga þegar þú hefur verið kvödd burt úr þessum heimi alltof snemma.

Okkar fyrstu kynni voru fyrir meira en fjörutíu árum á Svalbarðseyri, sem breyttust síðan í meiri og betri vináttu og þróaðist með okkur hjónum mjög góður vinskapur við ykkur Þröst. Fjöldinn allur af góðum samverustundum. Spilakvöldum, bíltúrum með nesti, útilegur, bústaðaferðir, tónleikar, borða góðan mat og já líka ferðir erlendis.

Svala var mjög handlagin og hvert listaverkið á eftir öðru spratt eins og gorkúlur úr höndum hennar. Peysur, teppi, kjólar, vettlingar, sokkar og svo margt fleira.

Dætur mínar fengu svo sannarlega að njóta góðs af myndarskap þínum, áttu þær margar peysur frá þér.

Hvort sem ég var að baka eða gera handavinnu og vantaði aðstoð eða svar við einhverjum spurningum þá varst þú minn viskubrunnur. Þú kenndir mér svo margt, Svala mín. Til dæmis lykkja saman undir höndum, fella af með teygjanlegri affellingu, skera gerdeig með tvinna svo það klesstist ekki saman og svo ótal margt fleira.

Þú hringdir í mig í nóvember 2021 og sagðir mér að það sæist einhver blettur við lunga hjá þér og værir þú að fara í frekari rannsóknir. Mikill kvíði sótti að mér en ég reyndi þó að stappa í þig stálinu. Í desember kemur svo niðurstaðan. Krabbamein sem ekki er skurðtækt og ólæknanlegt. Vá, Svala, hvað þú tókst þessum fréttum með miklu æðruleysi. Hófst svo hver lyfjameðferðin á eftir annarri og allt leit betur út. Haustið 2022 fórstu svo til Spánar og áttir þar mjög góða daga í góðum félagsskap.

Í mars sl. fékkstu smá krampaköst sem endaði í einu stóru kasti sem gjörbreytti lífi þínu mín kæra. Það var svo sorglegt að horfa upp á þig sterka kona að verða svona ósjálfbjarga og tapa að stórum hluta minninu líka. Í apríl varstu síðan lögð inn á Sjúkrahúsið á Akureyri og þar varstu þar til í ágúst er þú fluttir í Asparhlíðina á Dvalarheimilinu Hlíð. Þú komst samt aðeins til baka þegar líða tók á sumarið og eftir það varstu meira meðvituð um hvernig staðan var og ekki alltaf sátt. Við reyndum að gera líf þitt léttara með heimsóknum og fara aðeins með þig út. Tók ég þig með í saumaklúbb í maí sl. í Litla-Hvamm, sem var frábær kvöldstund. Síðasta ferðin þín og síðasta samverustund okkar klúbbsystra saman var í saumaklúbb hjá mér 5. okt. sl. Þetta var erfið en samt svo yndisleg kvöldstund fyrir okkur allar klúbbsysturnar í Lykkjunum.

Elsku Þröstur, Hildur Ósk, Pétur og systkini Svölu, ég sendi ykkur og fjölskyldum ykkar mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Nú er komið að kveðjustund, elsku Svala mín. Vona ég að þú sofir betur og ég veit að þér líður mun betur í sumarlandinu góða.

Þín vinkona,

Helga Eymunds.